Marksækin. Bandaríkjakonan Jordyn Rhodes skoraði sex af fyrstu tólf mörkum Tindastóls í Bestu deildinni og hef- ur náð að fylla skarð Murielle Tiernan í liðinu svo um munar. Jordyn skoraði fjögur mörk í deildinni í júní.
Marksækin. Bandaríkjakonan Jordyn Rhodes skoraði sex af fyrstu tólf mörkum Tindastóls í Bestu deildinni og hef- ur náð að fylla skarð Murielle Tiernan í liðinu svo um munar. Jordyn skoraði fjögur mörk í deildinni í júní. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
„Það væri skemmtilegt að verða markahæsti leikmaður deildarinnar,” segir bandaríska knattspyrnukonan Jordyn Rhodes í samtali við Morgunblaðið.

„Það væri skemmtilegt að verða markahæsti leikmaður deildarinnar,” segir bandaríska knattspyrnukonan Jordyn Rhodes í samtali við Morgunblaðið.

Hún var besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta í júní, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins en hún fékk fimm M í fjórum leikjum Tindastólsliðsins í mánuðinum.

Jordyn er bandarískur framherji, 24 ára gömul. Hún skoraði fjögur mörk fyrir Tindastól í deildinni í júnímánuði og hefur skorað sex mörk í deildinni hingað til.

Hún átti frábæran mánuð en liðið vann þó aðeins einn leik, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur á móti liðum sem þær skagfirsku eru í baráttu við í neðri hluta deildarinnar.

„Þetta hefur verið frábær mánuður fyrir mig persónulega en liðið hefur tapað stigum. Við höfum ekki verið með allan hópinn vegna meiðsla en erum að reyna að þjappa okkur saman,” sagði Jordyn við Morgunblaðið.

Hún kom Tindastóli yfir gegn Þrótti snemma í leik liðanna en Skagfirðingar töpuðu svo leiknum, 4:2.

„Ég kom með mikið sjálfsöryggi inn í leikinn og við spiluðum vel í fyrri hálfleik. Við fengum fleiri tækifæri til þess að skora. Leikurinn endaði svo 4:2 því við gáfum þeim tækifæri til þess að komast aftur inn í leikinn sem við erum ekki ánægðar með. Við getum samt lært heilmikið af þessu og munum taka fullt af punktum úr þessum leik og nýta okkur út tímabilið.”

Mikilvægt í Keflavík

Jordyn skoraði svo bæði mörk Tindastóls í 2:0-sigri liðsins á útivelli gegn Keflavík sem var mikilvægur sigur fyrir liðið til þess að klifra upp töfluna.

„Við vissum hversu mikilvægur þessi leikur var. Við þurftum þrjú stig til þess að koma okkur ofar þar sem við viljum vera. Ég er mjög þakklát fyrir liðsfélaga mína, þær bjuggu til þessar stöður fyrir mig sem ég gat nýtt, ég gæti þetta ekki án þeirra.”

Jordyn hefur skorað helminginn af mörkum Tindastóls í deildinni sem eru 12 en liðið hefur fengið 21 mark á sig.

„Ég reyni að gera eins mikið og ég get, þetta er góð deild og sama manneskjan getur ekki skorað endalaust. Það er pirrandi að hafa ekki allt liðið vegna meiðsla en við erum að gera okkar besta.

Okkar markmið er að vera í efri hlutanum og við erum í þannig stöðu núna að við erum að daðra við það. Höfum verið í sjötta sæti og erum í fínum séns að komast í efri hlutann,” sagði Jordyn en Tindastóll er í sjöunda sæti með tíu stig, jafn mörg og Þróttur sem er í sjötta. Sex efstu liðin fara í efri hlutann á lokaspretti mótsins og geta ekki fallið.

Markahæst í Kentucky

Jordyn kom til Íslands fyrir tímabilið, til þess að fylla skarð Murielle Tiernan hjá Tindastóli, en hún kom frá Kentucky-háskóla þar sem hún er markahæsti leikmaðurinn í sögu skólans. Hún var búin að heyra áður um íslensku deildina.

„Ég þekkti tvo íslenska leikmenn, eina sem er í Stjörnunni núna og aðra sem er hætt. Þetta er mjög góð deild en ég er aðeins að venjast veðrinu, það er mun kaldara hér en heima en þetta er að skána með sumrinu,” sagði Jordyn sem er ekki viss hvað hún mun gera eftir tímabilið.

Hún er fjórði markahæsti leikmaður deildarinnar með sex mörk, næstu þrjár fyrir ofan hana eru með sjö mörk og svo er Sandra María Jessen með 12 stykki.

„Það væri skemmtilegt að verða markahæst. Ég vil að liðinu gangi vel og vil hjálpa liðinu og ef ég væri markahæst í leiðinni þá væri það frábært. Sandra er samt búin að skora svo mikið að það verður erfitt að ná henni,” sagði Jordyn Rhodes.

Ásta Hind Ómarsdóttir
astahind@mbl.is

Höf.: Ásta Hind Ómarsdóttir