Narendra Modi tryggði sér í síðasta mánuði þriðja kjörtímabilið í embætti forsætisráðherra.
Narendra Modi tryggði sér í síðasta mánuði þriðja kjörtímabilið í embætti forsætisráðherra. — AFP/Sajjad Hussain
Þær áskoranir sem Narendra Modi stendur frammi fyrir minna m.a. á mikilvægi þess að halda hvers kyns sérhagsmunaöflum í skefjum.

Í bókinni Why Nations Fail setja hagfræðingurinn Daron Acemoglu og stjórnmálafræðingurinn James Robinson fram afar sannfærandi kenningu um hvað veldur því að sumar þjóðir eru ríkar og aðrar þjóðir fátækar.

Frekar en að skella skuldinni t.d. á menningarlega þætti, efnahagslegt og pólitískt frelsi, mismunandi stjórnarfar, náttúruauðlindir og fleira í þeim dúr, komast Acemoglu og Robinson að þeirri niðurstöðu að það sem einkum heldur aftur af fátækari ríkjum heims er að þar draga formlegar og óformlegar valdastofnanir samfélagsins til sín þann auð sem verður til í samfélaginu og standa vörð um hagsmuni smárrar valdaklíku. Auðugu þjóðirnar eiga það hins vegar sameiginlegt að hafa komið sér upp valdastofnunum sem verja eignarréttinn og útiloka ekki hinn almenna borgara frá því að njóta ávaxta erfiðis síns og láta að sér kveða hvort sem hann vill reyna að finna hæfileikum sínum farveg í atvinnulífinu eða á sviði stjórnmálanna.

Flóknir og samverkandi þættir geta síðan útskýrt hvers vegna valdastofnanir samfélagsins eru „extractive” eða „inclusive” eins og Acemoglu og Robinson orða það, og í bókinni finna þeir jafnvel tilvik þar sem rekja má muninn á hagsæld þjóða í nútímanum til atburða sem áttu sér stað fyrir mörgum öldum.

Það merkilega er síðan hve erfitt það virðist að fá samfélög sem komin eru á ranga braut til að breyta um stefnu, því kerfið allt streitist á móti. Jafnvel ef gömlu leiðtogunum er sópað í burtu hættir nýju leiðtogunum til að falla aftur í sama farið, og oft hefur þurft meiri háttar áföll til að hrista nægilega mikið upp í arðrænandi kerfum til að koma á nýju og betra skipulagi.

Ávinningurinn blasir við

Indland er gott dæmi um hve strembið það getur verið að uppræta meinið þegar það hefur grafið rækilega um sig.

Frjálshyggjuhagfræðingar benda gjarnan á hve mikið ólán það var fyrir Indland að öðlast sjálfstæði einmitt um það leyti sem miðstýring og ríkisafskipti voru í tísku, svo þeir sem völdust til að stýra landinu trúðu því og treystu að það væri þjóðinni fyrir bestu ef hagkerfinu væri stjórnað ofan frá, með boðum og bönnum.

En kannski má spyrja hvort það hefði nokkuð verið raunhæfur möguleiki að koma á kerfi í Indlandi sem yrði eitthvað annað en ögn mildari útgáfa af því sem á undan kom, undir Mógúlveldinu, svo Austur-Indíafélaginu og loks breska heimsveldinu. Það er jú hægara sagt en gert að stokka upp stjórnkerfi, hagkerfi og samfélagi sem spilað hefur eftir tilteknum reglum í margar aldir, þar sem stórir hópar fólks sjá hag sínum best borgið með því að viðhalda óbreyttu ástandi – jafnvel þótt það blasi við að sjálfsagðar og eðlilegar breytingar myndu vera þjóðinni allri til mikilla hagsbóta.

Tregðan breiðir úr sér um allt samfélagið svo allir sitja pikkfastir. Allt grefur undan öllu svo nánast ógerlegt virðist að höggva á hnútinn.

Acemoglu og Robinson nota sem dæmi vanda indverska heilbrigðiskerfisins: Einhvern tíma var það nefnilega ákveðið af upplýstum miðstýringarsinnum að heppilegast væri að fólk á launaskrá hins opinbera nyti svo mikils starfsöryggis að það væri nánast ómögulegt að víkja því úr starfi. Erfiðlega hefur gengið að breyta þessum reglum enda er hið opinbera risastór vinnuveitandi og stéttarfélögin atkvæðamikil í indverskum stjórnmálum.

Og eins og vera ber í landi sem er miðstýrt af snjöllu fólki með góðan ásetning starfrækir hið opinbera sjúkrahús vítt og breitt um landið þar sem almenningur á að geta fengið vandaða og faglega heilbrigðisþjónustu gegn litlu eða vægu gjaldi. En enginn notar þó þessa spítala heldur leitar fólk í staðinn til einkageirans því ríkisreknu heilbrigðisstofnanirnar eru mannlausar þó að þar sé fjöldi manns á launaskrá. Heilbrigðisstarfsfólkið – sem enginn getur rekið – mætir einfaldlega ekki í vinnuna og sjúklingarnir koma bókstaflega að lokuðum dyrum.

Grasrótarsamtök í Rajasthan vildu reyna að tækla þennan vanda og fengu að gera tilraun af einföldustu sort: stimpilklukkum var komið upp á einum af þessum spítölum og hjúkrunarfræðingunum þar gert að stimpla sig inn nokkrum sinnum yfir daginn. Átti þetta að tryggja að hjúkkurnar mættu til vinnu á réttum tíma og væru á staðnum út alla vaktina. Hvað gæti mögulega klikkað?

Tilraunin fór vel af stað en ári síðar var fjarvistarvandinn orðinn jafnslæmur og áður. Stjórnendur heilbrigðisstofnunarinnar og yfirmenn þeirra í pólitíska kerfinu reyndust hafa grafið undan verkefninu með markvissum hætti enda mun frekar í liði með hjúkkunum en skattgreiðendum. Þeir sáu til þess að stimpilklukkurnar skemmdust og biluðu, og leyfðu grasrótarsamtökunum ekki að skipta út biluðu klukkunum fyrir nýjar. Stjórnkerfið og hjúkrunarfræðingarnir höfðu engan áhuga á úrbótum og engan ávinning af því að gera hlutina vel: þau höfðu komið sér vel fyrir í sínum litla afkima hagkerfisins og fundið sér góðan spena til að mjólka á kostnað samfélagsins.

Narendra Modi tryggði sér í síðasta mánuði þriðja kjörtímabilið í embætti forsætisráðherra eftir að flokkur hans, Indverski þjóðarflokkurinn (BJP), hlaut flest atkvæði í þingkosningum sem fóru fram dagana 19. apríl til 1. júní. Indverski hlutabréfamarkaðurinn prílaði upp í hæstu hæðir í aðdraganda kosninganna þegar spár bentu til þess að Modi myndi sigra með töluverðum yfirburðum en indverska hlutabréfavísitalan veiktist snarlega þegar búið var að telja úr öllum kjörkössum og ljóst varð að þrátt fyrir sigurinn hefði BJP tapað þingmeirihluta sínum í fyrsta skipti síðan 2014.

Indversk stjórnmál eru bæði flókin, skrítin og tragíkómísk. Það má setja út á margt í stefnu og vinnubrögðum Modis og samflokksmanna hans, en heilt á litið virðist honum þó hafa tekist að mjaka landinu í rétta átt frá því hann komst til valda árið 2014, og á marga vegu hefur ástandið á Indlandi stórbatnað í valdatíð Modis þó efnahagslegt frelsi þar mælist enn langt undir heimsmeðaltalinu.

En geri aðrir betur með 1,4 milljarða manna þjóð þar sem fjölmennir sérhagsmunahópar leggja sig fram við að standa vörð um óbreytt ástand.

Fram undan er að halda áfram umbótum hér og þar – ekki síst á vinnumarkaðinum – og laða til landsins fjárfesta og alþjóðleg stórfyrirtæki sem vilja finna fjármagni sínu og verksmiðjum einhvern heppilegri stað en Kína.

Ríghaldið í spenana

Á meðan Modi reynir að meta stöðuna og kortleggja næstu skref er kannski ágætt að minna Íslendinga á að í bók sinni benda Acemoglu og Robinson á að það er ekki sjálfgefið að ríkar þjóðir haldist á réttri braut. Sérhagsmunaöflin sæta færis ef þau geta, og lítils háttar arðrán getur fljótt undið upp á sig. Því fleiri sem ná að finna sér vænan spena, því erfiðara getur reynst að snúa þróuninni við og smám saman ná stöðnunaröflin tökum.

Þegar verið var að telja upp úr síðustu kjörkössunum á Indlandi bárust þær fréttir frá Íslandi að þar væru launin hjá ríkinu mun betri en á almennum vinnumarkaði. Fylgdi með að starfsmönnum hins opinbera hefur fjölgað jafnt og þétt, og fjölgunin langt umfram það sem mætti réttlæta með vísan til íbúafjölgunar í landinu.

Sitt sýnist hverjum um gæði vinnuframlags opinberra starfsmanna á Íslandi, og ekki virðast afköstin fara batnandi. Reglulega má lesa fréttir um úrskurði, ákvarðanir og kærur sem gætu fengið lesendur til að halda að vanþekking, misbeiting valds og skortur á fagmennsku sé útbreiddur vandi hjá íslenskum stofnunum. Ef stofnanir og opinber félög sæta síðan gagnrýni – sama þó að hún sé fyllilega verðskulduð – breytast opinberu starfsmennirnir í viðkvæm lítil fiðrildi og kvarta yfir árásum sem þeim þykja óvægnar og skaðlegar fyrir andann á vinnustaðnum.

Vinnudagurinn hjá hinu opinbera virðist samt ósköp þægilegur og hef ég fyrir satt að það að svara vinnusímtali eða tölvupósti utan skrifstofutíma þyki vera til marks um meiri háttar fórnfýsi og dugnað hjá ríkisstarfsmönnum og kalli á sérstakan kaupauka. Þá er illmögulegt að reka fólk úr starfi hjá hinu opinbera nema fyrir margítrekuð og alvarleg afglöp. Lofa ég þeim lesanda góðri kampavínsflösku í verðlaun sem verður fyrstur til að senda mér dæmi um starfsmann hjá íslenskri stofnun sem missti vinnuna fyrir það eitt að afkasta litlu eða kasta til höndunum.

Fimmti hver vinnandi Íslendingur starfar hjá hinu opinbera, sem er nógu slæmt út af fyrir sig, en þá er eftir að telja alla hina sem eru ríkinu og sveitarfélögunum háðir með öðrum hætti. Tugir þúsunda heimila njóta t.d. góðs af barnabótum, vaxtabótum og húsaleigubótum, að ónefndum öllum þeim sem fá lífeyri og alls kyns aðra fyrirgreiðslu og þjónustu á kostnað ríkissjóðs og sveitarfélaganna.

Þetta er umhugsunarvert og þróunin ekki góð. Er hætt við að því fleiri sem eru upp á hið opinbera komnir, því minni verði eftirspurnin eftir pólitíkusum sem boða aga í rekstrinum og aðhald í fjármálunum. Allir vita hvers konar stefna myndi þjóna heildarhagsmununum best en enginn vill samt hætta á að missa sinn spena. Á það við á Íslandi rétt eins og á Indlandi.

Fréttaskýring
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Taípei
ai@mbl.is

Höf.: Ásgeir Ingvarsson