Í dag er öld liðin frá fæðingu Sveinbjarnar Beinteinssonar skálds frá Draghálsi og verður þess minnst með viðburði í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd kl. 18 í kvöld. Benedikt bróðir minn gaf mér ljóðabók hans Vandkvæði í jólagjöf 1957 og hefur hún fylgt mér síðan. Þar er þessi ferhenda:

Í dag er öld liðin frá fæðingu Sveinbjarnar Beinteinssonar skálds frá Draghálsi og verður þess minnst með viðburði í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd kl. 18 í kvöld. Benedikt bróðir minn gaf mér ljóðabók hans Vandkvæði í jólagjöf 1957 og hefur hún fylgt mér síðan. Þar er þessi ferhenda:

Í upphafi var orðið
og orðið var hjá þér;
hvað af því hefur orðið
er óljóst fyrir mér.



Og hér er Vers:



Að liggja' ekki á bæn meðan liðs er þörf,
heldur leita' að þeim sauðum er týnast;
og vinna sín hljóðlátu venjustörf,
að vera fremur en sýnast.



Þessi Mansöngur er skemmtilega kveðinn:



Ýmsar myndir hugann hrærðu,
huga þann sem reikull er;
kannski aldrei oftar færðu
aldrei síðan ljóð frá mér.

Þögul nóttin öllu eyðir
eyðir dögum fyrir mér;
kemst ég ekki ljóssins leiðir
ljóssins veg í fylgd með þér?

Ræður mestu kvöldsins kraftur,
kvöldið slökkur ljóðin mín;
kemur birtan aldrei aftur
aldrei morgunbirtan þín?



Uppblástur heitir þetta erindi:


Ungur ég kvæði kvað,
kátleg og næsta þýð;
æskan átti sér stað
inni við Grænuhlíð.
Síðar í sandahríð
sumarlönd gróðurblíð
urðu að eyðisvæði;
eins þessi bernskukvæði.



Axlar-Björn



Helköld haustþögn
að heiðarenda
ginnir til glapræða
geigfullan hug;
orðlaus, aldauða
eyðileiki
geði gugnanda
grúfir yfir.


Lygi



Margur ló, og margur trúði;
mín var róin söm fyrir það.
Harmur þó á hugann knúði
er hjá þér rógurinn settist að.



Aldaför



Kappi drifin kynslóð ný
klungur yfir vandans
gengur hrifinhuguð í
háuklifum andans.

Giftu þykir okkur á
eigi mikið skorta,
bregðist kvikul krappaspá
kvíðans blikusorta.

Fylking þreytir flóttatreg
fram til streituleiða
orkuleit um óraveg
alda breytiskeiða.



Ægir


Stefnt í voða virðist mér
völtum gnoðum þegar
skaps á boða bylta sér
bylgjur hroðalegar.



Að síðustu eftir Sveinbjörn: Eirðarleysi:



Minn hugur úr byggðum til fjalla fer
er friður og stilling bregst,
og annan daginn í eyðisker
í óþoli sínu legst.



Limran Hjá grafreit eftir Hrólf Sveinsson:



„Hverjum er holað hér niður?“
„Hér hvílir Jón söðlasmiður.”
„Jón, hæ! Ert það þú?“
„Já, það held ég nú,
en harðdauður alveg, því miður.”


Limra eftir Kristján Karlsson:



„Í stríðum örlagastraumi,“
mælti Steingrímur, „þó að kraumi,
þá stend ég sem fastast
hvert sem strengurinn kastast.
Aftur stendur mér fastast í draumi.”

Sigurður Breiðfjörð kvað:

Gefðu ekki um, þó ögnin smá
í auga tolli mínu;
ber þig heldur burt að ná
bjálkanum úr þínu.



Nathan Ketilsson kvað:

Það er feil á þinni mey,
þundur ála bála,
að hún heila hefur ei
hurð fyrir mála skála.




Öfugmælavísan:



Grjótið er hent í góða löð,
úr glerinu nagla smíða,
í hörðum strengjum helst eru vöð,
hundi er skást að ríða.




Halldór Blöndal (halldorblondal@simnet.is)