Leif Halldórsson fæddist í Reykjavík 7. júlí 1942. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 21. júní 2024.

Foreldrar hans voru Guðríður Sæmundsdóttir, f. 28.2. 1914, d. 11.5. 1982, húsfreyja og ráðskona í Olíustöðinni í Hvalfirði, og Halldór M. Sigurðsson, f. 25.9. 1917, d. 5.8. 1990, umboðsmaður Olíufélagsins Esso á Vesturlandi. Blóðfaðir Leifs var Leif Jakobsen, norskur skipstjóri, f. 10.6. 1916, d. 28.8. 1995.

Systkini Leifs eru Jónína Rósa, f. 5.2. 1950, eiginmaður hennar er Valdimar Lárusson; Sæmundur, f. 7.10. 1951, eiginkona hans er Elín Vilbergsdóttir; Sigurður Jakob, f. 13.3. 1953, eiginkona hans er Steinunn Kristín Jónsdóttir; Brynja, f. 11.11. 1957, eiginmaður hennar er Jón Þorbjörnsson.

Eftirlifandi eiginkona Leifs er Ída Bergmann, f. 5.5. 1944, þau giftu sig í janúar 1966. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Bergmann, f. 21.6. 1965, maki Ari Hafliðason, f. 1.7. 1965, börn þeirra eru Benedikt Bergmann, f. 1986, Almar Elí, f. 1991, Leif Halldór, f. 1993, og Ottó Ari, f. 2002, barnabörn Guðrúnar og Ara eru fjögur. 2) Halldór, f. 17.7. 1966, maki Thelma B. Kristinsdóttir, f. 20.6. 1966, dætur þeirra eru Lovísa Karítas, f. 1985, og Ída María, f. 2000, barnabörn Halldórs og Thelmu eru þrjú. 3) Guðríður, f. 9. júlí 1975, maki Brynjar Þór Þorsteinsson, f. 20.5. 1970, börn þeirra eru Patrekur Bergmann, f. 1999, og Filippía, f. 2010.

Leif ólst upp í Olíustöðinni í Hvalfirði þar sem Gauja mamma hans var ráðskona, en flutti síðan á Akranes með foreldrum sínum 15 ára gamall. Sama ár fór hann fyrst á sjóinn með frænda sínum á vb. Guðbjörgu frá Sandgerði og síðan á vb. Ásmundi AK-8. Leif stundaði nám við Héraðsskólann í Reykjanesi og eignaðist þar m.a. ævivini. Sjómennskan átti hug hans allan og varð svo að hans ævistarfi. Hann fór síðan á síldveiðar ungur að árum og var lengi með Þórði Óskarssyni á Sólfara frá Akranesi. Leif fór í Stýrimannaskólann árið 1963 og útskrifaðist þaðan með full skipstjórnarréttindi árið 1965. Þegar síldin hvarf fór hann vestur á firði og stundaði sjóinn með bræðrunum Finnboga og Ólafi Magnússonum lengst af. Hugurinn leitaði alltaf í eigin útgerð og eignaðist hann snemma sinn fyrsta bát, trillu sem hét Þytur. Árið 1972 lét hann smíða fyrir sig á Patreksfirði vb. Bensa ásamt bræðrum sínum og föður. Seinna meir var keyptur annar Bensi og árið 1989 var smíðaður nýr Bensi í Bátalóni í Hafnarfirði og sá fjórði árið 1997. Leif var annálað snyrtimenni, var þekktur fyrir góðan frágang á fiski sem og öllu öðru alla tíð. Snemma á 10. áratugnum fór Leif í land og stofnaði fiskverkun með Ídu konu sinni og verkuðu þau bæði saltfisk og harðfisk í rúm 10 ár og voru þekkt fyrir mikla gæðaframleiðslu bæði saltfiskafurðanna sem seldar voru á Spánarmarkaði, sem og harðfisks á heimamarkaði.

Útför Leifs fer fram frá Akraneskirkju í dag, 4. júlí 2024, klukkan 11.

Elsku pabbi minn er haldinn á ný mið. Föstudagskvöldið 21. júní lauk baráttunni, rúmum þremur mánuðum eftir fimmtu heilablæðinguna, þá síðustu og þá einu sem þú sigraðir ekki, en þú sigraðir allar hinar. Lífsviljinn og baráttan, þú varst svo hraustur og svo sterkur en núna var orkan búin og komið að kveðjustund. Ég sá þig fyrir mér á þessari stundu standa í stafni skips með þanin seglin, ungan og hraustan, sigla á vit nýrra ævintýra.

Þú varst náttúrunnar maður, hafið bláa, himinninn, vindurinn og veðrið. Mér leið stundum eins og þú talaðir við náttúruna, hvernig þú rýndir í veðrið, skýjafarið og sjólagið. Þú varst líka veðurfræðingur, veðurspáin, settir útvarpið við eyrað, tökum veðrið sagðir þú, hann er vaxandi í Vesturdjúpi, við förum ekki á sjóinn í nótt!

Árin sem við rerum saman á Bensanum eru mér minnisstæð, árin sem við kynntumst í raun hvor öðrum og sá mikli lærdómur sem hefur fylgt mér í gegnum lífið. Hvernig þú kenndir mér réttu handbrögðin: að gera að fiski, láta hann blæða, ísa niður og raða, að rýna í dýptarmælinn, skoða botnlagið, læra á radarinn, taka landmið og allt annað sem skipti máli. Þú kenndir mér allt, kenndir! Lést ekki reka á reiðanum, það var góð tilfinning. Svo kom að því einn daginn að þú sagðir við mig, sonur sæll nú ferð þú með bátinn, ég ætla að skreppa til Noregs og hitta norska pabba, hann er fundinn!

Elsku pabbi, þú varst sjómaður í húð og hár. Líka fiskverkandi í seinni tíð og þótti þér einstaklega gaman að takast á við að verka saltfisk og steinbít sem var hjallþurrkaður, allt við góðan orðstír. Þú gerðir allt svo rosalega vel, frágangur á fiskinum til sjós og í fiskverkuninni, allt var upp á tíu. Ég man þegar sölumaður hjá SÍF spurði þig einu sinni hvort hann gæti ekki fengið að skoða hjá þér B-gæði í vinnslunni og þú svaraðir um hæl, við Ída borðum allan B-fiskinn sjálf.

Þú varst mikið snyrtimenni, alltaf vel til hafður og í burstuðum skóm. Ávallt voru bílarnir hreinir og bónaðir og bátarnir nýskveraðir eins og þeir væru að koma úr slipp. Þú varst í raun stílisti, þinn eigin stílisti til sjós og lands, hvar sem er og hvenær sem er. Ég gleymi því aldrei á meðan ég lifi þegar við vorum að æfa okkur fyrir daginn okkar Thelmu í kirkjunni á Patró og þú sagðir við nafna þinn, Séra Leif sem fylgir þér í dag, mundu svo bara að bursta skóna þína fyrir athöfnina á laugardaginn!

Síðustu árin snerist lífið um trilluna ykkar mömmu, Gauju Sæm. Þú rerir til fiskjar og mamma tók á móti þér, flakaði og pakkaði aflanum og þegar ég spurði um aflabrögð þá sagðir þú „20 máltíðir fyrir okkur mömmu þína”, engin tonn lengur eins og áður.

Elsku pabbi, ég mun sakna þess að heyra rödd þína sem ég mun ekki heyra framar, þú varst alltaf með hugann við sjóinn, spurðir hvernig aflabrögð væru, hvernig markaðirnir væru og hvernig salan gengi.

Ég lofa að passa mömmu fyrir þig.

Takk fyrir samfylgdina, góða ferð og guð geymi þig.

Þinn sonur,

Halldór.

Elsku pabbi.
Hjarta mitt er fullt af sorg, fullt af minningum en líka gleði því það var svo margt skemmtilegt sem við brölluðum saman, æskan mín á Patró snerist um fiskinn, sjóinn, útgerðina, bátana og bryggjurúntinn. Það var toppurinn að fara rúnt og spjalla við kallana um aflann og veðrið, kíkja um borð og fá kex.
Hádegið var gjarnan notað til að „setja lappirnar upp í loft”. Þá lagðist þú í sófann og ég kúrði hjá þér, hlustuðum á hádegisfréttir og veður.
Við fórum gjarnan yfir textann okkar og sungum saman uppáhaldsvísuna okkar.
Ég gaf þér nebbakoss.

Hafið bláa hafið hugann dregur,
hvað er bak við ystu sjónarrönd?
Þangað liggur beinn og breiður vegur;
bíða mín þar æsku draumalönd.
Beggja skauta byr
bauðst mér ekki fyrr.
Brunaðu nú bátur minn,
svífðu seglum þöndum,
svífðu burt frá ströndum,
fyrir stafni haf og himinninn.

(Örn Arnarson)

Elsku pabbi, ég á þér svo margt að þakka.
Ég elska þig.
Þín

Guðríður.

Þá hefur hann Leif bróðir minn kvatt okkur að sinni. Ég er næst Leif í aldri af okkur systkinum en við vorum þrjú á litlu aldursbili, ég, Sæmi og Siggi, og svo kom Brynja systir nokkuð seinna.

Við Leif ólumst upp í æsku í Olíustöðinni í Hvalfirði og sá leikvöllur var mikið ævintýraland. Á þeim árum voru hermenn þar sem margir urðu miklir vinir fjölskyldunnar og nutum við Leif góðs af ýmsu sem þótti nokkuð framandi hér á landi á þeim tíma. Leif bróðir átti góða æskuvini í Hvalfirði og hélt hann sambandi við suma hverja allt sitt líf.

Samfélagið var lítið og að sjálfsögðu þekktust allir. Leif hafði gott lag á að snúa sig fagmannlega út úr erfiðum aðstæðum. Þegar við ólumst upp fannst honum systir sín ekki alltaf sú fallegasta en haft er í minnum þegar ættingi kom í heimsókn að sunnan og hafði á orði hvað við systkinin ég og Leif værum lík. Seinna um daginn fór Leif til mömmu okkar og sagði hvað honum hefði alltaf þótt hún Rósa systir sín vera myndarleg stúlka. þetta sýndi og sannaði enn og aftur hvernig hann spilaði af fingrum fram við erfiðar aðstæður.

Eitt af mínum fyrstu launuðu störfum var að pússa skóna af bróður mínum en slíkt snyrtimenni var hann alla tíð að hann hefði aldrei farið úr húsi í óburstuðum skóm.

Það má því segja að þetta sé upphafið að því viðurnefni sem við systkinin gjarnan köllum okkur á góðum stundum, þ.e. fallega fólkið, en það viðurnefni kom yngsta systir okkar hún Brynja með í einhverri tölu sem hún hélt á hinu árlega ættarmóti okkar systkina og afkomenda inni á Bjarteyjarsandi í Hvalfirði.

Leif hóf sinn búskap á Akranesi með henni Ídu sinni og bjuggu þau sín fyrstu búskaparár þar, nánar tiltekið á Litla-Mel, en fluttust síðar vestur á firði, lengst af bjuggu þau á Patreksfirði en síðustu ár voru þau búsett á Akranesi.

Ég minnist sérstaklega hin seinni ár þegar við systkinin hittumst öll og hvað það var hægt að spjalla og hlæja mikið. Þá voru æskuárin rifjuð upp og þar var af mörgu að taka. Sérstaklega er það ánægjulegt að við hittumst öll í lok febrúar á afmælisdegi móður okkar og þar naut Leif sín vel og yndislegt að eiga slíka minningu fyrir ekki svo löngu.

Nú er komið að kveðjustund elsku bróðir og þú lagður af stað í Sumarlandið þar sem tekið verður vel á móti þér. Minningin um þig mun ávallt fylgja mér. Guð geymi þig.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Við Valdi sendum elsku Ídu og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur.

Þín systir,

Rósa Halldórsdóttir.