Rauðglóandi himinn og eldtungur færast nær heimili einu í Oroville í Norður-Kaliforníu þar sem geitur eru orðnar órólegar.

Miklir hitar hafa verið í Kaliforníu og rauðar veðurviðvaranir um allt ríkið vegna hættu á gróðureldum. Yfirvöld í Butte-sýslu í norðurhluta ríkisins gáfu út rýmingarskipun vegna mikilla elda sem hófust á þriðjudaginn nálægt Oroville. Eldurinn hefur þegar læst sig yfir rúmlega þrjú þúsund ekrur lands og í gær voru 28 þúsund manns á því svæði sem gert var að yfirgefa heimili sín. Búið var að opna neyðarskýli í Oroville-kirkju og víðar. Ljóst er að tjón verður mikið af eldinum og bæði land og innviðir í hættu, eins og vatnsveita Oroville.