Jordyn Rhodes, bandaríski framherjinn hjá Tindastóli, var besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta í júnímánuði, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Jordyn Rhodes, bandaríski framherjinn hjá Tindastóli, var besti leikmaður Bestu deildar kvenna í fótbolta í júnímánuði, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Jordyn fékk fimm M í fjórum leikjum Skagfirðinga í deildinni í júní. Hún hafði áður fengið fjögur M í fyrstu sex leikjum Tindastóls, var í hópi varamanna úrvalsliðs Morgunblaðsins fyrir apríl og maí, og í heildina var hún efst af leikmönnum Tindastóls í einkunnagjöfinni eftir tíu umferðir með samtals 9 M.

Tvær ofar í M-gjöfinni

Aðeins tveir leikmenn í deildinni voru ofar í einkunnagjöfinni að tíu umferðum loknum, Sandra María Jessen úr Þór/KA með 11 M samtals og Amanda Andradóttir úr Val með 10 M.

Jöfn henni með 9 M samanlagt var Katie Cousins úr Val, en síðan komu Barbára Sól Gísladóttir úr Breiðabliki, Caroline Murray úr Þrótti og samherji hennar úr Tindastóli, markvörðurinn Monica Wilhelm, með 8 M hver.

Jordyn fékk M í öllum fjórum leikjum Tindastóls í júní, tvö M í einum þeirra, og var eini leikmaður deildarinnar sem náði samtals í fimm M í júnímánuði. Þá var hún tvívegis valin í úrvalslið umferðarinnar hjá Morgunblaðinu í júní.

Átta leikmenn voru á hælum hennar með fjögur M hver eins og sjá má í uppstillingu úrvalsliðsins og tvær þeirra þurftu að sætta sig við sæti á varamannabekknum.

Þrjár aftur í byrjunarliði

Amanda Andradóttir og Katie Cousins úr Val og Caroline Murray úr Þrótti eru í byrjunarliðinu í annað sinn en þær voru líka í hópi ellefu bestu þegar liðið var valið í fyrsta sinn eftir fyrstu sex umferðir tímabilsins í lok maí.

Jordyn Rhodes og Sandra María Jessen hafa verið einu sinni í byrjunarliði og einu sinni í hópi varamanna á fyrstu tveimur mánuðunum og þá er Saorla Miller úr Keflavik í hópi varamanna í annað skipti á tímabilinu.

Bestar í hverri umferð

Morgunblaðið velur besta leikmanninn í hverri umferð, með hliðsjón af M-gjöfinni. Í sjöundu umferð var Kristrún Rut Antonsdóttir úr Þrótti valin, í áttundu umferð var það Sandra María Jessen úr Þór, í níundu umferð var það Selma Dögg Björgvinsdóttir úr Víkingi og í tíundu umferðinni var það Katrín Ásbjörnsdóttir úr Breiðabliki.

Valur fékk flest M samanlagt í júní, 25 samtals í fjórum leikjum. Þór/KA kom næst með 21 M, Þróttur, FH og Víkingur voru með 18 M hvert lið, Breiðablik fékk 17, Tindastóll 16, Keflavik 14 en Stjarnan og Fylkir ráku lestina með 10 M hvort lið.

Einkunnagjöf Morgunblaðsins er á þá leið að leikmenn fá eitt M þegar þeir eiga góðan leik að mati Morgunblaðsins og mbl.is, en sá sem lýsir leik á mbl.is á hverjum leikstað fyrir sig gefur einkunnir fyrir viðkomandi leik. Leikmenn fá eitt M þegar þeir eiga góðan leik, tvö M þegar þeir eiga mjög góðan leik og þrjú M þegar þeir eiga frábæran leik.

Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Höf.: Víðir Sigurðsson