Við hljóðverið Þorvaldur Gylfason, Jón Kristinn Cortez, Íris Sveinsdóttir 
og Björn Thoroddsen fremst. Þorsteinn Gunnarsson, Tryggvi Hübner og 
Þórir Baldursson fyrir aftan Björn. Aftast eru Rósmann Mýrdal, Lýður 
Árnason, Pétur Hjaltested og Vignir Jóhannsson.
Við hljóðverið Þorvaldur Gylfason, Jón Kristinn Cortez, Íris Sveinsdóttir og Björn Thoroddsen fremst. Þorsteinn Gunnarsson, Tryggvi Hübner og Þórir Baldursson fyrir aftan Björn. Aftast eru Rósmann Mýrdal, Lýður Árnason, Pétur Hjaltested og Vignir Jóhannsson.
Hljómsveitin The Icelandic POP Orchestra, TIPO, var stofnuð í fyrra vegna ferðar til Lundúna til að taka upp 12 lög í upptökustúdíóinu Abbey Road, sem bandið The Beatles gerði frægt á sínum tíma.

Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is

Hljómsveitin The Icelandic POP Orchestra, TIPO, var stofnuð í fyrra vegna ferðar til Lundúna til að taka upp 12 lög í upptökustúdíóinu Abbey Road, sem bandið The Beatles gerði frægt á sínum tíma.

Lýður Árnason, læknir og tónlistarmaður, og Pétur Hjaltested upptökustjóri fengu hugmyndina, þegar þeir voru við upptökur í Hljóðsmiðjunni, hljóðveri Péturs, í Hveragerði í fyrrasumar. „Ég sá þar gamla míkrófóna og spurði hann út í þá,” segir Lýður um byrjunina.

„Þegar hann sagði að þetta væri bítlamíkrófónar eins og notaðir væru í Abbey Road-stúdíóinu tókum við málið lengra og ræddum um hvort við ættum ekki að fara til Lundúna og prófa að taka lög upp í Abbey Road.”

Bítlaskotið rokk

Pétur og Páll ganga ekki inn í musteri rokksins eins og Bónus, en félagarnir vildu láta á það reyna hvort þeir fengju ekki tíma. „Þetta var hellings mál,” upplýsir Lýður. Þeir hafi vitað að Fjallabræður hafi tekið upp lög í stúdíóinu og þar sem Lýður hafi þekkt Halldór Gunnar, gítarleikara og kórstjóra, ágætlega hafi hann leitað í smiðju hans. „Eftir það gekk allt eins og í sögu en þú hringir ekki í Abbey Road og segist ætla að koma á morgun. Við náðum sambandi í fyrrahaust og fengum upptökutíma í maí.”

Þegar félagarnir könnuðu hug annarra tónlistarmanna til að taka þátt í ævintýrinu með þeim stóð ekki á jákvæðum viðbrögðum. „Eina skilyrðið sem við settum var að menn kæmu ekki með ábreiður heldur eigið, frumsamið efni, bítlaskotið rokk. Þekktir tónlistarmenn voru æstir að fara með okkur og við tókum upp tólf lög.”

Í hópnum voru Þorsteinn Gunnarsson trommuleikari, Jón Kristinn Cortez bassaleikari, Björn Thoroddsen og Tryggvi Hubner gítarleikarar, Þórir Baldursson, orgelleikari og hljómsveitarstjóri, Pétur Hjaltested píanóleikari, Íris Sveinsdóttir, Jón Rósmann Mýrdal, Lýður Árnason og Þorvaldur Gylfason söngvarar og Vignir Jóhannsson listrænn hönnuður. „Gestagítarleikari var svo hinn heimsþekkti Robben Ford, sem meðal annars lék með George Harrison á hinum víðfrægu Bangladess-tónleikum,” segir Lýður.

Bítlarnir Ringo Starr, Paul McCartney, George Harrison og John Lennon hljóðrituðu margar þekktar plötur í stúdíóinu og Lýður segir að það hafi verið sérstök tilfinning að koma inn í Abbey Road. Menn hafi kiknað í hnjáliðunum og ónefndur tónlistarmaður, sem hafi marga fjöruna sopið í bransanum, hafi ekki getað haldið aftur af sér. „Hann var grátklökkur þegar hann settist í hornið hans Ringós. Það var sérstakt að koma þarna inn, en vel var tekið á móti okkur og við fundum bara fyrir gleði og ánægju. Þetta kostar sitt en kostnaðurinn dreifist á marga og gamanið er ótvírætt.”

Upptökurnar gengu vel og stefnt er að því að setja lögin jafnt og þétt á streymisveitur í sumar eða þegar búið verður að fullvinna þau. Fyrsta lagið, Up to You, eftir Björn Thoroddsen er komið út og ætlar TIPO meðal annars að spila það í árlegri garðveislu Bjössa Thor, sem hefst klukkan 15 á Hringbraut 63 í Hafnarfirði á laugardag. „Við spilum nokkur laganna í garðveislunni,” segir Lýður.