Elísabet Sveinsdóttir fæddist á Borgarfirði eystra 29. júlí 1929. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Móbergi mánudaginn 17. júní.

Foreldrar hennar voru Guðný Pétursdóttir, f. 27. maí 1901, d. 18. ágúst 1999, og Sveinn Ólafsson, f. 8. mars 1900, d. 21. janúar 1993. Þau voru síðustu bændur á Snælandi í Kópavogi. Elísabet fluttist ásamt fjölskyldu sinni frá Borgarfirði eystra í Kópavog 1943. Bróðir Elísabetar var Pétur, f. 24. september 1936, d. 24. apríl 2023.

Eiginmaður Elísabetar var Skúli Ingvarsson, f. 5. september 1926, d. 22. júlí 1987. Börn þeirra eru: 1) Sigurður, maki Margrét Guðmundsdóttir og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn. 2) Sveinn, maki Steinunn Pétursdóttir og eiga þau þrjú börn, sjö barnabörn og eitt barnabarnabarn, Sveinn lést í desember 2020. 3) Skúli, maki Hrafnhildur Birna Guðbjartsdóttir og eiga þau þrjú börn og átta barnabörn.

Elísabet vann ýmis störf, s.s. bílfreyja í Hafnarfjarðarstrætó, við fiskvinnslu og ræstingar, verslunar- og skrifstofustörf. Síðustu starfsárin vann hún sem baðvörður í Snælandsskóla. Hún lét ætíð verkalýðsmál sig miklu varða.

Elísabet og Skúli festu kaup á Lindarbakka á Borgarfirði eystra 1979 og gerðu bæinn upp og dvöldu þar öll sumur á meðan heilsa leyfði.

Útför verður frá Kópavogskirkju í dag, 5. júlí 2024, klukkan 11.

Elsku amma, í dag stöndum við á tímamótum er við fylgjum þér síðasta spölinn í þessu lífi. Mér efst í huga í dag er þakklæti. Ég er þakklát fyrir að hafa verið langömmubarnið þitt, ég er þakklát fyrir að hafa átt þig að, ég er þakklát fyrir allar gistinæturnar í Vogatungu þar sem við spiluðum og lásum til skiptis, þakklát fyrir allar messurnar sem þú fórst með mig í fyrir fermingu, þakklát fyrir allt skutlið fram og til baka og svo er ég þakklát fyrir öll sumrin á Borgarfirði og allt hitt sem við brölluðum saman.

Það eru sannkölluð forréttindi að hafa upplifað svona margt með þér. Þegar ég heimsótti þig á Borgarfjörð í viku á hverju sumri sem barn vorum við alltaf með sömu dagskrá. Ég kom með hlaupahjól með mér svo ég kæmist auðveldlega í búðina, við fórum inn í dal þar sem þú sagðir mér söguna af Gilitrutt, við keyrðum út í höfn að skoða lunda og ég fór að veiða í sílapollinum og svo spiluðum við alveg óhemju mikið. Matseðillinn var alltaf sá sami; cocoa puffs í morgunmat og það var alltaf steiktur fiskur, lærisneiðar í raspi og einu sinni út að borða í félagsheimilið. Þú varst leikhúsfélagi minn, við elskuðum báðar leikhúsið og vorum duglegar að finna okkur skemmtilegar sýningar til að fara á saman, sýningin sem stendur alltaf upp úr var Íslandsklukkan í Þjóðleikhúsinu. Það fannst okkur flott sýning.

Ég held ég gleymi því aldrei þegar ég sat buguð heima, komin í menntaskóla og átti að lesa Njálu. Ég las fyrstu blaðsíðuna og skildi ekkert, hvað átti ég að gera? Þá hringdi ég í ömmu Stellu og spurði hvort hún hefði lesið Njálu. Að sjálfsögðu var svarið og þá spurði ég hana hvort hún væri til í að lesa hana aftur fyrir mig og útskýra söguna. Já, það er ekkert mál, komdu bara yfir var svarið. Ég gleymi því aldrei þegar ég lá á gólfinu hjá ömmu að lesa með henni Njálu og með henni reyndist Njála bara vera stórskemmtileg saga. Ég gef ömmu allan heiðurinn af hversu vel mér gekk í Njáluprófinu, ég hefði ekki getað það án hennar.

Amma Stella var kvenskörungur mikill sem lét engan yfir sig ganga og sagði það sem henni fannst og gerði það sem hún vildi. Hún var ein af mínum stærstu fyrirmyndum. Hún gekk í gegnum margt í lífinu en lét ekkert stoppa sig og er það hugarfar sem ég mun reyna eftir bestu getu að tileinka mér.
Núna þegar ég sit hér og rifja þetta upp kemur yfir mig gleði en líka söknuður. Ég og litla fjölskyldan mín munum sakna þín amma og ég hlakka til að segja Elísabetu, barnabarnabarnabarninu þínu (hvað eru mörg b í því?), frá þér en á sama tíma finnst mér óhugsandi að hún muni ekki upplifa það sama og ég. Þangað til við hittumst næst mun ég ylja mér við allar þær minningar sem ég á.

Minningar um hugann minn streyma

hvaða persónu amma hafði að geyma.

Yndisleg persóna sem var mér svo kær.

Elskuleg amma sem guð nú fær.

[...]

Einstök amma sem guð mér gaf.

Mikið var gott að eiga hana að.

Minningar um hana munu veita mér yl.

Ég er svo þakklát að hún var til.

(Katrín Ruth Þ.)

Við sjáumst seinna, amma.

Steinunn Elva og fjölskylda.

Elsku amma dreki.

Loksins fékkstu hvíldina þína. Það átti illa við þig að geta ekki gert það sem þú vildir undir það síðasta en þú hættir aldrei að reyna að stjórna okkur og hafðir þínar skoðanir á hreinu. Við viljum ekki gráta för þína yfir regnbogabrúna heldur viljum við fagna lífi þínu og því sem við gerðum með þér.

Það var alltaf hægt að koma til þín og fá kaffibolla og ræða alla hluti og við gátum alltaf treyst á að þú segðir okkur eins og var á hreinni íslensku. Stjórnmál voru eitthvað sem þú hafðir sterkar skoðanir á og fórst aldrei í grafgötur með hverjir voru þínir menn. Þegar Pétur bauð sig fram til borgarstjórnar fyrir Viðreisn þá varstu afskaplega stolt af honum en vonaðir líka að honum gengi illa því sá flokkur átti ekki upp á pallborðið hjá þér. Allaballar voru þínir menn og hægri vængurinn var bara til vandræða og það mátti aldrei vera vondur við fatlaða eða framsóknarmenn.

Lindarbakki átti hug þinn og hjarta og þangað fórstu öll sumur, fórst að vori og komst suður að hausti líkt og farfuglarnir. Þangað sóttum við systkinin í að komast til þín, bæði sem börn og einnig á fullorðinsaldri. Það var gott að koma í kofann og finna ylinn frá Solu gömlu og steikta fiskinn beint úr hafinu sem þú reiddir listilega fram með nógu af smjöri og kokteilsósu.

Ýmislegt var brallað á Borgarfirði og þú þreyttist aldrei á að fara með okkur í bíltúr á sandinn, inn í Höfn, út á bryggju að veiða, í fjöruna í Njarðvík eða inn í sveit þar sem þú sagðir okkur sögur af skessunni í Staðarfjalli og álfkonunni í hólnum. Það var aldrei nema gott veður á Borgarfirði þótt þokan lægi svo yfir öllu að ekki sást á milli húsa, hún kom bara til að hvíla okkur aðeins á sólinni.

Minningarnar eru margar og úr miklum sjóði að taka og við munum minnast þeirra með gleði í hjarta en það sem við munum sakna mest við för þína er stuðningur þinn og hjálpsemi í okkar garð. Þú varst alltaf fyrst til að rétta hjálparhönd og studdir við bakið á okkur eins og klettur en lést okkur jafnframt heyra það ef þér fannst við vera að gera einhverja vitleysu. Þú gekkst í þá hluti sem þurfti að gera og það átti ekki vel við þig að biðja um hjálp nema kannski helst til að laga torfið á Lindarbakka, það varð að gera eins og best varð á kosið, og iðulega sagðir þú við okkur að hlutirnir gerðust ekki af sjálfum sér. Þú vildir alltaf hafa okkur með í því sem þú varst að bardúsa, hvort sem það var heima við eða fara á viðburði, og þú varst stolt af því að hafa barnabörnin með þér og monta þig af okkur.

Við kveðjum þig með söknuð í hjarta og það verður skrýtið að hitta þig ekki oftar og rökræða heimsmálin. Afi og pabbi taka við núna og ætli þeir hristi bara ekki hausinn yfir þér og kinki bara kolli til að komast hjá frekari rökræðum. Við trúum því að nú sértu komin heim og þú eigir eftir að vaka yfir okkur og grípa inn í ef þér finnst þess þurfa með einhverjum ráðum.

Þín barnabörn,

Elísabet, Ragnhildur og Pétur Björgvin.

Árið 1943 sigldi amma okkar Guðný með strandferðaskipi frá Borgarfirði eystra til Reykjavíkur. Hún var með börnin sín tvö, Pétur föður okkar og Elísabetu (Stellu), sem þá var um fermingu. Sveinn afi var farinn á undan en þau höfðu fest sér býlið Snæland í Kópavogi. Stríð geisaði og einungis var hægt að sigla að degi til vegna hættu af tundurduflum.

Þetta ferðalag er að mörgu leyti táknrænt fyrir Stellu frænku, hún var að sigla frá Borgarfirði eystra sem hún hafði bundist sterkum böndum, sem hún hélt og styrkti út lífið. Og hún var að flytjast í Kópavog sem þá var hluti af Seltjarnarneshreppi. Kópavogur var þá aðallega samansafn sveitabæja og lítilla húsa fátæks fólks, með engan skóla, enga vatnsveitu, lélegar samgöngur en var að byrja að vaxa. Í þessum vexti tók Stella ríkan þátt og lét sig málin varða, lét í sér heyra og lét engan eiga neitt hjá sér. Hún hafði ríka réttlætiskennd og barðist fyrir þá sem áttu undir högg að sækja.
Á Snælandstorfunni byggðist upp skemmtilegt samfélag. Systkini ömmu voru öll búsett þar til lengri eða skemmri tíma, margir Borgfirðingar komu og dvöldu þar oft langtímum saman ef þeir voru að leita sér lækninga eða voru einhverra hluta vegna aðeins á skjön við normið. Upp við þetta alast systkinin Stella og Pétur og það mótaði þau.
Bæði reisa þau sér síðan heimili á Snælandi þegar þau koma sér upp fjölskyldum. Við systkinin urðum því þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp í daglegu samneyti við Stellu, Skúla manninn hennar og strákana þeirra. Eldhúsið hjá afa og ömmu var miðpunktur tilverunnar. Stella sá til að við tækjum þátt í viðburðum á vegum félags Borgfirðinga eystri í bænum og dró fólk á jólaböll og síðan var mikil upphefð þegar maður fékk að fara á þorrablótið eftir fermingu.

Stella var hrein og bein, sagði sinn hug og var fljót til svars. Lögreglumaður sem stoppaði hana fyrir of hraðan akstur þegar hún var á leið til sinnar árlegu sumarvistar í torfbænum sínum Lindarbakka fékk að reyna það. „Jæja gæskur,” segir hún, „en ertu með ellimannaafslátt?“
Stella var stolt af sínu fólki og bar velferð þess mjög fyrir brjósti. Þau hafa rækt hana vel og sjá nú á eftir skörungi og fyrirmynd sem kvaddi södd lífdaga.
Jæja gæskan, nú er þessu lokið, takk fyrir þinn fallega og mikilvæga þátt í okkar lífi.

Vilmar, Guðný, Guðrún og Þórunn.

Stella mágkona, eins og mamma kallaði hana alltaf, var gift Skúla Ingvarssyni bróður mömmu, úrvalsmanni sem lést langt um aldur fram. Þó afrekuðu þau Stella margt, en Lindarbakki á Borgarfirði eystri kemur þó strax upp í hugann og er m.a. tilefni þessarar greinar. Þau keyptu sér gamlan torfbæ og gerðu upp í upprunalegt horf – fyrirtaks sumarbústað. Jafnframt byggðu þau skemmu þar sem gömlu verkfærin hans afa urðu öll hluti af amboðasafni. Og þarna undu þau Skúli og Stella sér sumarlangt árum saman, og hún um margra ára skeið að honum látnum. Eitt sinn hitti ég þau í Hornafirði á leiðinni suður, og áttum við þar góða kvöldstund þar sem ánægja þeirra með lífið og Borgarfjörð eystra var smitandi skemmtileg. Sjálfur var ég í Hornafirði nokkur sumur á þeim tíma í námstengdu verkefni. Hvað um það, nokkrum árum síðar, og þá eftir Skúla dag, átti ég nokkrum sinnum leið í Borgarfjörð eystri, og heimsótti þá jafnan Stellu – hún alltaf jafn logandi kát og glettin. „Mjallhvít í glerkistunni” var í sérstöku uppáhaldi hjá mér og mínum – ásamt fleiru. Við vinnufélagar eða fjölskylda vorum þá ýmist í gullleit eða skemmtiferðum, og náttúrufegurðin ósvikin á þeim slóðum. Og ekki var nú barlómnum fyrir að fara hjá henni Stellu. Minnisstætt er þegar hún ók ein frá Borgarfirði eystri í 75 ára afmæli mömmu, sem óvænt var haldið í Austurgörðum í Kelduhverfi – og þá einungis til að gleðjast með mágkonu sinni og okkur í fjölskyldunni og syngja saman eina kvöldstund í byrjun ágúst. Og svo koma miklu eldri minningar upp í hugann – eins og t.d. „beljuboðin” á Nýbýlaveginum – árvisst tilhlökkunarefni þegar við systkinin vorum á barnsaldri og beljunum var hleypt út. Já það er margs að minnast og margra góðra stunda þegar okkar ágæta Stella „mágkona” er kvödd. Sómakona mikil og kvenskörungur.

Sonum Stellu, eiginkonum og barnabörnum vottum við samúð okkar systkinanna úr Holti í Hafnarfirði.

Guðmundur Ómar Friðleifsson.

Það var í þínum anda að velja sjálfan lýðveldisdaginn til að kveðja. Fann fyrir létti, í síðustu heimsókn minni austur fyrir fjall fannst mér undirbúningur brottfararinnar hafinn, landamærin færðust nær.
Stella á Snælandi, eða á Lindarbakka eins og þú varst kölluð eystra, hefur verið stór þáttur í mínu lífi. Ég kom barnungur á Snæland og fékk að vera hjá fjölskyldunni á leið minni í sveitina vestur á Sand, síðar þegar ég kom úr sveitinni frá firðinum fagra. Skemmtilegt að ég skyldi dvelja í Geitavík, en þar hófst lífshlaup þitt. Þið mamma voruð æskuvinkonur og féll aldrei skuggi á þann vinskap.
Mér leið alltaf eins og einum af fjölskyldunni. Og margar voru heimsóknirnar til Guðnýjar ömmu og Sveins afa eins og allir kölluðu þau. Að vera á Snælandi var að vera heima. Seinna dvaldist ég vetrarlangt þar þegar ég var við nám. En dvölin varð afdrifarík, þarna kynnist ég glæsilegri stúlku í næsta húsi, er seinna varð eiginkona mín sem var gæfuspor. Eina sem átti það til að ergja mig var páfagaukskvikindið sem deildi herbergi með mér, spurning hvor okkar gargaði hærra. Seinna skaut fjölskyldan skjólshúsi yfir foreldra mína þegar goshörmungarnar í Eyjum dundu yfir. Var þá oft glatt á hjalla hjá ykkur vinunum.
Enn seinna. Ógleymanlegar stundir þegar við ásamt Gesti Árnasyni settum saman myndbrot Árna Stefánssonar af lífinu eystra, myndbandsspóla sem þú seldir Borgfirðingum til styrktar félaginu syðra. Sagt var að sumir hefðu ekki komist hjá að kaupa færri en tvö eintök.
Þið hjónin keyptuð eitt árið Lindarbakka á Borgarfirði eystri, torfbæinn, sem þið gerðuð upp af mikilli elju og nostursemi, sem varð síðan sumardvalarstaður ykkar. Eftir að Skúli hvarf á braut hélst þú ótrauð áfram og dvaldir þar sumarlangt meðan heilsan leyfði. Mikill gestagangur var þar alla tíð, erlendir sem innlendir ferðamenn fengu að gægjast inn og forsetar landsins létu ekki sitt eftir liggja að kíkja í kaffi og spjall. Húsið þitt var vinsælasta myndefni ferðalanga.
Þú varst með afbrigðum fróð og minnug um staðhætti og lífsbaráttu þorpsbúa. Ég gisti eitt sinn á Lindarbakka og gat ekki orða bundist morguninn eftir er við sátum yfir kaffibollunum; að hitinn hefði mig lifandi ætlað að drepa ... ég efaðist um að það væri heitara í helv..., já, ég sá að þú hafðir rifið upp alla glugga svaraðir þú og fékkst þér lýsi.
Lést þig ekki muna um að taka þátt í uppsetningu á Gilligogg í Fjarðarborg, sem ég leikstýrði eftir handriti Ásgríms Inga Arngrímssonar og fjallaði um Kjarval, sem ólst upp í Geitavík eins og þú og ég seinna í sveit. Já þér var fátt ómögulegt og lést þig ekki muna um að sækja þorrablótin fyrir austan lengi vel.
Þú lést aldrei deigan síga, fylgdist vel með þjóðmálum, varst sönn í þinni pólitík, hafðir skoðanir á öllum fjandanum, áhugamál mörg og margvísleg, alltaf lífleg og lifandi og kunnir að láta hverjum degi nægja sína þjáningu eins og best kom í ljós þegar þú misstir Svein son þinn.
Það varð sjónarsviptir þegar þú hvarfst af braut frá Lindarbakka, sem þið gáfuð sveitarfélaginu. Þar er nú minjasafn, sem geymir óteljandi sögur og minningar.
Þakka þér samveruna fóstra mín, fróðleikinn, umhyggjuna, bækurnar og steinana úr fjörum Borgarfjarðar sem þú gaukaðir að mér. Þú varst engri lík, framtakssöm, úrræðagóð kjarnorkukona, sem sífellt hvattir mig og studdir. Minningin um þig kristallast í línum Stephans G. Stephanssonar:

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.

Vinur aftansólar sértu,

sonur morgunroðans vertu.

Andrés Sigurvinsson.

Sem barn var ég stoltur af Stellu frænku á Snælandi. Það dró ekki úr að hún var bílfreyja í Hafnarfjarðarstrætó. Það er sterkt í barnsminni mínu hvað hún var flott, þegar ég sá hana í strætó á leið minni á sundnámskeið í Hafnarfirði.

Á Snælandi í Kópavogi bjuggu Borgfirðingar, þar á meðal foreldrar Stellu, Sveinn og Guðný á Snælandi. Á mínu æskuheimili var hún alltaf kölluð Stella á Snælandi. Eftir að þau Skúli, maður hennar, keyptu og gerðu upp gamlan torfbæ á Borgarfirði eystra var hún kölluð Stella á Lindarbakka. Löngu seinna komst ég að því að hún var í barnæsku kölluð Stella í Geitavík, kennd við fæðingarbæ sinn í Borgarfirði eystra. Í Geitavík voru Vestur-Skaftfellingarnir Sveinn faðir hennar og listmálarinn Kjarval teknir í fóstur, hjá Þórunni frænku þeirra, sem þangað fluttu úr Vestur-Skaftafellssýslu.

Við Stella vorum skyld í báðar ættir. Pabbi og hún voru þremenningar. Þau voru að langfeðratali úr Borgarfirði eystra, en mamma og hún voru fjórmenningar úr Vestur-Skaftafellssýslu. Miklu þyngra en skyldleikinn vega þó náin tengsl og mikil vinátta í marga ættliði á milli fjölskyldna okkar Stellu, Stellu í Geitavík, Stellu á Snælandi, Stellu á Lindarbakka.

Ég leyfi mér að vitna í minningargrein föður míns, Árna Halldórssonar lögfræðings, um Skúla eiginmann Stellu. Hann segir þar: „Þeir sem koma til Bakkagerðis í Borgarfirði eystra komast ekki hjá því að taka eftir gömlum torfbæ neðan við Svínalækinn, einasta eintakið austanlands af húsi tómthúsmanns frá öndverðri þessari öld, byggt úr torfi, grjóti og timbri 1912 og ber sitt upprunalega nafn, Lindarbakki … [Stella] á það sameiginlegt með flestum sem þar hafa slitið barnsskónum að bíða þess aldrei bætur. Þótt flúið sé á heimsenda slitnar ógjarnan einhver taug sem togar mann og teygir þangað aftur. Stella teygði Skúla sinn inn í borgfirskt samfélag og áður en nokkur vissi var hann orðinn einn af oss. 1979 keyptu þau tómthúsið Lindarbakka, löguðu það sem lúið var og færðu húsið til eldra horfs. Er Lindarbakki nú að mínu mati ein merkasta bygging austanlands og mun lengi vitna um handbragð Skúla. Verður þeim Skúla og Stellu seint fullþökkuð björgun Lindarbakka. Hvert sumar hafa þau dvalið þar og hefur margur haft ánægju af að líta þar inn. Innanhúss er ekkert prjál, þar ríkir einfaldleiki hins liðna án keims af mannlausu varðveisluhúsi.” (Tilvitnun lýkur.)

Síðustu orð Skúla við móður mína voru: „Jæja, Gína mín, nú kem ég ekki aftur á Lindarbakka.” Ég geri þessi orð að mínum og segi: Jæja Stella mín, nú kemur þú ekki aftur á Lindarbakka. En andi ykkar Skúla mun áfram svífa þar yfir grasinu græna á þaki Lindarbakka. Líkt og segir í ljóðinu „Grasið mitt græna” eftir Þorstein Valdimarsson:

Grasið mitt græna,

gott er að vera til

og finna þig hjúfra

hlýtt sér við il.

Mjúkt muntu strjúka

mér yfir höfuð brátt,

sofnum frá öllu' í sátt,

grasið mitt mjúka.

Halldór Árnason.

Í dag kveðjum við Elísabetu Sveinsdóttur sem fæddist á Borgarfirði eystra. Hún ólst þar upp til 14 ára aldurs en þá fluttist hún „suður” eins og sagt var ásamt foreldrum sínum og bróður. Fjölskyldan settist að á Snælandi í Kópavogi og var Stella, eins og hún var ávallt kölluð, kennd við þann stað. Þegar fram liðu stundir fór Stella að taka virkan þátt í uppbyggingu samfélagsins í Kópavogi og lét verulega til sín taka enda mikil atorkukona.
Á þeim tíma þegar landsbyggðarfólkinu fjölgaði í þéttbýlinu voru stofnuð átthagafélög með það að markmiði að halda tengslum við heimabyggðina og hafa gaman saman. Einnig var unnið að ýmsum verkefnum til styrktar heimabyggðinni. Félag Borgfirðinga eystra í Reykjavík var stofnað 1949 og er eitt elsta átthagafélag landsins. Stella tók ung þátt í stjórn félagsins og má segja að hún hafi verið potturinn og pannan í starfsemi þess og bar hag þess fyrir brjósti alla tíð. Það var mikil starfsemi í félaginu, má þar nefna þorrablótin, sem voru hápunktur vetrarins, barnaböllin, ferðalögin, spilakvöldin og tombólurnar. Það var gaman að heyra Stellu segja frá þeim gömlu góðu dögum. Á síðustu árum hafa verið haldnir kaffidagar fyrir eldri borgara frá Borgarfirði einu sinni á ári og hafa þeir verið vel sóttir. Stella dreif þetta allt áfram af miklum dugnaði og er það fyrst og fremst henni að þakka, að öðrum ólöstuðum, hve lengi félagið hefur haldið úti starfsemi sinni og hjálpað okkur brottfluttum að halda tengslum við frændur og vini.
Stella var mikill Borgfirðingur og eignuðust hún og Skúli maðurinn hennar Lindarbakka og gerðu hann upp af miklum myndugleik. Þangað kom hún eins og krían á vorin að eigin sögn og dvaldi sumarlangt. Hún tók mikinn þátt í samfélaginu fyrir austan, alltaf kát og hress. Þegar Stella varð níræð arfleiddi hún Borgfirðinga að húsinu með öllum gömlu mununum og er þar nú minjasafn.
Við erum Stellu mjög þakklát fyrir allt sem hún gerði fyrir Borgfirðinga heima og heiman.

Nú verður fjör í sumarlandinu fyrst Stella er komin.
Við vottum fjölskyldu Stellu okkar dýpstu samúð.
Kær kveðja.

Fyrir hönd Félags Borgfirðinga eystra í Reykjavík,

Guðrún Björnsdóttir.