Tvenna Varnarmaðurinn Merih Demiral fagnar seinna marki sínu fyrir 
Tyrki gegn Austurríki í slag liðanna í Leipzig í gærkvöld.
Tvenna Varnarmaðurinn Merih Demiral fagnar seinna marki sínu fyrir Tyrki gegn Austurríki í slag liðanna í Leipzig í gærkvöld. — AFP/Angelos Tzortzinis
Holland og Tyrkland mætast í fjórða og síðasta leik átta liða úrslita Evrópumóts karla í fótbolta á laugardagskvöldið eftir að hafa unnið síðustu leiki sextán liða úrslitanna í gær.

EM í fótbolta
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Holland og Tyrkland mætast í fjórða og síðasta leik átta liða úrslita Evrópumóts karla í fótbolta á laugardagskvöldið eftir að hafa unnið síðustu leiki sextán liða úrslitanna í gær.

Hollendingar unnu mjög sannfærandi sigur á Rúmenum í München, 3:0, og Tyrkir unnu sannkallaðan spennutrylli gegn Austurríkismönnum, 2:1, í Leipzig.

Varnarmaðurinn Merih Demiral var allt í öllu hjá Tyrkjum en hann kom þeim yfir eftir aðeins 57 sekúndur og bætti við skallamarki á 59. mínútu. Bæði mörkin komu eftir hornspyrnur hins unga Arda Güler.

Michael Gregoritsch minnkaði muninn fyrir Austurríki á 67. mínútu og eftir það var spennan gríðarleg.

Markvörðurinn Mert Günok var hetja Tyrkja en undir lok uppbótartímans varði hann á ótrúlegan hátt skalla frá Christoph Baumgartner úr dauðafæri og kom í veg fyrir að leikurinn færi í framlengingu.

Tyrkir hafa þar með jafnað sinn næstbesta árangur á EM. Þeir komust í átta liða úrslit árið 2000 og hrepptu bronsverðlaunin árið 2008 en hafa eftir það tvívegis fallið út í riðlakeppninni.

Lið Austurríkis náði ekki að fylgja eftir óvæntum sigri sínum í D-riðli keppninnar. Ralf Rangnick hefur gert góða hluti með liðið en ævintýrið er á enda. Þetta er annað Evrópumótið í röð þar sem Austurríki fellur út í 16-liða úrslitum og lengra hefur liðið aldrei náð.

Gakpo aðalmaðurinn

Holland náði fljótt undirtökunum gegn Rúmeníu og Cody Gakpo skoraði á 20. mínútu vinstra megin úr vítateignum, með föstu skoti í hornið nær, 1:0.

Hollendingar fengu síðan hvert marktækifærið á fætur öðru en náðu ekki að gera út um leikinn fyrr en á lokamínútunum. Gakpo, sem var í stóru hlutverki, lagði upp annað markið fyrir varamanninn Donyell Malen á 83. mínútu. Í uppbótartímanum skoraði svo Malen aftur eftir skyndisókn og þrjú mörk skildu því liðin að í lokin.

Hollendingar eru þar með komnir í átta liða úrslitin í fyrsta skipti í sextán ár, eftir mikla velgengni fram að því. Þeir státa af fernum bronsverðlaunum á EM, 1976, 1992, 2000 og 2004, og urðu Evrópumeistarar árið 1988.

Rúmenar kveðja hins vegar EM en náðu þó sínum besta árangri í keppninni í 24 ár, eða síðan þeir komust í átta liða úrslit árið 2000.

Átta liða úrslitin eru því þannig að Spánn mætir Þýskalandi, Frakkland mætir Portúgal, England mætir Sviss og Holland mætir Tyrklandi.