Þorsteinn Tandri Helgason múrarameistari fæddist í Reykjavík 8. júlí 1979. Hann varð bráðkvaddur 15. júní 2024.

Foreldrar hans voru Helgi Þorsteinsson rennismiður, f. 1946, d. 2020, og Kristín Magnadóttir bókari, f. 1953. Systkini Tandra eru þrjú: Ása, f. 1969, búsett í Noregi. Börn hennar eru Atli Þór, Íris Arna og Kristín Ósk; Vigdís, f. 1972, búsett á Ítalíu, maki hennar Roberto Travagini, f. 1970, og börn þeirra Gabríel Ísarr og Luna Björk; Ólafur Sindri hagfræðingur, f. 1981, maki hans Fríða Sigríður Jóhannsdóttir, f. 1982, verkfræðingur, og synir þeirra Jóhann Helgi og Sigurjón Magni.

Tandri kvæntist Björk Viðarsdóttur, lögfræðingi og framkvæmdastjóra, f. 1978, þann 28. ágúst 2004. Börn þeirra eru Arnar Freyr háskólanemi, f. 2. júlí 2004, Sara María, f. 21. maí 2007, og Sandra Kristín, f. 21. maí 2007, báðar verzlunarskólanemar. Þau skildu árið 2019 en voru ætíð góðir vinir.

Tandri ólst upp í Breiðholtinu og Vesturbæ Reykjavíkur og gekk lengst af í Hólabrekkuskóla. Á sumrin dvaldi hann ásamt bróður sínum, Sindra, í Svíþjóð hjá föður þeirra og konu hans Birgittu. Þar var gjarnan farið í útilegur, veiðiferðir og önnur ferðalög. Á unglingsárunum stundaði Tandri hjólabretti af miklum krafti og var þekktur fyrir það. Þá iðju átti hann svo eftir að taka aftur upp síðar á fullorðinsárum og rifja upp gamla takta með syni sínum Arnari Frey. Tónlistin skipaði ávallt stóran sess í lífi Tandra og var eitt hans helsta áhugamál. Hann var alæta á tónlist og spilaði á bæði gítar og bassa og samdi mikið af raftónlist, oft í samstarfi við Kidda vin sinn.

Tandri gekk í Tækniskólann í Reykjavík og lauk þaðan sveinsprófi og síðar meistaraprófi í múraraiðn árið 2017. Hann stofnaði fyrirtækið Múrfell ehf. árið 2007 ásamt vini sínum Þorsteini Mar Sigurvinssyni og störfuðu þeir saman alla tíð síðan við góðan orðstír.

Útför Tandra fer fram frá Lindakirkju í dag, 5. júlí 2024, kl. 13. Streymt verður frá útförinni á https://www.lindakirkja.is/utfarir

Elsku pabbi. Hvar á maður að byrja. Það er svo margt til að taka saman. Þú varst ekki eins og þeir voru flestir. Þú varst svo miklu meira en bara pabbi. Við vorum eins og bestu vinir. Við gerðum allt saman á tímabili. Þetta byrjaði eiginlega allt 2012 þegar ég er 8 ára og þú 34 ára, þegar við byrjum að „skate”-a saman, svona eins og flestir feðgar gera á þessum aldri. Þrátt fyrir 26 ára aldursmun varð til vinátta sem var engu lík. Það var farið út á hjólabretti nánast daglega eftir það. Brunað á rauða vinnubílnum á næsta spot, park eða í bílageymslu. Þetta hélt svo bara svona áfram. Á eftir hjólabrettinu kom snjóbrettið og á eftir snjóbrettinu kom golfið. Auðvitað voru oft einhverjir aðrir með í för en oftar en ekki vorum þetta bara við tveir feðgarnir. Það var líka skemmtilegast þannig. Meðan flestir fóru að leika með vinum sínum þá var ég að bíða eftir að þú værir búinn að vinna svo við tveir gætum farið að leika okkur. Þetta var líka aldrei gert af hálfum hug, þegar þú varst með áhuga á einhverju þá var farið alla leið. Ég græddi heldur betur á því, maður var alltaf með toppgræjur í öllu sem við gerðum saman. Þetta „all in”-hugarfar skilaði sér líka í eldamennskunni. Þegar þú eldaðir þá var veisla. Það skipti ekki máli hvort þetta var venjulegur mánudagur eða jólin, það var alltaf tilefni til þess að hafa eitthvað gott í matinn. Ég komst seinna að því að aðrar fjölskyldur eru ekki alltaf með lambalæri og humar í öll mál í útilegum eins og við vorum alltaf með og mér fannst alveg hið eðlilegasta. Það var líka alltaf með svo miklum hamförum. Það var alltaf allt í rúst eftir að þú varst búinn að elda, þú hafðir brennt þig tvisvar, sósa í loftinu og þú varst næstum búinn að skera af þér puttann. Þetta var samt allt þess virði því djöfull var þetta alltaf góður matur.
Þegar ég horfi til baka sé ég hvað ég var ótrúlega heppinn. Þótt þínar leiðir hafi ekki beint verið hefðbundnar þá voru þær samt svo góðar. Ég efast um að aðrir pabbar hafi verið að segja börnunum sínum að það væri hættulegra að vera með hjálm á hjóli heldur en ekki eða kaupa orkudrykk fyrir 11 ára son sinn eftir langt „skate session”. Í enda dags lærði maður svo ótrúlega mikið af þér og þá aðallega að taka lífinu ekki of alvarlega heldur að njóta hvers dags. Það gerðir þú svo sannarlega. Ef þig langaði að gera eitthvað þá gerðir þú það og alveg slétt sama hvað öðrum fannst. Þetta hugafar er eitthvað sem hefur og mun fylgja mér svo lengi sem ég verð hér.
Elsku pabbi, þú kenndir mér heilan helling en ekki kann ég leiðina í gegnum þetta. Ég er ekki tilbúinn að kveðja þig. Ég mun sakna þess ógurlega að sjá þig taka á móti manni í náttbuxunum, gyrtum upp að brjóstkassa, með hárið úti um allt en samt alltaf með risafaðminn og breiða brosið. Eins og þú sagðir alltaf ef það er of gott til þess að vera satt, þá er það ekki satt. Kannski varst þú bara aðeins of góður. Ég mun alltaf vera montinn af því að hafa fengið þig sem pabba minn. Ég elska þig pabbi og mun alltaf gera.
Þinn sonur og vinur

Arnar.

Elsku pabbi minn. Orð geta ekki lýst hversu heppin ég er að hafa átt þig sem pabba. Þú varst ekki þessi týpíski pabbi, þú varst eins og besti vinur. Ég man aldrei eftir að þú hafir verið að skamma mig eða banna mér að gera eitthvað heldur varstu alltaf að hvetja okkur systkinin til að fara og gera hitt og þetta, sama hvort það mátti eða ekki. Þú hefur kennt mér svo margt í lífinu, eins og að mynda alltaf mína eigin skoðun og að vera sama hvað öðrum finnst. Ég mun aldrei gleyma öllum þessum rökræðum sem við áttum þótt við værum yfirleitt alltaf með mjög mismunandi skoðanir á hlutunum og svo líka allar þessar furðulegu staðreyndir sem þú sagðir okkur við matarborðið. Þú varst alltaf einn af mínum helstu stuðningsmönnum, sama hvort það tengdist íþróttum, skólanum, að ná bílprófinu eða bara í hverju sem var. Þú varst alltaf þarna til að styðja mig og segja hversu stoltur þú værir.

Allt sem við höfum gert saman fjölskyldan þykir mér svo dýrmætt. Allar útilegurnar þar sem ég vaknaði við eggjabrauð og beikon og útlandaferðirnar til Flórída voru það skemmtilegasta í heimi. Bláfjallaferðirnar eru uppáhaldsminningarnar mínar. Sama hversu mikið stress var að koma okkur öllum í föt og búa til nesti þá var alltaf jafn mikið fjör í fjallinu. Ég man alltaf eftir að hugsa hvað mér fannst ég vera með nettasta pabba í heimi. Þú varst svo góður á snjóbretti og alltaf að kenna okkur alls konar. Öll kósíkvöldin í Vallakór þar sem við vorum búin að fara saman fjölskyldan í Elko og velja einhverja mynd til þess að horfa á. Svo þegar kom að því að horfa á myndina þá byrjaðir þú alltaf á að stilla allt hljóðið og það var eins og maður væri mættur í alvörubíósal.

Hvert sem maður fór með þér varð það að svakalegu ævintýri. Eins og þegar við fórum til Ítalíu og Króatíu síðasta sumar, það var sko ferðalag. Ekki nóg með að við færum í ellefu klukkutíma rútuferð frá Ítalíu til Króatíu út af veseni á bílaleigubíl heldur mættum við klukkan fimm um nóttina og þurftum að liggja á steinaströnd í marga klukkutíma þar til við komumst í íbúðina. Þú náðir samt einhvern veginn á endanum alltaf að redda öllu, sama hvað vesenið var. Ég hef líka aldrei hitt fullorðinn mann sem var jafn mikill aðdáandi Hawaiian tropic og þú. Það eru ekki margir sem tengja við það að pabbi manns sé alltaf að mæla með tan-olíum fyrir næstu útlandaferð á meðan mamma sagði manni að vera alltaf með 50+ sólarvörn!

Frá því að ég man eftir mér varst þú alltaf að grúska og græja eitthvað. Eins og allt tengt tónlistinni, þú varst svo fáránlega góður í því öllu saman og allt sem þú hafðir áhuga á, þú masteraðir þetta allt. Það var svo yndislegt að hlusta á þig spila, maður sá hvað þú elskaðir það mikið og það geislaði svo af þér gleðin og hamingjan. Allan minn áhuga á tónlist hef ég fengið frá þér og ég var svo spennt fyrir því að þú ætlaðir að fara að kenna mér alls konar en nú læri ég allt þetta fyrir þig.

Elsku pabbi takk fyrir allt. Þú og þitt bros fylgir mér að eilífu.

Elska þig.

Sara.

Elsku pabbi. Ég fer alltaf að hugsa um bílferðina þar sem við vorum bara tvö í rauða vinnubílnum þínum þegar við vorum á leiðinni heim frá útilegu. Í þessari bílferð sungum við alla leiðina og þá meina ég alla leiðina. Eitt lag kom í útvarpið og varð að okkar lagi; „I need a dollar”. Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég söng með þér þetta lag en ég man hvað það gerði mig glaða. Eitt það skemmtilegasta sem ég gerði með þér var að syngja með þér, þó að textinn hjá þér væri alltaf vitlaus, enda var hann líka mjög vitlaus hjá mér. Þannig sungum við bara saman einhvern allt annan texta. Mér fannst líka alltaf svo gaman að fylgjast með þér í stúdíóinu þínu að vera að búa til tónlist, spila á bassann, píanóið og á öll þessi hljóðfæri. Þú bókstaflega gast allt sem þú hafðir áhuga á. Þú varst líka mjög sterkur dansari, með skrautlegar danshreyfingar sem enginn gat gert nema þú. Það varð alltaf að vera í náttbuxum og með þær vel yfir mittið, það var stíllinn þinn.

Það var svo gaman að sjá þig elda því það var svo mikil ást í matnum sem þú gerðir handa okkur og hann var alltaf fáránlega góður. Maður hélt að allt væri að brenna og að þú værir búinn að missa einn putta eða eitthvað miðað við allt sem gekk á í eldhúsinu en það endaði alltaf á að vera besti matur sem ég hef smakkað.

Þú komst mér oft svo mikið á óvart, hvort sem það var eitthvert nýtt áhugamál sem þú varst kominn alveg djúpt inn í eða ný uppáhaldssöngkona sem maður hefði aldrei giskað á að þú myndir dýrka.

Einu sinni varstu búinn að fara í þrjár mismunandi sundlaugar á einum degi.

Ég elskaði að heyra af þessu öllu sem þú varst að bralla og græja. Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú hefur kennt mér, eins og að vera ekki að stressa mig yfir litlum hlutum eða að kenna mér að geta reddað mér sjálf. Líka að vera með mínar eigin skoðanir og að þora að koma þeim á framfæri. Þú hafðir líka alltaf svo mikla trú á manni, sem mér fannst gera svo mikið fyrir mig, og þú náðir alltaf að peppa mig.

Elsku pabbi, takk fyrir að gefa mér bestu knús í heimi, þau létu mér alltaf líða betur. Það var eins og maður þyrfti stundum bara eitt gott pabbaknús og þá liði manni betur. Takk fyrir að láta mig hlæja svo ótrúlega mikið. Það skipti ekki máli hvað þú varst að gera, það var bara allt fyndið sem þú gerðir. Takk fyrir að vera besti pabbi í heimi, að laga eitthvað sem ég skemmdi, að búa eitthvað til sem mig langaði svo mikið í, að dansa og syngja með mér, að halda á mér upp stigann þegar ég var að þykjast vera sofandi, þótt þú vissir líklegast að ég hafi ekki verið alveg sofandi því þú vissir öll trixin mín þegar ég var yngri. Takk fyrir allt elsku pabbi minn. Ég mun sakna þess að syngja með þér í bílnum og að fara með þér í ferðalög, ég mun sakna þess að hlæja með þér, ég mun sakna þess að fá pabbaknús, ég mun sakna þín. Ég elska þig pabbi.

Þín

Sandra.

Elsku bróðir minn, mér er gjörsamlega orða vant. Ég var rétt nýmættur til Bordeaux og varla kominn með „grand cru” í glasið þegar ég fékk fréttirnar. Það átti að viðra vel til víntúra þennan dag en þvert á móti hafði verið gráskýjað þar til það fór svo að hellirigna, svona eins og veðurvættirnar væru að koma skilaboðunum áleiðis. Það er engin leið að lýsa þeim tilfinningum sem bærast innra með mér þessa dagana eftir að þú kvaddir þennan heim svona snögglega. Ósanngjarnt væri nærri lagi og reiði. Ég er reiður og mér finnst þetta ósanngjarnt hjá þeim sem togar í spottana og snýr gangverki heimsins, hver svo sem það er. Þú fórst einfaldlega alltof snemma.
Það var svo margt sem við áttum ógert saman. Öll lögin sem við vorum byrjaðir að æfa í bílskúrnum og öll hin sem voru komin á listann sem okkur langaði svo að taka næst! Þú varst með sérstaka gáfu Tandri, svo gríðarlega hæfileikaríkur að það var sama hvað það var sem þú tókst þér fyrir hendur, þú varst búinn að „mastera” það á „no time”. Maður þurfti að hafa sig allan við til að dragast ekki aftur úr.
Bræðratíminn, eins og þú kallaðir þetta oft, hefði alveg mátt vera meiri. Að æfa og spila saman músík í bílskúrnum var auðvitað líka bara oft afsökun til að hittast og eiga góða stund í friði og tala um lífið og tilveruna. Oftar en ekki rifjuðum við upp gamla tíma og hlógum að fortíðinni, þeirri tragíkómedíu sem hún gat verið. Þannig er líka kannski best að líta á hlutina.
Þú varst stóri bróðir minn og ég leit ávallt upp til þín. Ég var stoltur af þér og þú varst stoltur af mér. Þú stóðst þig svo vel og varst svo svakalega stoltur af börnunum þínum sem þú lifðir fyrir og það með réttu. Þú kenndir mér svo margt út allt lífið og alveg fram að hinsta degi. Ég og allir í kringum þig fundum hvað þér leið vel. Allt var svo bjart fram undan og þú hafðir svo mörg plön um framtíðina að þú geislaðir af gleði og hamingju og smitaðir alla af þínu fræga brosi og hlýju. Það var eins og þú hefðir fundið, eða í það minnsta verið langt á veg kominn, að finna hinn hinsta sannleik um hvernig á að lifa hamingjuríku lífi. Tandri minn, ég mun halda áfram að fylgja þínum ráðleggingum og hætta þessu stressi og elta draumana.
Þinn bróðir,

Sindri.

Árið 1979, sem af Sameinuðu þjóðunum var kallað „Ár barnsins”, fékk ég stærstu afmælisgjöf lífs míns. Litla bróður mínum, sem fæðast átti í lok ágúst það ár, lá lifandis ósköp á að koma í heiminn og fæddist hann hátt í tveimur mánuðum fyrir tilsettan tíma, aðeins fjórum dögum eftir afmælisdaginn minn. Ég fékk líka fyrsta og eina hjólabretti lífs míns í afmælisgjöf sama ár, sem í ljósi sögunnar var ansi skemmtileg tilviljun. Bróðirinn, sem var svo sannarlega lítill í víðasta skilningi þess orðs, þurfti að vera í hitakassa á lokaðri deild í nokkrar vikur, og biðin eftir honum heim var löng og erfið fyrir stórar og spenntar systur. Loksins kom hann heim og þegar ég fékk þetta agnarsmáa undur í fangið í fyrsta sinn kviknaði í mínu sjö ára gamla hjarta skilyrðislaus ást, stolt og ábyrgðartilfinning. Með komu hans fékk ég nýtt hlutverk og nýjan titil, sem í mínum huga jafnaðist á við konungstign. Ég var orðin stóra systir. Við vorum krabbarnir og miðjubörnin og áttum innilegt og fallegt samband alla tíð. Brátt bættist Sindri við og lokaði hringnum í okkar dásamlega systkinahópi. Það var aldrei lognmolla á heimilinu.
Tandri var afar forvitinn sem barn. Hann vildi vita hvernig hlutir voru settir saman og hvernig þeir litu út að innan. Eitt frægasta dæmið um þetta var Kýlikux, uppblásinn kall sem reis alltaf upp aftur þegar hann var kýldur niður. Fyrst um sinn var þetta skemmtilegur leikur, en fljótt færðist athyglin að þungri kúlu á botninum á Kuxa. Það hlaut eitthvað dularfullt og stórfenglegt að leynast í kúlunni. Á endanum varð forvitnin öllu yfirsterkari og stórt gat klippt á botninn. Út rann sauðómerkilegur svartur sandur, ekkert dularfullt og ekkert spennandi. Gríðarleg vonbrigði. Og Kýlikux var ónýtur í þokkabót. Dótið mitt varð reglulega fyrir barðinu á forvitni Tandra, en mér var lífsins ómögulegt að vera reið út í hann nema kannski í 2-3 mínútur í senn. Til þess var hann allt of mikið krútt með allt of mjúkar kinnar. Hann gerði líka margt fyrir stóru systur sína í nafni kærleikans, eins og að hringja vandræðaleg símtöl á útvarpsstöðvar til að biðja um óskalög (dramatíska ástarsöngva), gefa síðasta bitann af hamborgaranum sem hann hefði gjarnan viljað borða sjálfur og taka upp Santa Barbara-þætti á VHS í Svíþjóð eftir að sýningum var hætt á Íslandi.
Ég sótti bræður mína oft í leikskólann Fálkaborg, þar sem þeir gengu undir nöfnunum Splundri og Klandri. Á þessum dögum fæddist ein af mínum uppáhaldsminningum. Við þurftum að labba upp Breiðholtsbrekkuna á leiðinni heim og strákarnir voru þreyttir eftir langan dag í leikskólanum. Ég tók þá á sinn handlegginn hvorn og rogaðist með þá upp brekkuna. Hrein hamingja. Ég gæfi mikið í dag fyrir eina slíka ferð.

Elsku hjartans bróðir minn, sem flýtti sér í heiminn og kvaddi hann að sama skapi allt of snemma. Einhvers staðar einhvern tímann aftur munu leiðir okkar liggja saman á ný. Takk fyrir sólskinið. Ég elska þig og sakna þín sárt.

Þín stóra systir,

Vigdís.

Elsku Tandri. Elsku litli bróðir minn. Hvað við vorum spenntar, ég og Vidda, þegar þú komst í heiminn. Við vorum himinlifandi yfir að vera búnar að eignast lítinn bróður, dáðumst að agnarlitlum fingrum og tám, og vorum ákafar í að gefa pela og skipta um bleyjur. Svo var fallega brosið þitt alveg ómótstæðilegt.
Þú stækkaðir og varðst mikill brallari, hafðir einstakt lag á að skrúfa í sundur hin ýmsu tæki. Stundum heyrðist hljóð úr horni: „Mamma, þú þarft ekki að koma, ég er ekki að gera neitt.” Þá var um að gera að hraða sér og gá að hvað þú varst að bauka.
Þér var svo margt til lista lagt: tónsmíðar, ljósmyndun og kokkakúnstir meðal annars. Þú varst þúsundþjalasmiður sem alltaf varst tilbúinn að rétta öðrum hjálparhönd, með bros á vör. Handlagni og sköpunargleði kom sér vel þegar þú stofnaðir múrarafyrirtæki með Þorsteini vini þínum og þið gátuð ykkur gott orð með vandvirkni og góðu viðmóti.
Þú áttir þungt tímabil um stund en tókst að vinna bug á því og finna gleðina á ný, og það snerti mig djúpt síðustu skiptin sem við hittumst og töluðum saman í síma, hvað þú varst glaðlyndur og fullur af kærleik, sem þú hikaðir ekki við að tjá. Mér hlýnaði líka um hjartað að sjá hvað þú varst mikill fyrirmyndarpabbi, svo stoltur af börnunum þínum, enda gullmolar öll þrjú.
Ég á erfitt með að átta mig á því að þú sért farinn, átti svo margt eftir að spjalla við þig, en við tökum upp þráðinn þegar sá tími kemur.
Fallega brosið og þitt góða hjartalag mun ég ávallt geyma með mér. Ljósið þitt mun skína áfram í hjörtum okkar sem þekktum þig og stóðum þér nærri.
Ég elska þig bróðir minn.

Þín systir,

Ása.

Við kynntumst 1997 í Kaupmannahöfn og fórum samferða í gegnum lífið næstu 22 árin. Hlýlegar minningar flæða um hugann en þær sem standa öllu öðru ofar snúast um samverustundir með yndislegu börnunum okkar. Við eignuðumst Arnar árið 2004 og þegar Sara og Sandra fæddust í maí 2007 man ég svo vel þegar þú sagðir að við værum orðin undirmönnuð. Það eru fleiri börn en fullorðnir hérna. Allar útilegurnar og ferðir í sumarbústað. Ekkert eðlilega mikið brölt með orkumikil börn. Alltaf þess virði. Stórfjölskyldan og vinir oft ekki langt undan á öllum þessum ferðalögum. Árin þar sem þið Arnar voruð saman öllum stundum á hjólabretti um borgina eins og tveir unglingar. Ótal ferðir í Bláfjöll þar sem þú hafðir endalausa þolinmæði til að kenna Söndru og Söru á snjóbretti meðan Arnar var á æfingum í fjallinu. Fótboltaleikir, fimleikamót og danssýningar hjá stelpunum. Snjóbrettamót og körfuboltaleikir hjá Arnari. Flórídaferðir sköpuðu frábærar fjölskylduminningar og allt golfið sem við spiluðum saman.

Þú hafðir mjög gott lag á að leiðbeina börnunum okkar, hvort sem það var tengt íþróttum eða skóla. Þú varst ekkert að flækja hlutina. Kunnir vel að sleppa tökunum í uppeldinu þegar það átti við og það lærði ég af þér. Sara og Sandra voru ekkert venjulega skrautlegar til fara á yngri árum en þér fannst ekki til neins að taka slag varðandi klæðaburð. Stelpunum var ekki kalt og fötin þokkalega hrein. Hvað var þá vandamálið?

Eftir að leiðir okkar skildi fyrir hálfum áratug héldum við góðu vinasambandi sem ég veit að okkur þótti báðum svo vænt um. Börnin okkar og þeirra velferð alltaf höfð að leiðarljósi. Þú varst áfram nálægur fjölskyldunni minni og það birtist mjög fallega þegar elsku mamma lést fyrr á þessu ári. Það var alltaf svo sterkur strengur á milli ykkar. Ég hef fundið það vel sjálf síðustu daga að þessi sömu sterku tengsl eru nú eins og áður þétt milli mín og þinnar kæru fjölskyldu sem syrgir þig mikið.

Það lék allt í höndunum á þér. Ótrúlega vandað handverk þitt er að finna víða. Þú lagðir gólfið sem börnin þín ganga á alla daga og það er svo hlýlegt að hugsa til þess. Allar myndirnar sem þú tókst og myndböndin sem þú hefur tekið saman fyrir okkur, tónlistin sem þú spilaðir og veislumaturinn sem þú töfraðir fram, allt dýrmætar minningar.

Þetta eru óbærilega þung spor sem við þurfum að stíga í dag. Fráfall þitt svo hörmulega ósanngjarnt og fyrirvaralaust. Börnin sakna þín svo sárt og eiga erfitt með að sjá tilveru þar sem þú verður ekki. Í líf þeirra hefur þú hins vegar sáð fallegum fræjum sem ég mun halda áfram að vökva og þau munu blómstra. Þú varst svo stoltur af börnunum okkar. Það vafðist aldrei fyrir þér að segja þeim það og hvað þú elskaðir þau. Það var ekkert ósagt þar og þau munu halda áfram í fullri vissu um að þau voru líf þitt og yndi. Ég veit að þú munt vaka yfir þeim um alla tíð og allt sem þú gerðir fyrir þau og gafst þeim verður dýrmætt veganesti.

Elsku Tandri, hvíldu í friði með bjarta fallega brosið þitt.

Með djúpu þakklæti fyrir allt,

Björk.

Það er svo óraunverulegt að sitja og hripa niður nokkur orð í minningu míns kæra mágs svo alltof snemma og skyndilega. Sorgin og söknuðurinn eru mikil og sár. Elsku Tandri hafði einstaklega góða nærveru, var hlýr og ljúfur og alltaf tók hann á móti manni með þéttu faðmlagi og fallega brosinu sínu. Enda fannst strákunum okkar Sindra mikið sport og tilhlökkunarefni að hitta Tandra frænda, sem veitti þeim hlýju og athygli, kitlaði í klessu og spilaði tölvuleiki.
Í fyrsta skiptið sem ég hitti tengdafjölskyldu mína eldaði Tandri fyrir okkur dýrindis máltíð eins og hann gerði svo oft, og matargerðin lék í höndunum á honum. Það var nefnilega ekkert hálfkák hjá Tandra heldur sökkti hann sér í það sem vakti áhuga hans hverju sinni, hvort sem það var golf, hljóðfæraleikur, eldamennska eða annað, og náði mikilli leikni. Strax við þessi fyrstu kynni sá ég líka hversu náinn hann var elskulegu börnunum sínum, Arnari Frey, Söru og Söndru. Þannig var það alla tíð og það leyndist engum að krakkarnir voru stolt hans og yndi. Það skín af þeim öllum hversu mikla alúð og elsku þau ólust upp við hjá foreldrum sínum.
Það var bara rúmt eitt og hálft ár milli þeirra bræðra, Tandra og Sindra, litlu strákanna í systkinahópnum góða. Þeir áttu sína sterku tengingu og var notalegt þegar birtust líkindi í háttum og fasi þeirra, þrátt fyrir að vera um margt ólíkir. Tónlistin var þeirra sameiginlega áhugamál og þeir áttu svo góðar stundir þar sem þeir spiluðu saman á bassa og gítar.
Með sorg í hjarta höldum við fast í allar dýrmætu minningarnar, munum hversu gott var og er að hittast og vera saman fjölskyldan í minni og stærri hópum.
Blessuð sé minning elsku Tandra.

Fríða Sigríður Jóhannsdóttir.

Elsku Tandri minn.

Ég trúi varla að ég sitji hérna og skrifi minningargrein um þig. Ég rifja upp stundirnar með þér, eins og þegar ég hitti þig í fyrsta sinn heima hjá Kidda með Írisi árið 2006. Við urðum strax vinir og þótt það væri ekki nema einu sinni eða tvisvar á ári sem við hittumst gátum við að alltaf rætt daginn og veginn og nutum þess að hlusta á góða tónlist með vinum okkar, það var okkar sameiginlega áhugamál. Það var svo í maí 2019 sem við hittumst og gripum hvort annað. Við vorum bæði á erfiðum tímamótum. Ég verð þér alltaf svo þakklát fyrir að hafa reynst mér klettur á þessum tíma. Áður en við vissum af varstu fluttur inn til mín á Seltjarnarnesið. Sumarið 2019 var yndislegt, allt vegna þín. Þú keyrðir alltaf upp á Keflavíkurflugvöll til að sækja mig úr vinnunni, þrátt fyrir að þykja fátt leiðinlegra en að rúnta svona. Við gátum bara ekki beðið eftir að hittast. Svo fluttum við saman í október á þínar gömlu heimaslóðir, í Breiðholtið og hófum þar almennilega okkar sambúð. Moli gamli kötturinn þinn flutti líka fljótlega inn og hann gat látið okkur hlæja endalaust, enda mikill karakter eins og „pabbi” hans. Ég gleymi því aldrei þegar ég var að búa til eigið buxnasnið, þá varst þú með mér alla leið, með málbandið og títuprjónana, svo útsjónarsamur, nákvæmur og klár. Þú varst með eindæmum listrænn, naust þess að spila á bassana, taka ljósmyndir og vinna með þær – gleymi aldrei þegar þú gerðir eldhúsinnréttingarlíkan úr pappa, það var svo flott að mig langaði bara að sækja nokkrar barbídúkkur og setja inn í það. Við fórum í æðisleg ferðalög og mér finnst svo dýrmætt að við höfum farið með tvo af sólargeislunum þínum í ferðina okkar til Ítalíu og Króatíu í fyrra, þar sem við áttum góðar stundir með hluta af fjölskyldunni þinni heima hjá þeim á Ítalíu. Enginn nema þú hefðir getað dregið mig í þetta langa ferðalag á milli Ítalíu og Króatíu með rútu, en í dag hugsa ég til þess með hlýju þegar ég brosi í gegnum tárin. Þú sást ekki sólina fyrir börnunum þínum þremur, svo stoltur pabbi sem vildir allt fyrir þau gera. Þú varst svo mikill fjölskyldumaður, góður við þitt fólk enda tók mín fjölskylda strax ástfóstri við þig og foreldrar mínir elskuðu að fá þig í heimsókn til Ólafsvíkur, því það fór ekki á milli mála hvað þér leið vel þar í kyrrðinni. Vinnan átti líka alltaf hug þinn og hjarta. Þú varst með fallegt bros og góða nærveru og alltaf varstu til í að hjálpa öllum, hvort sem það var fjölskylda, vinir, kunningjar eða nágrannar.

Þrátt fyrir að okkar leiðir hafi skilið síðastliðinn október þá munu fallegu og góðu minningarnar ávallt lifa ferskar í hjartanu mínu – í fallegu börnunum þínum og skemmtilegum sögum, ég mun alltaf varðveita þær.

Við hittumst síðast í janúar þar sem við kvöddum hann Mola okkar með tárum. Nú ert þú líka farinn og ég sakna þín.

Mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar, elsku Arnar, Sara, Sandra, Kristín, Sindri, Vidda, Ása og fjölskyldur. Megi Guð gefa ykkur styrk.

Þuríður Ragna Jóhannesdóttir.

Það er með svona atburði sem höggva á, nánast eins og eldingu hafi lostið niður í hversdagsleikann og brotið hann í þúsund mola. Fólk á leið í vinnu, börn í skóla, veðurfréttir, strætó keyrir fram hjá ... og svo berast svona fréttir og þá er eins og lífið standi í stað. Heimsmyndin brestur einhvern veginn. Hvernig má þetta bara vera? Fótum kippt undan börnum og ástvinum þegar maður í blóma lífsins fellur svona skyndilega frá. Eftir stendur fólk máttvana og tómt, það er bara ekki hægt að ná utan um þetta.
Tandri var fastur punktur í tilveru okkar hjóna frá því við byrjuðum að vera saman. Kurteisi og myndarlegi hjólabretta„gaurinn”, kærasti Bjarkar. Síðar eiginmaður og faðir þeirra þriggja einstöku barna sem eru á sama reki og okkar börn.
Á litrófinu var Tandri allra síst á svart-hvítu endunum. Hann var litskrúðugur persónuleiki, skapandi og ævintýragjarn. Það var eins og allt léki í höndunum á honum og þegar Bjössi byrjaði að fitla við gítarspil tók Tandri sig til og smíðaði tvö stykki hljóðeffekta og gaf honum í afmælisgjöf. Seinna meir, eftir að hann hafði lagt fyrir sig múriðn, áttum við hann reglulega að þegar okkur langaði að taka til hendinni á heimilinu. Endurnýjun á baðherbergi, stækkun hurðaopa, brjóta niður veggi, leggja lista – það var alveg sama hvað við leituðum til hans með, alltaf var hann elskan ein með bros á vör og alltaf var gaman að hafa hann brasandi á heimilinu og skrafa svo yfir kaffibolla inn á milli.
Elsku Tandri okkar með breiða brosið sitt og blik í auga sem lifir svo sterkt áfram í börnunum hans, Arnari, Söru og Söndru. Við erum svo rík að hafa notið hans við og yljum okkur við ótal góðar minningar um yndislegan dreng sem við munum halda á lofti um ókomna tíð.

Ragnheiður og Björn.