[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KR og tekur formlega til starfa þann 1. ágúst.

Óskar Hrafn Þorvaldsson hefur verið ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá KR og tekur formlega til starfa þann 1. ágúst. Óskar Hrafn var ráðinn í starf sem ráðgjafi knattspyrnudeildar félagsins í síðasta mánuði eftir að hafa látið af störfum sem þjálfari karlaliðs Haugasunds, sem leikur í norsku úrvalsdeildinni, í maí. Rúnar Kristinsson var síðast yfirmaður knattspyrnumála hjá KR frá 2008 til 2009.

Hafsteinn Már Sigurðsson , landsliðsmaður í blaki, hefur skrifað undir samning við Habo, sem leikur í sænsku úrvalsdeildinni. Hafsteinn Már er uppalinn hjá Vestra en hefur síðustu tvö tímabil leikið með Aftureldingu. Hann var valinn besti Íslendingurinn á síðasta tímabili er Afturelding komst alla leið í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins en tapaði þar gegn Hamri. Hafsteinn Már hefur tvisvar verið valinn í draumalið úrvalsdeildarinnar hérlendis og leikið með íslenska landsliðinu undanfarin þrjú ár.

Riðlakeppni Ameríkubikars karla í knattspyrnu, Copa América, lauk í fyrrinótt þegar Brasilía og Kólumbía gerðu jafntefli, 1:1, í D-riðlinum. Raphinha skoraði mark Brasilíu og Daniel Munoz mark Kólumbíu. Brassinn Vinícius Júnior fékk gult spjald í leiknum og tekur út leikbann í átta liða úrslitum. Kólumbía vann D-riðilinn á meðan Brasilía gerði sér annað sætið að góðu. Kosta Ríka vann svo Paragvæ 2:1 í leik sem hafði enga þýðingu í riðlinum. Í átta liða úrslitum mætast Argentína og Ekvador, Venesúela og Kanada, Kólumbía og Panama og loks Úrúgvæ og Brasilía.

Breski hjól­reiðakapp­inn Mark Ca­vend­ish vann fimmtu dag­leið Frakk­lands­hjól­reiðanna, Tour de France, í gær. Með sigr­in­um er Cavendish búinn að vinna 35 dag­leiðir í Frakk­lands­hjól­reiðunum, fleiri en nokk­ur ann­ar í sög­unni. Með sigr­in­um tók Ca­vend­ish fram úr belg­ísku goðsögn­inni Eddy Merckx sem vann 34 dag­leiðir á ferli sín­um á 7. og 8. ára­tugn­um.

Körfuknattleiksdeild Hattar hefur samið við danska bakvörðinn Adam Heede-Andersen um að leika með liðinu á næsta tímabili. Heede-Andersen, sem fagnar 28 ára afmæli sínu í dag, kemur frá Værløse Blue Hawks í heimalandinu.

Merih Demiral , hetja Tyrklands í 2:1-sigri á Austurríki í 16-liða úrslitum Evrópumóts karla í knattspyrnu á þriðjudagskvöld, gæti verið í vandræðum vegna þess hvernig hann fagnaði síðara marki sínu í leiknum. Demiral fagnaði með svokallaðri „úlfakveðju” sem vísar til pólitísku hreyfingarinnar Gráu úlfanna, sem eru þjóðernissinnuð hægriöfgasamtök sem leggja áherslu á yfirburði Tyrkja. UEFA rannsakar nú fagnið og metur hvort hann hafi sýnt af sér óviðeigandi hegðun, sem gæti leitt til sektar og/eða leikbanns. Verði Demiral úrskurðaður í leikbann missir hann af leik Tyrklands gegn Hollandi í átta liða úrslitum á laugardag.