Árni Gíslason fæddist í Eyhildarholti í Skagafirði 21. janúar 1930. Hann lést á heimili sínu, Eyhildarholti, 9. júní 2024.

Foreldrar hans voru Gísli Magnússon, f. 25. mars 1893, d. 17. júlí 1981, bóndi í Eyhildarholti, og kona hans, Stefanía Guðrún Sveinsdóttir, f. 29. júlí 1895, d. 13. ágúst 1977. Systkini Árna eru: 1) Magnús Halldór, f. 23. mars 1918, d. 3. febrúar 2013, maki Jóhanna Guðný Þórarinsdóttir, d. 20. júní 2018. 2) Konráð Elinbergur, f. 19. júlí 1919, d. 10. nóvember 1919. 3) Sveinn Þorbjörn, f. 10. júní 1921, d. 18. mars 2009, maki Lilja Sigurðardóttir, d. 13. janúar 2007. 4) Konráð, f. 2. janúar 1923, d. 24. júní 2005, maki Helga Bjarnadóttir. 5) Rögnvaldur, f. 16. desember 1923, d. 7. apríl 2014, maki Sigríður Jónsdóttir, d. 18. október 2012. 6) Gísli Sigurður, f. 26. júní 1925, d. 9. maí 2018, maki Ingibjörg Jóhannesdóttir, d. 3. nóvember 2021. 7) Frosti, f. 14. júlí 1926, d. 18. desember 2001, maki Jórunn Sigurðardóttir, d. 25. apríl 2015. 8) Kolbeinn, f. 17. desember 1928, d. 15. janúar 1995. 9) María Kristín Sigríður, f. 4. ágúst 1932, d. 2. nóvember 2022, maki Árni Blöndal, d. 22. september 2017. 10) Bjarni, f. 8. ágúst 1933, d. 18. janúar 2012, maki Salbjörg Márusdóttir. 11) Þorbjörg, f. 17. apríl 1935, d. 17. apríl 1935. 12) Þorbjörg Eyhildur, f. 26. ágúst 1936, maki Sæmundur Sigurbjörnsson.

Árni kvæntist 25. maí 1958 Ingibjörgu Sveinsdóttur, f. 8. janúar 1936, d. 6. janúar 2018. Foreldrar hennar voru Sveinn Þorbergur Guðmundsson, f. 26. desember 1905, d. 29. maí 1950, og Helga Steinunn Erlendsdóttir, f. 13. júní 1916, d. 18. ágúst 2007.

Ingibjörg og Árni bjuggu allan sinn búskap í Eyhildarholti. Börn þeirra eru:

1) Sveinn, f. 23. mars 1959, kona hans er Sigurlaug Eyrún Sigurbjörnsdóttir, f. 3. apríl 1966, þeirra börn a) Sigþór Smári Sigurðsson, kona hans er Guðrún Ólafsdóttir, þeirra börn Rebekka Ósk og Snæbjört Ýr, b) Eyþór Fannar, kona hans er Jónína Róbertsdóttir, börn þeirra eru Bergdís Lilja og Júlían Stormur, c) Laufey Rún, maður hennar er Benjamín Þór Sverrisson. 2) Gísli, f. 19. júní 1961, kona hans er Guðrún Ingólfsdóttir, f. 20. apríl 1963, þeirra börn a) Árni Páll, b) Kolbeinn Helgi, kona hans er Eva Ásgeirsdóttir, börn þeirra Vilhelm Leví Steinarsson og Rebekka Lind Steinarsdóttir. 3) Erlendur Helgi, f. 4. ágúst 1963, d. 26. mars 2024, kona hans er Sonja Kjartansdóttir, f. 5. ágúst 1964, þeirra barn Guðmundur Smári. 4) Guðrún Eyhildur, f. 2. júlí 1968, maður hennar er Guðmundur Rúnar Halldórsson, f. 21. september 1971. Barnsfaðir Guðrúnar er Stefán Veigar Gylfason, f. 26. mars 1960, þeirra börn Stefán Heiðar og Þorleifur Feykir.

Útför Árna fer fram frá Flugumýrarkirkju í Akrahreppi í dag, 5. júlí 2024, og hefst athöfnin kl. 14.00.

Komið er að kveðjustund og minnist ég Árna frá Eyhildarholti með hlýju og vinsemd.

Mín fyrstu kynni af honum voru fyrir tæpum 40 árum en þá tóku Árni og Edda okkur Smára afskaplega vel þegar við fórum að venja komur okkar í heimsóknir með Sveini. Þá bjó margt fólk í Holti og líf og fjör alla daga og alltaf hlaðborð hjá Eddu. Árni átti sinn fasta stað við eldhúsborðið og höfðu þau gaman af að fá gesti og spjalla en við vorum ekki lengi gestir því við sóttum í bústörfin með þeim fljótlega.
Árni var mikill bóndi og ræktaði vel sitt fé. Margar ferðir á dag gekk hann austur fyrir vötnin í fjárhúsin til að sinna ánum með stafprik og stikaði hratt og átti samferðafólk fullt í fangi með að halda í við hann.
Eyvindarstaðaheiðin var honum mjög kær þar sem fénu frá Holti var sleppt á vorin og fór hann í göngur í mörg ár. Eftir að Árni hætti því var honum mikið í mun að komast á sumrin upp á heiðina og njóta hennar með nesti og smá lögg í pela og rifja upp skemmtilegar sögur af göngum og gangnamönnum sem voru honum samferða.
Skemmtilegt er að minnast þess þegar hann fór með í heimsóknir, þá var hann varla sestur þegar hann sagði jæja, stuttu seinna kom annað jæja og þá var hann staðinn upp og vildi fara af stað heim, ekki mátti slóra of lengi frá bústörfunum.
Silungsveiðin var hans mesta áhugamál og varla komið vor þegar þurfti að fara að koma fyrir lögnum til að setja út netin og ná sem mestum afla. Árni vildi eiga nóg til að geta gefið ættingjum og vinum nýjan og reyktan silung því hann kunni mjög vel að reykja silung og kjöt.
Árni hafði gaman af að fara með vísur og magnað hvað hann mundi vel höfunda og við hvaða tilefni þær voru samdar. Gleðin skein úr augum hans við að rifja þær upp og þótti mér vænt um þær stundir með honum.
Árni hafði mjög gaman af söng og gleðskap og var Karlakórinn Heimir honum einstaklega kær og fylgdist hann vel með starfinu eftir að hann hætti að fara á æfingar. Á sínum yngri árum lagði hann mikið á sig til að komast á æfingar þar sem var langt að fara frá Holti til að stunda þær.
Honum var mjög umhugað um velgengni afkomendanna og fylgdist vel með yngstu kynslóðinni. Ef eitt þeirra átti afmæli þá fengu þau öll eins gjafir á sama tíma og hann mundi hvenær hvert þeirra átti afmæli sem er ekki öllum gefið.
Árni naut búsetu í Eyhildarholti alla sína tíð utan við námsárin í Bændaskólanum á Hólum og vinnu við brúarsmíði á sumrin. Hann gekk á skíðum frá Hólum og fram um sveitir til að spila á harmoniku með Gísla bróður sínum á dansleikjum fyrir sveitungana og hafði mjög gaman af.
Að alast upp í Eyhildarholti og upplifa ótrúlegar breytingar á langri ævi og allt annað sem hann þurfti að takast á við sýnir ótrúlegu elju. Hann fékk að búa þar sem honum þótti kærast að vera alla sína tíð, er gott að minnast hans þar.
Kveð Árna tengdaföður minn með þökk fyrir yndisleg kynni og veit að hann heldur áfram að fylgjast með sínum úr sumarlandinu.

Árin tifa ævin rennur,

ellin rifar seglin hljóð.

Fennir yfir orðasennur,

eftir lifir minning góð.

(Höf. ók.)

Kveðja,

Eyrún.

Elsku afi minn, það er komið að kveðjustund.

Minningar um góðar stundir í sorginni byggja upp þakklæti fyrir liðinn tíma. Margs er að minnast um þá einstöku persónu sem þú hafðir að geyma. Alla tíð fylgdist þú vel með fólkinu þínu með væntumþykju og ætíð varstu tilbúinn að rétta hjálparhönd.

Það var öllum ljóst að veiðin var þér mikið áhugamál þar sem lagnir voru við alla tanga, nes og höfða á landareigninni þegar best lét. Lagnirnar þróuðust mikið í gegn um árin með grjóthleðslum, forsteyptum kubbahleðslum eða timburgrindum með áföstu bárustáli. Ég minnist þess þegar þú stóðst á planinu við mjólkurhúsið heima í Holti og verkaðir netin þín. Helgarnar fóru iðulega í þá iðju þegar veiðar leyfðust ekki í vötnunum. Þú hélst vel í þá reglu að leggja ekki net utan opins veiðitíma vegna virðingar þinnar við vötnin og lífríki þeirra, en einnig vegna reglumannsins sem innra með þér bjó. Æði margar og eftirminnilegar ferðir á gamla Ferguson rifjast upp við að vitja um og sækja afla með þér, þú á pallinum og ég í yngri kantinum við stýrið.

Í seinni tíð dró úr veiðinni en þrátt fyrir það má segja að þú hafir sinnt áhugamáli þínu nánast fram á síðustu stund.

Eftirminnileg eru mörg þau verkefni sem við fengum að fylgja þér við og aðstoða.

Það rifjast upp þegar velja átti fé til ræktunar, þá var það oftast í þínum höndum að velja gripina enda reyndur við bændastörfin til margra ára.

Kjöt- og fiskreykingar voru þín list og sótti fólk að til að sækja handbragð þitt. Við þann undirbúning var byrjað eftir sauðburð að stinga út tað og reisa það upp til þurrkunar uppi á klöppum. Þar komum við villingarnir að til að hjálpa til.

Kartöfluræktin var í þinni umsjá þar sem fleiri hundruð kíló voru sett niður í sumarbyrjun. Það brást ekki að ef útlit var fyrir hitastig við frostmark var kominn dúkur yfir grösin áður en nokkur vissi af.

Ástríða þín fyrir karlakórnum var mikil og þar áttum við sameiginlegan umræðugrundvöll. Kórinn kom ávallt til umræðu milli okkar og eru minningarnar góðar um þau samtöl okkar.

Það er mér afar dýrmætt að börnin hafi fengið að kynnast langafa sínum og finna væntumþykju þína. Ljóst er að mikill og hjartahlýr maður er horfinn á braut sem verður ætíð saknað.

„Nú legg ég augun aftur” segir í sálminum.

Ég trúi að þessi orð hafi komið í huga þinn þegar þú lagðist á koddann til hinstu hvílu afi minn.

Takk fyrir allt elsku afi og langafi. Njóttu þess að sameinast ömmu og Ella í sumarlandinu fagra.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Eyþór Fannar Sveinsson.

Árni afi í Eyhildarholti var einstakur maður á marga vegu, hann var staðfastur og sérvitur en samt húmoristi og ljúfmenni.
Hann var barngóður og svolítið stríðinn við okkur barnabörnin. Ég minnist þess að þegar ég var barn átti hann það til að dýfa sykurmola ofan í kaffið sitt og gefa mér og stundum tók hann kaffi með sykri í teskeið og leyfði mér að smakka, sem hjálpaði greinilega ekki til við gauraganginn í mér.
Það er heiður að hafa fengið að alast upp í Eyhildarholti með þessum manni þar sem hann tók mann með sér í alls konar verk eins og að veiða silung í Héraðsvötnum eða kveikja upp í reykkofanum þar sem hann reykti kjöt og silung. Afi sagði mér líka alls konar sögur, t.d. hvernig búskapurinn í Holti var hér áður fyrr og þegar þeir bræðurnir gengu yfir Héraðsvötnin á ís, oft í brjáluðu veðri, til að komast á kóræfingar.
Afi var mikill tónlistarunnandi, hann söng í Karlakórnum Heimi og spilaði á orgel og harmoniku, afi sat oft með mig þegar hann spilaði á orgelið og leyfði mér stundum að prófa að spila líka, þótt það hafi auðvitað ekki hljómað nærri eins vel.
Við afi vorum mjög nánir og ef ég var ekki heima í Holti þá töluðum við í síma á nánast hverju kvöldi og spjölluðum um allt milli himins og jarðar. Seinasta skipti sem ég talaði við afa í símann þá sagði hann við mig hvað honum þætti vænt um símtölin á milli okkar og hvað þau skiptu hann miklu máli, daginn eftir það fór afi að sofa um kvöldið og lést friðsamlega í svefni.

Grúfir yfir niðdimm nótt
en nýjan dag skal lofa.
Ef að brestur þrek og þrótt
þá er gott að sofa.

(Árni Gíslason Eyhildarholti 1995)

Elsku afi, takk fyrir allar yndislegu stundirnar og minningarnar sem þú gafst mér og ég er viss um að amma og Elli frændi taka vel á móti þér í sumarlandinu.

Stefán Heiðar Veigarsson Eyhildarholti.

Að morgni 9. júní síðastliðins vorum við feðgar við veiðar í Ölfusá þegar síminn hringdi. Á línunni var Sveinn Árnason frændi minn að tilkynna mér lát Árna föður síns sem hafði andast þá um nóttina. Þrátt fyrir háan aldur Adda brá mér sem oftar þegar maðurinn með ljáinn bankar á dyr, hann bankar hátt maðurinn sá og hvirflar upp minningum.
Árna Gíslasonar, Adda frænda, minnist ég sem mikils náttúruunnanda og veiðimanns. Ég man eftir veiðiferðum með þeim bræðrum, honum og pabba, báturinn dreginn á höndum fram að Grundarstokk. Stór og mikil varpa var með í för, riðin og útbúin af þeim sjálfum. Síðan fór Addi í bátinn þegar komið var að fyrsta hyl, reri og dró vörpuna út. Þegar hylnum sleppti reri hann í land að sandeyri og varpan dregin að, bugað eins og sagt var, stundum var afli góður, stundum ekki, en alltaf jafn gaman.
Addi var ekki bara veiðimaður, fyrst og fremst var hann bóndi sem allt sitt átti undir sól og regni. Hann hugsaði um skepnur sínar með natni og dýrkaði sauðkindina eins og þau öll systkinin frá Eyhildarholti. Búskapur í Holti var mjög erfiður. Fyrst þegar ég man til var íbúðarhúsið og heimatúnið allt umflotið Héraðsvötnum, fjárhús voru á Austureynni og yfir kvísl að fara til heyskapar og til gegninga á vetrum. Ég minnist að sjá þá þrjá bræðurna hlaupa yfir Austurkvíslina með bát á milli sín þegar ís var svo þunnur að vafi lék á hvort hann héldi. Ég sá þá líka skríða yfir Austurkvíslina á glærum ísnum í ofsaroki. Þetta var slagur við náttúruöflin og oftast hrósað sigri en stundum þurfti þó að gista í fjárhúsum. Annar farartálmi var síðan Suðurkvíslin yfir á Borgareyju þar sem féð var á sauðburði. Enginn virtist nokkru sinni hræðast Héraðsvötnin.
Við slíkar aðstæður ólst þessi stóri systkinahópur upp en þau voru ellefu að tölu sem upp komust. Þegar þetta er skrifað er aðeins eitt eftir, Þorbjörg (Lilla) frá Syðstu-Grund sem hin síðari ár hringdi daglega í Árna bróður sinn til að frétta af honum en þá var Edda kona hans látin fyrir allnokkrum árum og hann orðinn einn. Ég sendi Lillu frænku minni sérstakar samúðarkveðjur.
Í Eyhildarholt var gott að koma enda dvaldi ég þar löngum stundum sem barn og unglingur. Gestrisni þeirra hjóna Adda og Eddu var viðbrugðið og háir sem lágir voru velkomnir í þeirra hús. Svo var um mig og mitt fólk. Ég og fjölskylda mín sendum börnum Adda og fjölskyldum þeirra einlægar samúðarkveðjur.

Sveinn Sveinsson.