Daníel Rafn tók nýverið við rekstri fjölskyldufyrirtækisins.
Daníel Rafn tók nýverið við rekstri fjölskyldufyrirtækisins. — Mogunblaðið/Eyþór
Daníel Rafn Guðmundsson á að baki fjölbreyttan og viðburðaríkan feril í bílageiranum og er óhætt að segja að hann hafi komið víða við. Frá unga aldri hefur hann starfað hjá fjölskyldufyrirtækinu Hemli, bifvélaverkstæði sem stofnað var af föður hans árið 1981. Daníel hefur nú tekið við rekstrinum en samhliða því starfar hann sem umsjónarmaður í vaktavinnu á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum?

Þessa dagana myndi ég segja að það sé að markaðssetja sig að nýju. Hemill var upphaflega eingöngu bremsuverkstæði og sérhæft á þeim vettvangi. Í dag sinnum við öllum tegundum bílaviðgerða til að hafa nóg fyrir stafni. Mig langar samt að snúa aftur í það sem pabbi stofnaði upphaflega og sinna aðallega hemlaviðgerðum og hafa þær í forgangi og veita toppþjónustu á sanngjörnu verði.

Hvernig heldur þú þekkingu þinni við:

Fer á þá fyrirlestra og ráðstefnur sem bjóðast og svo tók ég til dæmis Toyota Technician-námskeið. Það var frekar umfangsmikið nám og upprifjun sem maður hafði gott af. Einnig er ég alltaf að læra í sambandi við tölvukerfin og bilanagreiningar, bæði upp á eigin spýtur og með því að lesa mér til og leita ráða hjá mér fróðari mönnum.

Síðasta ráðstefna tengd bílageiranum?

Hún var um hemlaviðgerðir og þróun hemlakerfa tengt rafmagnsbílum og var haldin í Hörpu 2022. Hún var mjög góð. Það er svo sem ekkert nýtt í hemlakerfum rafbíla nema það að helstu vandamálin eru of lítil notkun hemlanna vegna rafmótoranna sem hægja á bílnum þegar þú slærð af. Það gerir það að verkum að notkun hemlanna minnkar til muna og meiri hætta er á að allt festist og stirðni. Leggja þarf mikla áherslu á að allir hreyfifletir í bremsum rafbíla séu liðugir og rétt feiti sé sett á pinna og annað sem getur fest. Einnig er mælt með að nota sérstaklega húðaða bremsudiska til að minnka ryðmyndun.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Ég stunda crossfit af kappi og æfi 4-5 sinnum í viku ásamt því að skokka, fara í sund og fjallgöngur þegar færi gefst. Ég tók þátt í Cross Fit open-mótinu og komst áfram í quarterfinals-keppnina 2024 sem ég er mjög stoltur af. Svo elska ég líka að skíða og hef stundað það frá unglingsárum þegar ég fór að æfa. Ég fer þess vegna reglulega í skíðaferðir til Austurríkis. Þegar ég er ekki á skíðum eða í crossfit stunda ég hlaup og fjallgöngurnar af miklu kappi, en ég hljóp nýverið 26 km í Hengli Ultra-keppninni. Varðandi mataræði þá legg ég mikla áherslu á holla og hófstillta fæðu. Reglan góða er góð orka inn, vond orka út. Hafa þetta í réttu flæði. Svo er líka gott að leyfa sér af og til.

Hvert er draumastarfið?

Það yrði þá eitthvað tengt því að hjálpa fólki. Það væri ekki verra ef því fylgdi að fá að ferðast um heiminn.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif þig?

Biblían.

Ef þú myndir setjast aftur á skólabekk, hvað myndir þú læra?

Ef ég fengi að bæta við mig námi þá myndi ég læra að fljúga. Flugnám hefur alltaf heillað mig og ég var einu sinni búinn að fara í prufutíma og næstum því búinn að skrá mig í flugnám. Þyrluflug heillar líka.

Hverjir eru helstu kostir og gallar rekstrarumhverfisins?

Ég er heppinn að því leyti að Hemill er gamalgróið fyrirtæki og öll tæki og tól til staðar þannig að það eru engin lán sem maður er að sligast undan. Leigan er vissulega til staðar en fjölskyldan á húsnæðið þannig að það er sanngjarnt verð. Ég reyni að láta það ganga til viðskiptavina og er ekki búinn að hækka tímagjaldið í takt við verðbólgu og er að rukka 13.000 kr. auk virðisaukaskatts á tímann. Launatengd gjöld eru há þannig að maður verður að halda rétt á spilunum til að þetta gangi allt upp. Ytra rekstrarumhverfi, samkeppni og annað er bara gott finnst mér. Maður keppir náttúrulega ekki við eitthvað sem vinnur svart úr bílskúr en ég held að fólk vilji frekar að fagaðilar sjái um viðhald á bílunum sínum. Sérstaklega þegar það er á sanngjörnu verði. Við hjá Hemli kappkostum við það og gerum hlutina vel.

Hvað veitir þér orku og innblástur?

Ætli það sé ekki bara að vera jákvæður og lausnamiðaður. Einnig er hreyfing mikilvæg og sundið nauðsynlegt til að núlla sig eftir vinnudaginn og ná upp orku, hitta fólk og ræða málin í pottunum og gufunni.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður?

Ég held að það sé best að láta Alþingi sjá um lagabreytingarnar. En ef ég mætti ráða þá hugsa ég að ég myndi láta afnema verðtryggingu og tryggja okkur hagstæðari húsnæðislán. Hafa hemil á þessu.

Ævi og störf:

Menntun:

Grunndeild málamiðna við Borgarholtsskóla 1992-1994, Bifvélavirkjanám við Borgarholtsskóla 2001, Meistaraskólinn 2004 og Ráðgjafarskóli Íslands 2020.

Störf:

Pabbi stofnaði bílaverkstæðið Hemil 1981 þar sem ég fór að vinna strax og ég fór að geta gert gagn. Eftir það var ég sjómaður í 3-4 ár á meðan ég var í pásu frá námi og sinnti einnig um hríð hellulögnum, járnabindingum og ýmsu sem til féll. Að námi loknu starfaði ég sem bifvélavirki hjá Stillingu og síðar sem meðeigandi í Hemli 2004. Ég rak starfsmannaleigu 2007-2009 og einnig sem bifvélavirki hjá Toyota Selfossi 2017-2019. Síðan þá hef ég verið umsjónarmaður vaktavinnu hjá Hlaðgerðarkoti 2020 og tók svo við rekstri Hemils frá 2020.

Áhugamál:

Crossfit, skíði, fjallgöngur og útihlaup. Svo er ég líka með tækjadellu sem hefur fylgt mér alla tíð og á bæði mótorhjól og jet ski sem ég næ samt ekki að nota nægilega mikið einfaldlega vegna þess að það er svo mikið að gera.

Fjölskylduhagir:

Er sonur hjónanna Guðmundar Jónssonar bifvélavirkjameistara (d. 2014) og Brynju Baldursdóttur ritara ríkisendurskoðanda. Ég er einhleypur og á þrjár stelpur, Brynju Sól, Sögu Lind og Ísabel Von.