Halldór Snær Kristjánsson með samstarfsfélögum í Myrkur Games.
Halldór Snær Kristjánsson með samstarfsfélögum í Myrkur Games. — Morgublaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Yfirbragð íslensks leikjaiðnaðar mun breytast umtalsvert á næstu 12-18 mánuðum að mati Halldórs Snæs Kristjánssonar, formanns Samtaka leikjaframleiðenda, IGI, og framkvæmdastjóra tölvuleikjafyrirtækisins Myrkur Games.

„Við erum í einstakri stöðu í leikjaiðnaðinum á Íslandi. Það er svipmyndarbreyting fram undan. Saga iðnaðarins hefur að miklu leyti snúist í kringum CCP síðustu tvo áratugina. Það hefur verið okkar stóra og flotta fyrirtæki í fjölda ára en vegna mikillar innspýtingar af fjármagni inn í greinina á síðustu árum munum við fara úr því innan tíðar að vera með eitt kjarnafyrirtæki á markaðnum yfir í að vera með heilan iðnað,” segir Halldór í samtali við ViðskiptaMoggann.

Þróun tekur mörg ár

Hann segir það vera eðli tölvuleikjafyrirtækja að þróun vörunnar taki mörg ár. Því líði oft langur tími án þess að neitt sérstakt sé að frétta og umheimurinn viti þar af leiðandi lítið hvað sé að gerast á bak við tjöldin.

„Ef fólk væri beðið að nefna kannski þrjú íslensk tölvuleikjafyrirtæki er ég viss um að mörgum þeirra vefðist tunga um tönn, þó að fyrirtækin séu tuttugu talsins. Fyrirtækin eru ekki það vel þekkt meðal almennings. En þegar leikjafyrirtækin byrja að kynna afrakstur erfiðisins á næstu mánuðum og misserum er ég handviss um að fólk sjái að þessi kröftugi iðnaður er orðinn stór og þroskaður og býr að mjög fjölbreyttum og ólíkum fyrirtækjum sem framleiða leiki fyrir síma, net, PlayStation, Xbox o.f.l.”

Halldór segir að öll vinnan síðustu ár muni skila sér í flottum fyrirtækjum og öflugu starfsfólki.

„Ég er oft spurður að því hvaða fyrirtæki verði þá næsta CCP hér á landi. Ég held að svarið sé að það verður ekki eitthvert eitt fyrirtæki heldur stór flóra af fyrirtækjum. Það er fallegt og skemmtilegt svar við spurningunni. Það eru mörg mjög öflug og spennandi fyrirtæki um það bil að fara að stíga fram.”

Witcher sló öll met

Halldór ber Ísland saman við Pólland.

„Það sem er að fara að gerast hér verður svipað og gerst hefur í öðrum löndum. Ég get nefnt Pólland sem dæmi. Þar var tölvuleikjaiðnaðurinn ekki vel þekktur framan af og fátt sem menn vissu um hann. En svo kom tölvuleikjaframleiðandinn CD Projekt Red fram á sjónarsviðið með tölvuleikinn The Witcher sem sló öll met. CD Project Red varð einn stærsti útflytjandi landsins og frægt varð þegar forsætisráðherra Póllands færði forseta Bandaríkjanna eintak af Witcher-leik að gjöf.”

Halldór segir að nokkrum árum síðar hafi leikjaiðnaðurinn í landinu sprungið út og blómstrað sem aldrei fyrr.

„Pólverjar eru í dag mjög framarlega í tölvuleikjaþróun. Samskonar bylgja er að verða til hér á landi og það verður gríðarlega spennandi að fylgjast með því.”

Formaður IGI vill þó koma því skýrt á framfæri að árangur komi ekki sjálfkrafa. Margt þurfi að smella saman í starfsumhverfi greinarinnar.

„Það þarf að halda áfram að útskrifa fólk til starfa í hugbúnaðargerð og tengdum greinum og halda leiðinni greiðri fyrir alþjóðlega sérfræðinga inn í iðnaðinn. Þá þarf að tryggja að skattahvatar vegna staðfestra rannsóknar- og þróunarverkefna verði áfram við lýði og festir í sessi. Allt þetta er nauðsynlegt til að tryggja framgang tölvuleikjaiðnaðar og skapa hér hálaunastörf, þekkingu og auknar útflutningstekjur.”

Hástökk í tekjum

Eins og sést á töflunni hér til hliðar voru tekjur iðnaðarins á síðasta ári 80 milljónir bandaríkjadala, eða 11,5 milljarðar króna. Spurður að því hvernig þessar tekjur gætu þróast á næstu árum segist Halldór ekki vera með fasta tölu í huga.

„En við getum litið til þess að flest fyrirtækin eru með óútgefnar vörur í handraðanum. Við gætum vel verið að horfa á hástökk í tekjum á næstu árum.”

Einhver þessara fyrirtækja eru líka, eins og Halldór nefnir, með útgefna leiki tilbúna og eru á fullu við að markaðssetja þá og selja. Það gengur vel að sögn Halldórs.

Spurður um fjárfestingu í iðnaðinum sem minnkaði í fyrra miðað við árið á undan segir Halldór þær koma í bylgjum. Mikið fé hafi t.d. komið inn í faraldrinum.

„Þegar fjármagn er komið í eitt verkefni líða kannski fjögur ár þar til þörf er á meiri peningum. Þá kemur kannski önnur fjármögnunarbylgja.”

Hann segir að rétt eins og í Póllandi hafi það verið eitt fyrirtæki hér á landi sem skapaði farveg fyrir iðnaðinn; CCP. Margir sem þar hafi unnið hafi skapað sín eigin fyrirtæki eða fjárfest í geiranum.

Spurður um hvernig gangi almennt að afla fjármagns til íslenskra leikjafyrirtækja segir Halldór að um þessar mundir sé samdráttur á heimsvísu sem geri fjármögnun erfiðari en oft áður.

„En þrátt fyrir það vil ég segja að á meðan allar stoðir í ytra umhverfinu eru virkar og samkeppnishæfar þá hjálpar það til við fjármögnunina. Þó að Ísland sé lítið þá er iðnaðurinn flottur og það er eftir því tekið víða. Verðbólgan hér hjálpar auðvitað ekki til en hún þýðir að margt er dýrara fyrir fólk hér á landi en annars staðar. Því þurfa launin að vera hærri. Það getur verið viss þröskuldur og minnkað samkeppnishæfnina í geiranum.”

Flestir miðað við höfðatölu

Halldór bendir á að á Íslandi starfi flestir í leikjaiðnaði í heiminum miðað við höfðatölu, yfir 450 talsins auk starfsemi sem fyrirtækin hafa erlendis.

„Það þýðir ekki að við séum mettuð að þessu leyti. Hér eru enn mikil tækifæri í að byggja upp enn stærri iðnað. Þetta er spurning um skriðþunga. Eftir því sem uppbyggingin gengur betur getum við eflt þekkingu og fjölgað sérfræðingum. Þeir fara svo og byggja sín eigin fyrirtæki og koll af kolli. Mjög algengt er að þeir sem selja sig út úr leikjafyrirtækjum endurfjárfesti í iðnaðinum, aftur og aftur. Þá verður til ný bylgja. Þannig skapast veldisvöxtur.”

Halldór segir það góðs viti að fjöldi fyrirtækja standi í stað á milli ára. Það sýni styrk hans.

Með auknum fjölda fyrirtækja fjölgi svo starfsmönnum í sama hlutfalli.

“Starfsmannafjöldinn gæti auðveldlega tekið kipp eftir 1-2 ár.”
Spurður um hans eigið fyrirtæki, Myrkur, segir Halldór að þar endurspeglist það sama og talað er um hér á undan. Fyrirtækið hafi eytt mörgum árum í þróun á leik sem ekki er enn kominn út.

„Þetta er æsispennandi verkefni. Hér vinna 44 starfsmenn úti á Granda og okkur gengur vel í þróuninni. Ég get þó ekki gefið út neina dagsetningu hvað útgáfu varðar en við erum mjög spennt að sýna heiminum hvað við höfum verið að sýsla í öll þessi ár. Ég held og vona að það sem við höfum upp á að bjóða muni vekja mikinn áhuga. Í leiknum er Ísland í aðalhlutverki. Leikarar eru íslenskir og sömuleiðis er íslensk tónlist og umhverfi. Það er gaman að láta tölvuleik fjalla jafn mikið um landið okkar og við erum að gera og setja það í nýjan ævintýrabúning.”

Halldór lýsir leiknum sem hasar-ævintýraleik fyrir PlayStation 5, Xbox og borðtölvur. Í aðalhlutverki er persóna að nafni Ryn sem leikin er af Aldísi Amah Hamilton. Hin aðalpersónan, Abram, er leikin af Karli Ágústi Úlfssyni. Fjöldi annarra persóna kemur einnig við sögu.

„Þetta er eins og ævintýrabíómynd þar sem fólk mun takast á við skrímsli og leysa þrautir og fylgjast með sögu og framgangi aðalpersónanna og fylgja þeim í gegnum ólíka heima, rétt eins og fólk þekkir úr ævintýrabíómyndum og sjónvarpsþáttum. Markhópurinn er mjög breiður, við viljum að sem flestir geti og vilji spila. Við erum spennt að sýna nýja hlið á iðnaðinum og koma með vöru sem er gjörólík því sem við höfum áður séð," segir Halldór að lokum.