Sæunn Snorradóttir
Sandholt starfar hjá
bresku endurskoðunarskrifstofunni Blick
Rothenberg í London.
Sæunn Snorradóttir Sandholt starfar hjá bresku endurskoðunarskrifstofunni Blick Rothenberg í London.
Sæunn Snorradóttir Sandholt var fyrsta erlenda konan sem ráðin var til starfa hjá bresku endurskoðunarskrifstofunni Blick Rothenberg í London. Hún er jafnframt ein fyrsta konan sem gerð hefur verið að efri millistjórnanda hjá stofunni sem hefur nú um 800 starfsmenn. ViðskiptaMogginn settist niður með Sæunni og fræddist um frama hennar í fjármálaborginni nú þegar nokkur óvissa er í bresku efnahagslífi vegna pólitísks óróa og komandi þingkosninga á morgun.

Sæunn Snorradóttir Sandholt uppgötvaði á unglingsárum að hún og endurskoðun ættu samleið og nú, rúmum áratug síðar, hefur hún komið sér vel fyrir í London.

Við Sæunn fáum okkur kaffi á heimili foreldra hennar í Grafarvogi en hún var hér í stuttu fríi þegar sólargangurinn var lengstur.

Það þarf ekki að ræða lengi við Sæunni til að sjá að hún hefur einlægan áhuga á viðfangsefnum sínum.

Kynntist bókfærslu í Versló

Hver er bakgrunnur þinn?

„Ég fór í viðskiptafræði í HR og stefndi alltaf að því að verða endurskoðandi. Ég kynntist bókfærslu í Versló þegar ég var 16 og 17 ára og ákvað þá að endurskoðunin skyldi verða mitt fag. Síðan eftir útskrift frá Háskólanum í Reykjavík flutti ég til London og ætlaði mér að fara í meistaranám en hugsunin var alltaf sú að koma aftur heim. Svo varð ég rosalega hrifin af London sem borg og nú eru liðin átta ár síðan ég flutti út.”

Hvert fórstu í framhaldsnám?

„Ég hóf nám við Queen Mary University of London árið 2016 en háskólinn er í austurhluta London. Þar tók ég meistaragráðu sem var í senn endurskoðun og fjármál.”

Hvenær hófstu störf hjá fyrirtæki sem endurskoðandi í London?

„Það var árið 2017, eftir að ég hafði klárað meistaragráðuna, sem ég fékk þessa vinnu hjá Blick Rothenberg.”

Þannig að þú hefur lokið meistaragráðu á einu ári?

„Já. Það var nefnilega ekki sumarfrí heldur var námsárinu þjappað saman.”

Var prófuð á ýmsan hátt

Hvernig gekk þér að fá vinnu?

„Það tók svolítinn tíma. Ráðningarferlið var býsna langt. Maður byrjaði á að senda inn dæmigerða umsókn með ferilskrá og svo var næsta skref að taka ýmis próf, þar með talið stærðfræðipróf og enskupróf, og svo fór fram persónuleikapróf í kjölfarið. Ef maður kemst í gegnum það er tekið annað atvinnuviðtal sem er tekið upp. Maður birtist á skjánum og svo á maður að taka sjálfan sig upp við að svara ýmsum spurningum. Ef maður kemst í gegnum prófið er manni boðið að dvelja heilan dag á staðnum en þá fer maður í viðtöl hjá tveimur meðeigendum á stofunni. Þau fara ekki fram samtímis heldur maður á mann. Svo eru lögð fyrir mann hópaverkefni þar sem maður þarf að sýna fram á hæfni til að geta unnið með öðru fólki. Svo þurfti ég að taka stærðfræðiprófið aftur, og náði prófinu, og eftir það þurfti ég að vera með kynningu fyrir framan fólk úr mannauðsdeildinni og meðeigendum. Var látin standa fyrir framan hóp ‒ hver umsækjandi hafði fimm mínútur ‒ og svo var mér boðið í hádegisverð með meðeigendum og aðeins yngra fólki sem maður þurfti að kynna sig fyrir. Þannig að þetta var heilmikið ferli sem maður þurfti að komast í gegnum.”

Fjölskyldufyrirtæki

Endurskoðunarfyrirtækið sem þú starfar hjá heitir Blick Rothenberg. Segðu mér aðeins frá því fyrirtæki.

„Þegar ég hóf störf voru nýir eigendur nýbúnir að kaupa fyrirtækið. Stofan hafði verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi [og var stofnuð 1945 af Helmut Rothenberg en aðrir gyðingar úr fjölskyldunni höfðu þá náð að flýja Þýskaland] en var keypt af stærra fjárfestingafyrirtæki [sem heitir Azets] þegar ég var að byrja. Ég var sem sagt fyrsti útlendingurinn sem var ráðinn inn í þetta fyrirtæki. Það hafði sem sagt enginn sem ekki var Breti unnið þarna áður en ég byrjaði. Ég komst ekki að því fyrr en ég hafði hafið störf og fór að líta í kringum í mig og spurði hvort þar væri enginn annar sem væri ekki frá þessu landi og svarið var nei. „Þú ert sú fyrsta,” sögðu þau.

Það fannst mér svolítið skemmtilegt. Fyrirtækið hafði sem sagt verið í eigu sömu fjölskyldunnar en var nú að stækka undir stjórn nýrra eigenda. Næstu fjögur ár [2017-2021] keypti fyrirtækið þrjár aðrar endurskoðunarstofur sem eru nú hluti af fyrirtækinu.”

Ákváðu að halda nafninu

Hvað er þetta orðið stórt fyrirtæki og hvað heitir það í dag?

„Það heitir enn Blick Rothenberg. Þau ákváðu að halda nafninu af því að það hefur virðulegt yfirbragð. Það störfuðu á að giska 150 til 200 manns í deildinni okkar en nú starfa þar um 800 manns. Þannig að fyrirtækið hefur stækkað mjög mikið eftir að ég byrjaði. Það var verið að ráða í 11 stöður þegar ég fór í gegnum löggildinguna en nú er verið að ráða í 47 stöður, sem segir sitt um hvað fyrirtækið hefur stækkað.”

Eru þau öll á sama stað?

„Já. Við höfum verið í sömu byggingu í Covent Garden síðan ég byrjaði en höfum fengið fleiri hæðir í byggingunni. Það eru sem sagt tvö önnur fyrirtæki í húsinu en við erum komin með fjórar hæðir af níu. Þannig að tæpur helmingurinn af byggingunni er nú lagður undir starfsemi okkar.

Byggingin er nokkuð dæmigerð skrifstofubygging en hún var nýlega gerð upp að innan þegar við stækkuðum við okkur. Hér eru stórir gluggar með útsýni út á fallegar hliðargötur með veitingastöðum og pöbbum. Stofan er á Great Queen Street sem mér hefur alltaf fundist skemmtilegt nafn. Það er einstaklega mikið líf í Covent Garden og fjöldinn allur af veitingastöðum og pöbbum. Við erum mjög nálægt Royal Opera House og alls kyns leikhúsum og því er mikið líf á kvöldin fyrir fólk á leiðinni á sýningar. Við erum ekki nálægt mörgum öðrum stórum skrifstofum en erum samt sem áður í göngufæri við skrifstofur í öðrum hverfum, svo að það er auðvelt að ferðast til kúnna sem eru staðsettir í nágrenninu.”

Mega vinna heima

Hvernig er vinnuumhverfið í London? Þá er ég meðal annars að hugsa um þróunina hér heima á Íslandi, styttingu vinnuvikunar og svo framvegis?

„Það sem hefur breyst er að nú ráðum við því hvort við vinnum heima eða hvort við komum öll á skrifstofuna. Það er í raun ekki pláss fyrir alla [á skrifstofunni samtímis]. Það gætu ekki allir komið samtímis í vinnuna en þegar ég byrjaði var vinnutíminn frá 9.30 til 17.30 en nú höfum við meira frelsi með hvar við vinnum og á hvaða tíma.
Krafan er að vinna 35 tíma yfir vikuna, að frátöldu hádegishléi, en ef eitthvað kemur upp á, eða ef maður vill vinna skemur einn daginn, er hægt að bæta það upp með því að vinna til dæmis níu tíma daginn eftir. Það eru kjarnatímar milli 10 og 16 sem maður notar til að bóka fundi en á undan og á eftir hefur maður frelsi til að velja. Þannig að ég get til dæmis byrjað að vinna sjö um morguninn eða klukkan tíu og stjórnað því hvað ég vinn lengi.”

Stundum langir dagar

Hvernig er dæmigerð vinnuvika?

„Hún er 40 tímar frá mánudegi til föstudags, átta tímar á dag og að minnsta kosti klukkutími í hádegismat á hverjum degi.”

Eruð þið oft að vinna langt fram á kvöld?

„Það fer svolítið eftir árstímanum. Sumum verkefnum þarf að vera lokið á ákveðnum tíma.”

Er þetta árstíðabundið álag?

„Já. Það er það. Fyrstu mánuðina, frá febrúar til apríl, eru vinnudagarnir yfirleitt mjög langir hjá okkur og það þarf eiginlega að sækja um leyfi til að fá frí á þeim tíma. Þá þurfa allir að vera til staðar að vinna og svo er september líka stór mánuður hjá okkur. Þá hefst vinna við gerð ársreikninga fyrir fyrirtæki sem ljúka fjárhagsárinu 31. desember og hafa níu mánuði til að skila inn ársreikningi.

Þessu tímabili fylgir alltaf svolítil pressa og svo hefur raunar verið síðustu ár í gegnum farsóttina. Þá var hægt að sækja um að fá lengri tíma til að skila inn ársreikningi og fyrir vikið hefur tímabilið færst aftar fram í desember.”

Iðulega gerðar athugasemdir

Hvernig er breska viðskiptaumhverfið hvað þetta varðar? Er algengt að skattayfirvöld geri athugasemdir við ársreikninga?

„Já. Það eru reglulega gerðar athugasemdir.”

Hvernig birtast þær?

„Þær eru yfirleitt sendar til okkar frekar en til fyrirtækisins sjálfs. Þá með alls kyns spurningalistum og gögnum sem við þurfum að skila til yfirvalda. Þau taka kannski út tiltekinn kostnað og vilja sjá nánar hvernig hann er tilkominn og hvort hann sé ekki örugglega 100% tengdur fyrirtækinu.”

Er þá meðal annars verið að athuga hvort verið sé að draga meira frá skatti en tilefni er til?

„Já. Vegna þess að við skilum inn skattframtalinu fyrir hönd fyrirtækjanna vilja þau til dæmis sjá hvað við höfum gert til að staðfesta ákveðinn kostnað og sérstaklega kostnað sem er frádráttarbær frá skatti. Við erum með reikningana og vitum nákvæmlega hvernig þeir eru gerðir upp.”

London enn fjármálamiðstöð

Ræðum aðeins um breska fjármálakerfið. Hverjir eru helstu styrkleikar þess? Breska heimsveldið var og hét og Bretar hafa langa reynslu af alþjóðlegum fjármálum. Svo kom Brexit 2016 og útganga úr ESB 2020. Fjármálahverfið City er þó enn alþjóðleg fjármálamiðstöð og svo framvegis. Hvaða kosti sérðu?

„Það er enn mikið horft á London sem fjármálamiðstöð fyrir Evrópu. Við vinnum meðal annars með stórfyrirtækjum í Bandaríkjunum sem vilja komast inn á Evrópumarkað og vilja setja upp breskt fyrirtæki til þess að geta stækkað út í Evrópu. Mörg fyrirtæki líta þannig á London sem upphafspunktinn við markaðssókn í Evrópu. Eins og til dæmis Uber. Það var viðskiptavinur okkar þegar fyrirtækið var að byrja í Evrópu. Við hjálpuðum þeim að setja upp fyrirtækið í Bretlandi og stækka í Evrópu. Það hjálpar auðvitað að enska sé viðskiptamálið í Bretlandi.”

Hvað með viðskiptamenninguna í Bretlandi. Er eitthvað í henni sem styrkir stöðu London sem fjármálamiðstöðvar?

„Fólk áttar sig stundum ekki á því að ýmislegt í fjármálakerfinu í Bretlandi er svolítið gamaldags. Það tekur stundum svolítið langan tíma að útskýra pappírsvinnuna í kringum þetta en á sama tíma held ég að það hjálpi þegar fólk skilur forsöguna sem þarf að búa til en það skapar, að ég held, ákveðið traust að fyrirtæki komast ekki í gegnum allar þessar skoðanir nema vera með allt sitt á hreinu. Þá sérstaklega ný fyrirtæki sem eru að byrja.”

Rætt um breytingar

Ég hef grúskað aðeins í bresku fyrirtækjaskránni, Companies House. Þar er hægt að finna ýmsar upplýsingar um rekstur fyrirtækja og uppgjör. Hversu mikið gagnsæi myndirðu segja að væri almennt um rekstur fyrirtækja í Bretlandi?

„Þetta hefur verið umræðuefni að undanförnu. Meðal annars er rætt um að minni fyrirtæki þurfi aðeins að skila inn styttri ársreikningum sem sýna þá efnahagsstöðuna en ekki í raun rekstrarreikninginn. Þannig að þau þurfi til dæmis ekki að sýna hvað þau voru með í sölu. Rætt er um að það þurfi að breyta því til þess að það sé meira gagnsæi um þessi minni fyrirtæki sem eru að hefja starfsemi og laða til sín fjárfesta. Þá til að tryggja meira gagnsæi fyrir fjárfesta og birgja sem veita þeim þjónustu. Þá vita fyrirtækin meira um mótaðilann og hvernig fyrirtækin eru að stækka ár frá ári.”

Hvað með upplýsingar um eignarhald?

„Það kemur jafnframt skýrt fram hver á fyrirtækið og hvað teljast vera tengd fyrirtæki. Það kemur alltaf fram í hverjum ársreikningi. Hægt er að vinna sig til baka og finna út endanlegan eiganda. Það er rosalega erfitt að fela það.”

Fer fyrir siðanefnd

Hvaða áhrif hafði birting Panamaskjalanna árið 2016 sem leiddi til þess að ríkisstjórnin hér féll. Hafði það einhverja þýðingu fyrir stöðu eyjanna sem voru hluti af breska heimsveldinu og síðar hinu alþjóðlega fjármálakerfi, lágskattasvæði á borð við Jómfrúaeyjar?

„Það er alltaf sett svolítið spurningarmerki þegar þau lönd birtast á ársreikningum og ég veit að við erum ekki mikið að taka að okkur viðskiptavini sem eru ekki með heimilisfang í Bretlandi. Við þurfum að velja og hafna hvernig kúnna við tökum að okkur. Það þarf alltaf að fara í gegnum siðanefnd hjá fyrirtækinu en yfirleitt er strax afþakkað að hefja samstarf við fyrirtæki með þessa heimilisfesti.”

Margar kynslóðir

Hjá fyrirtækinu starfa væntanlega nokkrar kynslóðir sem hafa unnið við endurskoðun. Hvernig birtist hefðin?

„Einn af núverandi eigendum heitir Simon Rothenberg en afi hans var stofnandi fyrirtækisins og þegar ég var að byrja var pabbinn að fara á eftirlaun. Mér hefur alltaf fundist þetta vera mikið fjölskyldufyrirtæki síðan ég hóf þar störf jafnvel þótt við höfum stækkað mikið síðan. Það hefur alltaf verið menningin í fyirtækinu að við hjálpum hvert öðru og erum til staðar hvert fyrir annað.

Dæmi er að um daginn hringdi ég mig inn veika með flensu og höfðu tveir af meðeigendunum þá samband við mig, sögðust hafa frétt að ég væri með flensu og spurðu hvort þeir gætu látið senda til mín súpu. Þannig að það er hugsað vel um mann og það hefur alltaf verið talinn okkar helsti styrkleiki að við vinnum öll saman og það skiptir ekki máli hvar í skipuritinu þú ert: þú getur alltaf farið til yfirmanns og spurt spurninga.”

Styður lárétt skipulag

Maður sér fyrir sér að skipulag á stórum endurskoðunarskrifstofum sé lóðrétt. Það virðist vera miklu láréttara hjá ykkur?

„Það er miklu láréttara og þú átt ekki þitt eigið skrifborð heldur velur þér laust borð hverju sinni. Þannig að þú getur setið við hliðina á meðeiganda einn morguninn og svo hjá nýliða daginn eftir.”

Hvað finnst þér um það?

„Það styður held ég við þetta lárétta skipulag. Það verður auðveldara að nálgast meðeigendur og spyrja þá spurninga.”

Hvaða stöðu hefurðu núna hjá fyrirtækinu?

„Ætli millistjórnandi sé ekki rétta orðið. Nú hef ég orðið mína eigin viðskiptavini.”

Eru margar aðrar íslenskar konur millistjórnendur hjá stóru endurskoðunarfyrirtæki í London?

„Nei. Að minnsta kosti veit ég ekki um neina aðra.”

Þannig að þú ert á vissan hátt að brjóta blað?

„Já. Sennilega má segja það. Við Íslendingarnir sem erum búsettir hér í London erum með Facebook-hóp. Ég bý með annarri íslenskri stelpu og við reynum reglulega að hitta fólk og á þeim fundum hef ég ekki heyrt um aðra íslenska konu sem er í sömu stöðu og ég.”

Heimsreisur dýpkuðu skilninginn

Nú eru Bretland og Ísland ólík samfélög. Hvaða kosti heldurðu að Bretarnir hafi séð í þér? Var eitthvað sem var talið þér til tekna vegna þess að þú komst héðan?

„Þegar fyrirtækið var nýkeypt var stefnan sett á skandinavískan markað og við erum nú með nokkra skandinavíska kúnna. Við höfum opnað fleiri skrifstofur en móðurfyrirtækið sem á okkur heitir Azets og undir því nafni er búið að opna skrifstofur í Danmörku og í Noregi. Ég hef fengið að leggja svolítið til umræðunnar og skýra út hvernig umhverfið er öðruvísi í þessum löndum og hverju þarf að huga að á þeim mörkuðum. Það held ég að hafi verið einn af stóru þáttunum þegar ég var að sanna mig fyrir fyrirtækinu.

Svo var ég með meistaragráðu en í raun nægir að vera með bakkalárgráðu til að geta sótt um starf og tekið inntökuprófin sem lögð eru fyrir nýliða. Ég var hins vegar með meistaragráðu og að auki tvisvar búin að taka ársleyfi til að fara í heimsreisu. Fyrir BSc-námið fór ég til Asíu, Ástralíu og Suður-Ameríku og man vel þegar ég var nýkomin út og var ein á ferðalagi í fyrsta skipti á ævinni í Nýju-Delí á Indlandi. Nítján ára að hefja sjö mánaða ferðalag, eina ljóshærða konan í Nýju-Delí. Svo fór ég aftur til Asíu og Afríku fyrir meistaranámið og mér er það sérstaklega minnisstætt að eina nóttina sváfum við í tjaldi á sléttu í Afríku og heyrðum purr fyrir utan. Daginn eftir sagði leiðsögumaður okkar að tvö ljón hefðu gert sig heimakomin við tjöldin,” segir Sæunn og hlær við. „Ég held að meistaragráðan og lífsreynslan hafi hjálpað til þegar ég sótti um stöðuna hjá Blick Rothenberg.”

Dýrmæt reynsla

Þú ferð ótroðnar slóðir. Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?

„Ég ætla að vera áfram í London. Eins og er tel ég mig hafa tækifæri til að starfa hjá miklu stærri fyrirtækjum en ég get séð fyrir mér að geta gert hér heima. Mér finnst það svo mikilvægt ‒ á meðan maður er enn nokkurn veginn ungur, segir Sæunn og glottir ‒ að geta aflað sér þessarar reynslu og ef maður flytur einhvern tímann heim er rosalega gott að eiga þetta í reynslubankanum.”


Hvernig eru starfskjörin? Geturðu lifað góðu lífi af laununum?

„Já og gott betur því ég get lagt fyrir í hverjum mánuði og hyggst kaupa íbúð eða hús á næsta ári.”

Þú nefndir að þú værir millistjórnandi. Mér skilst að þú hafir verið að fá stöðuhækkun?

„Já. Það er rétt. Þegar maður verður millistjórnandi er það mikil breyting í daglegu starfi. Það er í raun óskrifuð regla að maður er tvö til þrjú ár í stöðu fyrsta stigs millistjórnanda áður en maður hækkar í tign. En það var sem sagt að gerast núna eftir tólf mánuði. Því fylgir aðeins meiri ábyrgð og þá eru í raun aðeins þrjú skref í að verða meðeigandi.”

Sérðu það fyrir þér?

„Já. Eins og staðan er. Ég held að ég reyni að taka allavega eitt skref í viðbót og sjá svo hvar maður verður staddur í lífinu.”

Maður sér fyrir sér að endurskoðendur vinni langa vinnuviku?

„Þetta er rosalega mikil vinna og oft er maður 12-14 tíma í vinnunni. Nú, þegar ég er komin í þessa nýju stöðu [sem efri millistjórnandi], á ég miklu auðveldara með að stjórna tíma mínum sjálf. Því ég er að bóka fólk í verkefni, kúnnana mína, og get þannig skipulagt tímann svolítið sjálf. Það heillar mig líka við að hækka í tign að þá hef ég betri stjórn á eigin tíma,” segir Sæunn að lokum.

Óvissa út af kosningunum

Hvernig er stemningin í Bretlandi? Nú fara þingkosningar fram næsta laugardag og búist er við stórsigri Verkamannaflokksins. Samhliða er Nigel Farage að grafa undan Íhaldsflokknum með Umbótaflokki sínum. Eru Bretar bjartsýnir að þínu mati eða svartsýnir á framtíðina?

„Við höfum haft dálitlar áhyggjur af kosningunum af því að við sjáum fyrir okkur að skattar muni jafnvel hækka upp úr öllu valdi. Fyrir nokkrum árum var planið hjá ríkisstjórninni að lækka fyrirtækjaskatta úr 19 í 17% og þeir voru hægt og rólega að lækka en svo kom farsóttin og þá var ákveðið að hækka hann í staðinn fyrir að lækka. Það var erfitt að útskýra þetta fyrir okkar kúnnum en við vorum nýbúin að gefa þeim góðar fréttir um að skattalækkanir væru fram undan. Við sjáum fyrir okkur að eitthvað annað eins taki við núna. Það er aðeins spurning hvaða skattar verða hækkaðir. Þessi óvissa hefur áhrif en á meðan er fólk síður að taka ákvörðun um að stofna nýtt fyrirtæki eða auka við reksturinn.”