María Jóhanna Lárusdóttir fæddist 14. október 1946. Hún lést 20. júní 2024.

Útförin hennar fór fram 3. júlí 2024.

Hérna megin móðunnar miklu er komið að endanlegri kveðjustund og eftir u.þ.b. sextíu ára nána samfylgd blasir mynd þín við úr hafi minninganna, björt, hlý og rismikil. Þú naust ómælds ástríkis og aðdáunar í æsku, þó að öryggi föðurhúsanna hafi á vissan hátt brugðist þér; en þú varðst aufúsugestur hjá ömmu Jóhönnu, Fríðu föðursystur, ömmu Maríu og Ernu móðursystur, sem allar dýrkuðu þig. Samveru þeirra naust þú til hins ýtrasta, enda gömul sál, og kunnir alltaf vel að meta samræður við þér eldra og lífsreyndara fólk. Þú varst farsæl kona og byggðir líf þitt á gömlum og góðum gildum, með sjarma og léttu bóhemísku innslagi og tókst hinum ýmsu áskorunum tilverunnar lausnamiðuð, óvílin og yfirveguð.
Á menntaskólaárunum á Akureyri eignaðist þú ævilanga vini, eins konar útvíkkun á fjölskyldunni, eins og þú sagðir stundum; en sjálf varst þú fágætt tryggðatröll og víst er að enginn var einn sem átti þig að vini ef á móti blés; þar mættir þú með þína ríku réttlætiskennd og samkennd og tókst til þinna ráða!
Þú eignaðist góðan eiginmann, hann Ólaf þinn, og góða tengdafjölskyldu, sem studdu þig með aðdáunarverðum hætti allt þar til yfir lauk á þungbæru lokastigi tilveru þinnar. Þú laukst námi með sóma mitt í bústangi og barneignum og gerðist farsæll íslenskukennari. Heimili ykkar Ólafs var allt í senn fágætlega persónulegt, hlýlegt og fallegt. Þar áttu margir glaðar og ógleymanlegar stundir, enda vel tekið á móti vinum og vandamönnum. Synirnir þrír, Lárus, Ragnar og Ólafur, nú státnir menn og hæfileikaríkir, hver á sinn hátt, eiga það allir sameiginlegt að vera einstakir ljúflingar; og barnabörnin sex, Freyr, Flóki, Rebekka og Viktoría, Dýri og Mía, sannir yndisaukar. Þú ferðaðist vítt og breitt um veröldina og landið okkar og naust lífsins á ótal vegu þar til heilsubrestur tók að hrjá þig. Þeim breyttu aðstæðum er blöstu við vegna alvarlegrar skerðingar á hreyfigetu tókst þú af æðruleysi, naust prýðilegrar umönnunar á hjúkrunarheimilinu Mörk, þar sem þú tókst á móti manni hverju sinni með hlýja og kankvísa brosinu þínu. Eftir að á Mörkina var komið hélst þú jafnvel áfram að njóta ótrúlegustu hluta, s.s. veitingahúsa, leikhúsferða og tónleika, nánast fram á síðasta dag, þökk sé jákvæðni þinni svo og einstakri natni og hugkvæmni eiginmanns þíns og annarra nákominna.
Um leið og ég þakka af alhug fyrir samfylgdina bið ég þér og öllum þínum blessunar í bráð og lengd.

Ragna Sigrún Sveinsdóttir.