Þráinn Sigurðsson fæddist í Reykjavík 31. ágúst 1952. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 23. júní 2024.

Foreldrar hans voru hjónin Hulda Ottesen húsmóðir, f. 24. desember 1914, d. 14. nóvember 1999, og Sigurður L. Þorgeirsson húsasmíðameistari, f. 31. maí 1912, d. 18. júlí 1999. Systkini Þráins eru Hrafnhildur, f. 27. apríl 1936, d. 27. júní 2015, Hildigunnur, f. 17. maí 1940, d. 8. júní 2007, og Jónas, f. 30. janúar 1949.

Þráinn kvæntist 24. júlí 1976 Hrönn Finnsdóttur, f. 1954. Foreldrar hennar voru Finnur Sigurbjörnsson og Guðlaug G. Jónsdóttir sem bæði eru látin.

Börn Þráins og Hrannar eru: 1) Guðlaug Íris, f. 1977, gift Stefáni Rósari Esjarssyni. Þeirra börn eru Hrönn Júlía, f. 2002, Esjar, f. 2005, og Elma Stefanía, f. 2009. 2) Finnur Þór, f. 1982, eiginkona Sunna Rós Agnarsdóttir, f. 1989. Þeirra dóttir er Lára Líf, f. 2019. 3) Friðrik Ingi, f. 1990, sambýliskona Sara Þöll Halldórsdóttir, f. 1993. Þeirra sonur er Benjamín Þór, f. 2023.

Þráinn ólst upp á Bollagötunni, gekk í Austurbæjarskóla og fór svo í Iðnskólann í Reykjavík þar sem hann lærði húsasmíði og lauk svo sveinsprófi hjá föður sínum.

Þráinn fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar 1978 þar sem hann stundaði nám í byggingatæknifræði við Stockholms Tekniska Institut. Hann fluttist þaðan til Siglufjarðar og síðar til Reykjavíkur.

Útför Þráins fer fram frá Háteigskirkju í dag, 4. júlí 2024, klukkan 13.

Ljúfi, klári og fyndni pabbi minn!
Það er svo magnað hvernig sorgin er. Hún nístir hjartað en um leið fyllist hjartað af gleði yfir þeim tíma sem við fengum saman og hugurinn reikar. Fram streyma minningar og ég brosi í gegnum tárin.
Ég minnist þess þegar við bjuggum á Sigló og vorum að brasa í bílskúrnum við að bera undir skíðin, allt eftir kúnstarinnar reglum. Hálfur bleikur og hálfur hvítur vaxkubbur var það sem okkur fannst virka best. Bræddum vaxið með gömlu straujárni frá ömmu, skófum, pússuðum og brýndum kantana. Oftast var það silfrið sem kom með okkur heim en alltaf léstu mér líða eins og sigurvegara. Ég man allar sundferðirnar okkar. Við lékum okkur endalaust. Þú nenntir alltaf, sagðir aldrei nei.
Þér fannst gaman með félögunum í blakinu og ég fékk stundum að þvælast með. Það var gaman að fylgjast með þér, alltaf hvetjandi og góður liðsmaður. Það mikill liðsmaður að það var erfitt að vera með þér í liði í spilum. Þú varst í öllum liðum. Þú vissir öll svör og ekki nóg með að þú svaraðir okkar spurningum heldur vildir þú svo mikið hjálpa öllum að þú gast ekki með neinu móti þagað. Þú varst nefnilega mjög klár og vissir allt.
Þú varst uppátækjasamur og þreyttist ekki á að segja okkur söguna af því þegar þú fékkst ekki að vera með stóru strákunum að safna í bálköst fyrir gamlárskvöld og þú gerðir þér lítið fyrir og kveiktir í brennunni sjálfur, þónokkru fyrir gamlárskvöld.
Þú varst stoltur af barnabörnunum þinum og fylgdist vel með þeim. Þau eiga minningar um góðan afa sem þau sakna. Ég mun halda minningunni á lofti, hlúa að þeim og segja þeim allar sögurnar sem þú hafðir svo gaman af að segja okkur.
Elsku pabbi minn, það þýðir ekki að dvelja við þá hugsun um hvað hefði getað orðið heldur þakka það sem við áttum. Takk fyrir allt elsku pabbi minn.
Ég stend við það sem ég hvíslaði þér: ég passa mömmu.

Guðlaug Íris Þráinsdóttir.

Elsku besti Þráinn afi. Það var svo gaman hjá okkur þegar við fórum til Svíþjóðar 2017, þegar ég var alltaf að gefa þér fótanudd og gera alls konar í hárið á þér. Við vorum öll saman í Svíþjóð og þú sýndir okkur Stokkhólm þar sem þú varst að læra. Það var líka gaman að fara með þér upp í bústað á Þingvöllum og þegar við fórum að veiða. Þú fórst líka stundum með okkur í bátsrúnt í Þingvallavatni. Það var líka svo gaman og fyndið þegar þú varst alltaf að tala með mismunandi röddum t.d. Andrés Önd og alls konar.
Hvíldu í friði elsku besti afi og takk fyrir allt saman og öll 15 árin sem við fengum að eyða saman.
Þín afastelpa,

Elma Stefanía Stefánsdóttir.

Elsku afi minn sem var svo blíður.
Ein stund með þér sem ekki líður
væri það sem ég myndi óska mér.
„Þegar ég var lítill gerði ég allt sjálfur”
sagðir þú.
Ég var aldrei viss
hvort þú trúðir því sjálfur.

Þú varst bezzervisser.
Þegar ég var lítil
vildi ég alltaf vera með þér
í liði því ég vissi
að þú myndir vita öll svörin.
Þegar aðrir áttu leik byrjaði kvölin.
Þú áttir erfitt með
að halda aftur af þér
þegar aðrir áttu leik
sem gaf okkur ekki break.


„Gekk í leikskólann sjálfur”
Elsku afi ertu viss?
Þú sagðist hafa talsett
fyrir Andrés önd og því
trúði ég, því
þú lékst hann svo vel.

Fór í skólann montin
og sagði vinunum frá
en nokkrum árum seinna
áttaði ég mig á.
Afi ertu viss?


Ég get ekki beðið eftir
að hitta þig seinna,
bjóða þér ís,
þú gast aldrei sagt nei við því.
„Ég borða ekki sælgæti”
En afi þú veist
að það er sykur í ís!

Hrönn Júlía Stefánsdóttir.