Apótek. Farið er að bera á skorti á lyfjafræðingum hér á landi.
Apótek. Farið er að bera á skorti á lyfjafræðingum hér á landi. — Ljósmynd/ Colourbox
Í blaðinu í gær var rætt við deildarforseta lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, Berglindi Evu Benediktsdóttur, um áhyggjur Lyfjastofnunar af þeim fjölda nemenda sem innrita sig í námið og tillögur stofnunarinnar til að bregðast við því. Berglind vildi meina að fjöldi lyfjafræðinema væri ekki áhyggjuefni en til að auka hlutfall faglærðs starfsfólks í apótekum þyrfti frekar að huga að starfsaðstæðum. Í því ljósi ætti að skoða hvort apótek séu ekki of mörg, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Í blaðinu í gær var rætt við deildarforseta lyfjafræðideildar Háskóla Íslands, Berglindi Evu Benediktsdóttur, um áhyggjur Lyfjastofnunar af þeim fjölda nemenda sem innrita sig í námið og tillögur stofnunarinnar til að bregðast við því. Berglind vildi meina að fjöldi lyfjafræðinema væri ekki áhyggjuefni en til að auka hlutfall faglærðs starfsfólks í apótekum þyrfti frekar að huga að starfsaðstæðum. Í því ljósi ætti að skoða hvort apótek séu ekki of mörg, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Reykjavíkurborgar að hafa skoðun

Fjöldi apóteka á landinu í árslok 2023 var 74 en það gerir um 5.240 íbúa á hvert apótek. Til samanburðar var talan 4.697 árið 2019.

Forstjóri Lyfjastofnunar, Rúna Hauksdóttir Hvannberg, segir að vissulega séu apótek fleiri hér en annars staðar á Norðurlöndum en hlutverk Lyfjastofnunar sé ekki að hafa skoðun á hvort apótek séu of mörg.

„Við veitum starfsleyfin og apótekin sem uppfylla skilyrði um að geta starfað fá þau leyfi. Það er í raun Reykjavíkurborg sem getur komið að þessu og haft skoðanir á þessu eins og hún hefur um bensínstöðvar eða kjörbúðir.”

Rúna segir stofnunina telja mikilvægt að auka hlutfall faglærðs starfsfólk í lyfjabúðum. Áður hefur verið fjallað um tillögu Lyfjastofnunar um að veita einhver starfsréttindi strax að loknu BS-námi í lyfjafræði en Rúna nefnir líka að skoða ætti möguleikann á að bjóða þjálfuðu starfsfólki að taka brúarnám til t.d. lyfjatæknis.

Deilir ekki áhyggjunum

„Ég deili nú ekki þessum áhyggjum,” segir Skúli Skúlason, formaður lyfsöluhóps Samtaka verslunar og þjónustu, SVÞ, spurður hvort of mörg apótek séu á Íslandi.

Hann tengir skort á lyfjafræðingum mun frekar við strangar reglugerðir um tvöfalda mönnun í apótekum og lögbundinn afgreiðslutíma þeirra, sem er frá annaðhvort níu eða tíu að morgni til sex að kvöldi.

„Flest apótek myndu vilja hafa sveigjanleika í þessu [...] þannig að lyfjafræðingar myndu ekki vera að vinna meira en sjö tíma á dag. Þannig að við getum aðeins dreift þessu og að menn séu ekki standandi frá klukkan tíu til sex alla daga.”

Spurður út í tillögur Lyfjastofnunar um að koma á legg einhvers konar brúarnámi fyrir reynt starfsfólk segist Skúli jákvæður gagnvart því: „Við erum mjög áhugasöm og okkur lýst vel á það.”

Elínborg Una Einarsdóttir
elinborg@mbl.is

Höf.: Elínborg Una Einarsdóttir