Margrét Jónsdóttir Njarðvík og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir við undirritun
samnings Háskólans á Bifröst og ráðuneytisins um niðurfellingu skólagjalda.
Margrét Jónsdóttir Njarðvík og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir við undirritun samnings Háskólans á Bifröst og ráðuneytisins um niðurfellingu skólagjalda. — Ljósmynd/Háskólinn á Bifröst
Bifröst er hástökkvari í fjölda umsókna um nám fyrir komandi skólaár. Niðurfelling skólagjalda hefur áhrif á aðsókn að sögn rektors.

Umsóknum í grunn- og meistaranám í viðskipta-, lög- og hagfræði í íslensku háskólunum fjölgar milli áranna 2023 og 2024. Á síðasta ári sóttu í heildina 2.543 um nám í ofangreindum fræðum en í ár hafa samtals 3.445 sótt um að hefja nám við Háskólann á Akureyri, Háskólann á Bifröst, Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Flestar umsóknir bárust um nám í viðskiptafræði en umsóknum fjölgaði um 816 í ár frá fyrra ári þegar 1.751 umsókn barst. Umsóknum fjölgar í öllum skólum nema í Háskólanum á Akureyri, en þar fækkaði umsóknum um 10 milli ára. Háskólinn á Bifröst eykur mest við sig en umsóknum um viðskiptafræðinám við skólann fjölgaði um 638 milli ára, úr 255 í 893 í ár.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, lýsti því í samtali við Morgunblaðið fyrr í júní að niðurfelling skólagjalda hefði bein áhrif á fjölda umsókna.

Í febrúar var greint frá því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, bauð sjálfstætt starfandi háskólum óskert fjárframlög úr ríkissjóði gegn niðurfellingu skólagjalda en áður höfðu þeir fengið 75% af framlögum ríkisháskólanna.

Mikil uppbyggingarstarfsemi

Aðsókn í laganám háskólanna er meiri í ár en á því síðasta, en umsóknum fjölgaði samtals um 25 milli ára. Mest er aðsóknin í lagadeild Háskóla Íslands og því næst í lagadeild Háskólans í Reykjavík, en umsóknum um laganám við skólana fækkar þó milli ára. Lagadeild Háskólans á Bifröst bætir mest við sig en umsóknir voru 140 í ár sem er fjölgun um 87 milli ára.

„Mér skilst að það hafi ekki verið jafn mikil aðsókn í lögfræði við Háskólann á Bifröst fyrir utan eitt ár þegar skólinn byrjaði með lögfræði og þá var það bara HÍ sem bauð upp á lögfræðinám,” segir Bjarni Már Magnússon, deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst, í samtali við Morgunblaðið. Nefnir hann nokkrar ástæður sem kunna að skýra þessa miklu aðsókn.

„Við höfum verið í mikilli uppbyggingarstarfsemi síðustu ár á deildinni, bæði hvað varðar gæði kennslu og rannsóknir. Svo koma inn í þetta breytingarnar á skólagjöldum,” segir hann en bætir við að hann telji hið síðarnefnda vera lykilþátt í hinni miklu aðsókn í Háskólann á Bifröst í ár.

„Ég held samt sem áður að fólk væri ekki að sækjast eftir að komast að hjá okkur nema af því að gæðin eru svona mikil,” segir Bjarni.

Kári Freyr Kristinsson
karifreyr@mbl.is