Birgir. Mikil spenna ríkir í Evrópu.
Birgir. Mikil spenna ríkir í Evrópu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Í fyrsta sinn í rúmlega 30 ára sögu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu [ÖSE] hefur Ísland fengið formennsku í nefnd.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Íslandsdeildar ÖSE, var á dögunum kosinn formaður öryggis- og stjórnmálanefndar ÖSE á ársfundi í Búkarest í Rúmeníu.

Ríkin sem eiga aðild að ÖSE eru 57 talsins og er þingið skipað 320 þingmönnum.

„Það er ánægjulegt að Ísland skuli fá þetta tækifæri og tímabært,” segir Birgir í samtali við Morgunblaðið.

Bandaríkin hafa gegnt formennskunni síðustu fjögur ár og tekur Birgir við af Richard Hudson, fulltrúadeildarþingmanni á Bandaríkjaþingi.

„Ég geri mér jafnframt grein fyrir því að formennskan verður krefjandi. Það eru viðsjárverðir tímar í Evrópu eins og við vitum. Sú spenna sem ríkir núna í álfunni hefur ekki sést síðan í síðari heimsstyrjöldinni.”

Hann telur að Ísland hafi margt fram að færa. Hann kveðst finna fyrir því á alþjóðavettvangi að borin sé virðing fyrir Íslandi.

„Ég lít svo á að hlutverk okkar eigi fyrst og fremst að vera að leitast við að draga úr spennu milli ríkja og stuðla að friði.”

Skoða að vísa Rússum úr ÖSE

Birgir segir að komið hafi til tals að vísa Rússum úr ÖSE, en þá þyrfti hins vegar að breyta stofnsamþykktum.

„ÖSE-þingið hefur fordæmt með afgerandi hætti innrás Rússa í Úkraínu. Rússar hafa ekki sótt fundi þingsins undanfarið og eiga erfitt með að fá vegabréfsáritanir. Við megum ekki gleyma því að það er fyrst og fremst hlutverk ÖSE að stuðla að friði í álfunni og koma í veg fyrir átök,” segir hann og bætir við:

„Formennskan færir Íslandi sterka rödd á sviði friðar- og öryggismála í Evrópu á erfiðum tímum.”