Vinakot. Heimilið óskaði eftir því við félagsmálaráðuneytið árið 2019 að gæðaúttekt færi fram á heimilinu. Nú hefur umboðsmaður Alþingis skilað áliti.
Vinakot. Heimilið óskaði eftir því við félagsmálaráðuneytið árið 2019 að gæðaúttekt færi fram á heimilinu. Nú hefur umboðsmaður Alþingis skilað áliti. — Morgunblaðið/Eggert
Skortur er á umgjörð og eftirliti af hálfu sveitarfélaga með starfsemi búsetuúrræðanna Vinakots og Klettabæjar. Þá er aðkomu fagfólks að umönnun þeirra barna sem þiggja þjónustuna ábótavant.

Þetta sýna niðurstöður úttektar umboðsmanns Alþingis, sem sinnir óháðu innlendu eftirliti með stöðum þar sem fólk er eða kann að vera frelsissvipt.

Starfsemi búsetuúrræðanna var tekin út í júní 2023 og gaf umboðsmaður út skýrslu sína í gær.

Skjólstæðingar Vinakots og Klettabæjar eru börn á aldrinum 13-18 ára sem eru með svokallaðan fjölþættan vanda.

Þjónustan er á ábyrgð lögheimilissveitarfélaga þeirra er hana sækja. Barnaverndarþjónustu sveitarfélaganna ber hins vegar að fylgjast með gæðum og árangri búsetuúrræða.

Starfsmaður einn með barni

Umboðsmaður gerir athugasemd við að í einhverjum tilfellum hafi barn í úrræði Vinakots verið eitt með starfsmanni. Þá hafi einnig komið fyrir að karlkyns starfsmaður á vakt sé einn með stúlku í sinni umsjá.

Í tilfellum beggja úrræða er skortur á aðkomu faglærðs starfsfólks á umönnunartíma og að starfsfólki sé kunnugt um réttindi barnanna.

Aðbúnaður er að sögn starfsfólks, aðstandenda og barnanna sjálfra yfirleitt góður en þó eru áhyggjur af félagslegri einangrun barnanna á vistunartíma.

Ekki hafi í öllum tilfellum verið haft samband við lækni í kjölfar valdbeitingar. Hjá Klettabæ þurfa börnin iðulega að tilgreina ástæðu þess að þau vilji hitta lækni. Klettabæ er gert að láta af því enda eigi börnin rétt á slíkri þjónustu.

Skortur á upplýsingum, eftirliti og skráningu atvika

Atvikaskráningu er ábótavant og beinast tilmæli þess efnis að báðum úrræðum. Tilmæli um skráningu og meðferð kvörtunar-, kæru- og málskotsleiða beinast að sveitarfélögunum ásamt búsetuúrræðunum.

Réttindi barnanna þurfa að vera kortlögð og upplýsingar þar um eiga að berast frá sveitarfélögum og úrræðunum til barnanna sjálfra og aðstandenda þeirra.

Í skýrslunni kemur einnig fram að þeim tilmælum sé beint til mennta- og barnamálaráðherra að tryggja að þvingunarráðstöfunum gagnvart börnum á heimilum og stofnunum á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga sé búin viðhlítandi umgjörð í lögum.

Sveitarfélög skulu viðhafa innra eftirlit og þeim tilmælum er beint til mennta- og barnamálaráðherra að setja reglugerð um innra eftirlit barnaverndarþjónustna í samræmi við ákvæði laga.

Jafnframt er þeim tilmælum beint til félags- og vinnumarkaðsráðherra að meta hvort réttaröryggi fatlaðs fólks sé nægilega tryggt á grundvelli núgildandi laga.

Innviðaráðherra hefur almennt stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögunum. Mennta- og barnamálaráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra hafa yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir í málefnum barna og fólks með fötlun, hvor í sínum málaflokki.

Þegar farið að bregðast við

Hjalti Andrason, fjölmiðlafulltrúi mennta- og barnamálaráðuneytisins, segir ráðuneytið muni bregðast við þeim tilmælum sem umboðsmaður beinir til þess í skýrslunni.

Í kjölfar úttektarinnar í fyrra hafi stýrihópur á vegum ráðuneytisins komið með tillögur að endurbótum er lúta að skipulagi þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Að sögn Hjalta er innleiðing þegar hafin á mörgum af tillögunum.

Jafnframt er unnið að endurskoðun á framkvæmd barnaverndar og barnaverndarlaga með skýrslu umboðsmanns til hliðsjónar.

Aðspurður um eftirlit með starfsemi Vinakots og Klettabæjar segir Hjalti það vera í höndum Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sem er sjálfstæð stofnun og sinnir eftirliti samkvæmt ákvæðum í barnaverndarlögum og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Guðrún Sæmundsen
gss@mbl.is

Höf.: Guðrún Sæmundsen