Magnús Ásgeir Bjarnason fæddist á Ísafirði 25. febrúar 1937. Hann lést á Landspítalanum 11. júní 2024.

Foreldrar hans voru Ásta Lilja Vestfjörð Emilsdóttir, f. 1913, d. 1947, og Bjarni Þorsteinsson rafvirki, f. 1904, d. 1948.

Systkini Magnúsar á lífi eru Hulda Bjarnadóttir, f. 1932, Margrét Bjarnadóttir, f. 1940, og Sverrir Kr. Bjarnason f. 1940, einnig uppeldisbróðir, Ólafur Grímur Björnsson, f. 1944. Látin eru Emil Óskar Bjarnason, f. 1934, d. 1951, Kristinn Gunnar Bjarnason, f. 1936, d. 1956, og einnig uppeldissystur hans; Selma Gunnarsdóttir, f. 1940, d. 1971, og Kristín (Nína) Gunnarsdóttir, f. 1943, d. 1945.

Eftirlifandi eiginkona Magnúsar er Aðalheiður Þ. Erlendsdóttir (Heiða), f. 10. ágúst 1939. Dætur þeirra eru Berglind Guðríður, f. 1963, og Ásta Rósa, f. 1968. Barnabörn Magnúsar og Heiðu eru sex að tölu; Magnús Ásgeir, Sólveig María, Bjarni Þór, Heiða Lind, Sindri Snær og Kristján Ingi, barnabarnabörnin eru fimm.

Magnús ólst upp í Stykkishólmi frá tveggja ára aldri og þaðan flutti hann í Kópavog níu ára gamall, árið 1946. Að loknu samvinnuskólaprófi hóf hann störf hjá Landsbanka Íslands, þá 17 ára gamall. Því næst hjá Olíufélaginu hf. þar til hann byrjaði á Bæjarskrifstofum Kópavogs 1. febrúar 1957. Þar átti hann sitt ævistarf; sem aðalbókari og framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar; sá samhliða því um tölvuvæðingu bæjarstofnana þar til stofnuð var sérstök tölvudeild. Hann tók stúdentspróf frá kvöldskóla Fjölbrautar í Breiðholti með fullri vinnu árið 1991.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 5. júlí 2024, klukkan 15.

Stelpuhnokki stendur í perlumölinni og fylgist með pabba, – hann er að smíða lítinn bát fyrir þriggja ára dóttur sína. Þau spá og spjalla þarna í innkeyrslunni; sólin vermir að sumarlagi og pabbi þræðir snærisband í stafnið. Stolt heldur stelpan bátnum að brjósti sér og valhoppar; með hina höndina í sterklegum lófa pabba; þau eru á leiðinni út á Rútstún þar sem telpan sjósetur fleyið sitt á tjörninni. Þarna eru mörg börn með bátana sína, þau eru stærri en hún og enginn pabbi að passa þau. Á kvöldin hífir pabbi dóttur sína upp á vaskborðið í eldhúsinu þegar hún er komin í náttfötin og setur hana í heitt og notalegt fótabað. Þvær litla fætur með sólskinssápu og snýr svo varlega ökklunum í hringi, segir að það sé gott fyrir fæturna. Notaleg stund á meðan mamma gengur frá eftir kvöldmatinn.
Pabbi vekur dætur sínar þegar þær eiga að mæta í skólann á morgnana; í eldhúsinu bíður hollur og fjölbreyttur morgunverður sem hann hefur útbúið. Svo indælt að sitja við útdregna brauðbrettið og spjalla við pabba. Hann gengur líka úr skugga um að stelpurnar hafi klætt sig vel áður en þær stíga af stað út í veturinn og hann heldur sjálfur til vinnu. Þegar ég var orðin fullorðin spurði hann mig oft hvort ég væri ekki með trefil þegar ég kvaddi og fór út í kuldann. Hann var svo umhyggjusamur hann pabbi, sinnti mörgu sem feður gerðu sjaldan þegar ég var barn.
Pabbi hafði misst tvenna foreldra sjálfur; Ástu, Bjarna, Rósu og Gunnar, þegar hann var 7-16 ára. Hann missti líka nokkur systkini, bæði sem barn og ungur maður. En þrátt fyrir sorg og missi átti pabbi alltaf góða að, fólk sem bar hag hans innilega fyrir brjósti og kom honum til manns og mennta. Þegar pabbi var 12-13 ára hafði hann yndi af því að vera niðri í Kópavogsfjöru með Ólafi afa, sem var þar að smíða vélbáta; lyktin af hampinum var svo góð og það var svo gott að geta aðstoðað afa. Pabbi fór líka á veiðar með þessum fósturafa sínum, þeir sigldu fyrir Kársnesið og lögðu þar net fyrir grásleppu.
Systurnar sitja á gólfinu við fætur hans; hann spilar á gítarinn og þau syngja öll saman. Pabbi kennir þeim skák og leyfir þeim að nota stóra segulbandstækið; búa til leikrit og þætti; kemur átta ára dóttur sinni af stað í enskunámi; fær henni gömlu vélritunarkennslubókina sína; kennir henni rétta fingrasetningu og fyrr en varir er hún farin að hamra sögur á ritvélina. Í garðinum við húsið hafa pabbi og mamma útbúið yndislegt bú þar sem hægt er að drullumalla. Þau rækta grænmeti í garðinum; þegar við systurnar fúlsum við grænkerafæði pabba stráir hann sykri á salatblöðin og vefur þeim upp í litlar og ljúffengar pylsur.
Pabbi minn fylgdist alla tíð vel með fréttum og las mikið. Þegar þau mamma komu í heimsókn til mín kannaði hann hvaða bækur ég átti til. Hann var áhugasamur hlustandi og spurði spurninga í stað þess að tala um eigin afrek. Í ellinni var hann einstaklega ljúfur og umhyggjusamur fram á síðasta dag. Hann kvaddi okkur í svefni á Landspítalanum að morgni í júní og erfitt er að trúa því að hann sé farinn.

Meira á www.mbl.is/andlat

Berglind G. Magnúsdóttir.

Með þessum skrifum vil ég heiðra minningu pabba míns. Ég veit reyndar að honum hefði fundist óþarfi að ég væri að skrifa um hann minningargrein en það jafnframt lýsir honum pabba mínum sem var nú ekki fyrir það að stæra sig af sínum verkum. Hann hafði einlægan áhuga á öðrum og spurði gjarnan hvað við hin værum að fást við í okkar störfum og hafði mikinn áhuga á hvernig gengi í skólanum hjá þeim sem voru í námi. En maður frétti nú ekki endilega hvað pabbi áorkaði sjálfur. Mér fannst svo áhugavert um daginn þegar ég talaði við samstarfskonu hans í tengslum við minningarorðin að heyra söguna af því þegar hann innleiddi fyrstu tölvurnar hjá Kópavogsbæ á 8. áratugnum. Það rifjast líka upp fyrir mér hvað mér þótti gaman þegar ég var lítil að fara með pabba í vinnuna upp á skrifstofu.

Pabbi var mjög virkur í uppeldi okkar systra sem var ekki sjálfgefið, sérstaklega þegar ég var að alast upp á 8. áratugnum. Þegar pabbi kenndi mér mjög ungri að lesa spurði mamma hann hvort ég væri ekki of ung til að læra að lesa en hann hélt nú ekki. Ég man, þótt lítil væri, hvað ég var spennt þegar pabbi kom heim úr vinnunni í hádegismat og ég las fyrir hann úr Gagni og gamni og hann verðlaunaði mig með því að lesa fyrir mig úr Andrésblaði. Hann kenndi mér ungri að reikna og að tefla, við spiluðum Marías og leystum myndaþrautir í Morgunblaðinu. Ég vildi ólm fara með honum í bíltúra þar sem hann lagði fyrir mig prósentureikningsdæmi löngu áður en slík dæmi voru á námskrá í skólanum mínum. Hann vakti mig í skólann, tók til fyrir mig hollan morgunmat og gaf mér Lýsi, Sanasol og vítamíntöflur. Hann hjálpaði mér með heimanámið, jafnvel fram eftir öllum skólastigum þegar ég óskaði þess. Hann kenndi mér hagkvæmni og að fara vel með. Á mínu heimili var fært heimilsbókhald. Þannig hafði ég fyrirmynd af því að skrifa niður innkomu og útgjöld. Ég vann mér inn vasapeninga með heimilsverkum sem að hæfðu aldri mínum í hvert sinn. Mér er minnisstætt að ég las gjarnan saman með pabba strimilinn úr búðinni, enda vöruverðið handslegið í kassann í búðinni á þessum tíma þar sem vörur voru ekki strikamerktar. Pabbi tíndi upp úr búðarpokanum og las upp hvað stóð á verðmiðanum á vörunni og ég merkti við á strimlinum hvort rétt væri slegið inn. Og svo giskuðum við á hvað mjólkin kostaði því það var enginn verðmiði límdur á hana. Það er ekki skrítið að ég hafi alla tíð haft afskaplega gott verðskyn.
Pabbi var svo duglegur að hrósa og það skilur svo mikið eftir. Minningarnar eru margar. Ég er þakklát fyrir að hafa átt svona góðan pabba sem að átti svo stóran þátt í að byggja upp góðan grunn hjá mér.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt svona góðan pabba sem að átti svo stóran þátt í að byggja upp góðan grunn hjá mér og styðja mig gegnum tíðina. Ég er líka þakklát að hafa fengið að vera til staðar þegar hann þurfti á að halda undir lokin og að hafa fengið, ásamt systur minni og móður, að vera með honum síðustu stundirnar hans í þessari jarðvist. Blessuð sé minning pabba.

Ásta Rósa Magnúsdóttir

Afi minn í Valló. Frá honum hef ég sagt áður og frá honum mun ég stoltur segja aftur á ný. Sérhver maður lifir meðan einhver um hann talar eða einhver til hans hugsar og í dag og um marga daga gerum við hvort tveggja fyrir Magnús Bjarnason.

Æska og uppvöxtur afa var sem íslensk dramakvikmynd. Ungur missti hann svo marga og lifði af svo margt. Sem drengur í Stykkishólmi flaut hann næstum á haf út á ísjaka en bjargaðist fyrir snarræði manns sem fyrir hendingu sá hann, synti á eftir honum og ýtti jakanum út í Gullhólma þangað sem þeir voru loks sóttir á bát.

Fleiri veittu líka bjargræði því þó afi hafi misst marga sem barn þá var hann alltaf umvafinn góðu fólki og ríkri væntumþykju. Upp úr þeirri hlýju óx hann úr grasi, sigraðist á berklum, braust til mennta, byggði hús og eignaðist sjálfur yndislega fjölskyldu.

Utan á hinum vandaða skrifstofumanni og glaðbeitta fjölskylduföður sáust kannski ekki þeir jökulruðningar sem áföll æskunnar geta skilið eftir á sálinni. En það er allavega fullvíst að þó afi hafi ungur fengið ýmsar þungar byrðar í faðminn, þá átti hann samt í þeim faðmi enn ríkulegt pláss fyrir aðra; fyrir ástkæra eiginkonu, dætur, barnabörn, vini og félaga.

Já, afi var hlýr, hjálpsamur og iðinn. Hann var ákveðinn en líka auðmjúkur. Hann var samræðulistamaður, skrafhreifinn og hafði áhuga og þekkingu á víðtækum efnum. Það var gott að sitja með honum, drekka kaffi og spjalla um heima og geima. Í sófanum í húsi afa og ömmu í Vallargerði. Nú eða á svölunum sem þar vísa yfir garðinn. Ævintýragarð bernsku okkar barnabarnanna.
Þegar ég fletti albúmum sé ég að til eru fleiri myndir af okkur afa en mig grunaði. Ein sú elsta er úr sumarbústaðarferð á Eiðum. Ég innan við hálfs árs gamall. Afi heldur á mér og heldur þétt utan um mig. Kinn hans við koll minn og hann brosir með lokuð augu þar sem sólin skín í andlit hans en hann skýlir mér fyrir sterkum sólargeislunum.

Í dag skýlum við aftur á móti engu. Í dag skín afi í Valló sjálfur til okkar og í geislunum lifnar hann við aftur á ný.

Bjarni Þór Sigurbjörnsson.

Helsta minning mín af afa er hve góður hann var við okkur bræður. Eftir heimsókn í Vallagerði þá labbaði maður út fullur sjálfstrausts því afi var svo duglegur að hrósa.

Hann tók alltaf eftir klippingunni hjá okkur og hrósaði mikið fyrir vönduð verk. Þegar við kvöddumst í dyragættinni þá tók hann alltaf um upphandlegginn á mér og sagði að það væri kraftur í manni.

Nú styttist í að ég verði faðir og ég hef hugsað í mörg ár um að ég muni nýta mér eitt sem afi gerði þegar hann ól upp dætur sínar. Þegar mamma og Berglind fengu kökusneið í eftirrétt, sem börn, þá kom stundum upp rifrildi um að önnur hafi fengið meira. Afi leysti það með útsjónarsemi og skar af kökunni hjá þeirri sem fékk meira og borðaði þann bita sjálfur og endurtók það þangað til þær systur voru hættar að kvarta.

Lærdómurinn sem ég tek úr þessu er að verja minni athygli í hvað aðrir hafa og hugsa meira um hvað maður hefur og hvað maður má vera þakklátur fyrir. Ég er þakklátur fyrir þær stundir sem ég fékk að verja með afa.

Sindri Snær Svanbergsson og Kristján Ingi Svanbergsson

Vináttan í lífi mannsins er margvísleg.

Vinátta jafnaldra.

Vinátta þín og þeirra sem eldri eru.

Vinátta ykkar og þeirra sem yngri eru.

Hópvinátta.

Magnús Á. Bjarnason var ellefu árum eldri en ég.

Hann kom inn í líf mitt sem kærasti uppáhaldsfrænku minnar, Aðalheiðar Erlendsdóttur, Heiðu, systur mömmu, þegar ég var á sjötta ári. Á milli okkar Heiðu er einhver óslítanlegur strengur síðan hún passaði mig í æsku. Maggi var ekki bara fyrirmyndar lífsförunautur hennar, hann samlagaðist fjölskyldu Heiðu, hláturmildur, ljúfur, traustur, flottur. Nú var oftar talað um Heiðu og Magga en þau hvort í sínu lagi.
Þegar ég var um það bil tíu ára fórum við Maggi í gönguferð. Hún innsiglaði vináttu, þar sem annar var eldri en hinn. Þennan sólríka dag bjó hann um kíki sinn í bakpoka ásamt nesti. Svo létum við keyra okkur upp fyrir Vatnsskarð. Þar fórum við upp á Lönguhlíðar með áform um að ganga þessa hásléttu alla leið í Grindarskörð og þaðan í Kaldársel þangað sem mamma átti að sækja okkur. Fyrir mér er þessi gönguferð böðuð sólskini þarna í upphæðum við að njóta útsýnis og horfa í kíkinn Magganaut niður til byggða. En mamma var orðin óróleg þegar leið á daginn og fór nokkrar ferðir í Kaldársel til að vitja okkar. Það var ekki búið að finna upp farsímann. Að endingu á miðju kvöldi þegar við vorum komnir á Kaldárselsveg keyrði hún fram á okkur.

Maggi og Heiða voru tíðir gestir á æskuheimili mínu, oft í félagsskap Gunnars, bróður Heiðu, og Elsu konu hans, en kært var á milli þeirra allra og mín. Um þremur árum eftir gönguferðina hóf Maggi að læra á gítar hjá mér. Hann kom einu sinni í viku í gítartíma í einn eða tvo vetur. Hann var fyrirtaks nemandi og samveran var góð. Gamall nemur, ungur temur.
Þegar ég var kominn með fjölskyldu og hús gerði þessi yfirbókari Kópavogsbæjar sér lítið fyrir og sá um skattskýrsluna fyrir mig árum saman. En smám saman dró úr samfundum okkar af ýmsum ástæðum, um skeið erfiðum, þá var kvikmyndagerð mín tímafrek. En svo var það vegna afurða þessarar kvikmyndagerðar að samskiptin fóru ört vaxandi. Maggi var fastagestur á frumsýningum fimm hluta kvikmyndar minnar „Draumurinn um veginn”, sem hann lauk miklu lofsorði á í tölvupóstum og skilaboðum. Ég kom í verðmætar spjallheimsóknir í Vallargerðið til að fræðast um gamla tíma, skoða ljósmyndir Heiðu og síðast til að sýsla með gamla fjölskyldukvikmynd sem Gunnar, bróðir Heiðu, hafði gert. Þar sést Maggi spila á gítar.
Nú dró hratt af Magga. Við reyndum að finna smugu í heilsuleysi hans fyrir næstu heimsókn. Margt var enn ótalað. Heiða segir mér að hann hafi sífellt verið að spyrja hvenær ég væri væntanlegur. En af heimsókn í Vallargerði varð ekki. Maggi var kominn á spítala þaðan sem hann átti ekki afturkvæmt. Hvernig sem við mennirnir reynum náum við ekki að ljúka því sem við ætlum okkur í lífinu.
Blessuð sé minning Magnúsar Á. Bjarnasonar. Samúðarkveðjur sendum við Ásdís Heiðu, Berglindi, Ástu Rósu og fjölskyldum þeirra.

Erlendur Sveinsson.

Magnús var meðal fyrstu landnema í Kópavogi og bjó lengst af í vesturbænum. Ég á ljúfar minningar um samstarf okkar frá bestu árunum í Kópavogi, „vöggu barna og blóma, borginni hjá vogunum tveimur”, eins og Þorsteinn Valdimarsson kvað. Frá árunum þegar allir þekktust og bæjarbúar gátu komið á bæjarskrifstofurnar til að fá úrlausn mála hvenær sem var. Óþarfi að panta tíma og ég minnist margra frumbyggja sem gjarnan litu inn til Magnúsar, en þar áttu þeir hauk í horni.
Sjálf var ég barnung þegar hann bauð mér starf í bókhaldinu. Ég hafði alls engin plön um að gera bókhald að ævistarfi, en ákvað samt að prófa. Með rósemi sinni og hæglátu fasi opnaði Maggi augu mín fyrir því að bókhald gat verið bráðskemmtilegt og spennandi starf.
Maggi var góður yfirmaður. Hann var snyrtimenni og vandvirkur og lagði áherslu á að við gengjum vel um og bókhaldsgögnin og auraselið og færum sparlega með reiknivélarúllurnar. Hann var hvetjandi og óspar á hól þegar það átti við. Aldrei heyrði ég Magga hækka róminn eða skella hurðum. En ég þekkti alveg dæsið ef eitthvað gekk ekki alveg upp.
Maggi var dulur og hæglátur en kímnin aldrei langt undan. Hann naut trausts og virðingar samstarfsmanna sem og ráðamanna og margir leituðu til hans. Oft var glatt á hjalla inni hjá Magga þegar karlarnir kíktu til hans í sögustund. Og hurðin að sjálfsögðu lokuð þegar sögurnar voru ekki við hæfi kvenna.
Löngu fyrir tíma kaffihúsamenningar átti Maggi það til að brjóta upp hversdaginn og bjóða okkur „dömunum sínum” í bókhaldinu í kaffi á Hótel Borg. Lét vita daginn áður, þá gátum við dubbað okkur upp, mætt með túberað hár og varalit. Við vissum að það kunni hann að meta. Okkur leið eins og drottningum á Borginni og oft byrjaði hann samverustundina á því að láta færa okkur glas af sérríi. Maggi Bjarna var kavaler.
Maggi hugsaði vel um sig og var alltaf fitt og flottur. Hann var mikill grúskari og áhugamaður um alls kyns vítamín og bætiefni. Eitt sinn hafði hann lesið um að góð leið til að halda sér í formi og skýrum í höfðinu væri að taka sér tíma til standa á haus daglega. Við hrifumst með og á hverjum morgni læstum við að okkur til að standa á haus stutta stund. Miði var settur á hurðina sem á stóð „Helgistund”. Þá truflaði okkur enginn. Eftir fáeinar vikur komumst við að því að líklega hentuðu okkur betur öðruvísi æfingar. En skýrari urðum við örugglega í hausnum. Eftir þetta kölluðu gárungarnir bókhaldið „helgidóminn”.
Við Hjörtur eigum ljúfar minningar um ferð til Hollands með þeim hjónum Heiðu og Magga. Heiða var mikil blómakona og var aðaltilgangur ferðarinnar að fara á heljarinnar blómasýningu rétt fyrir utan Amsterdam. Og að sjálfsögðu þræddum við söfn, bari og veitingastaði. Mjög skemmtileg fyrsta heimsókn til Amsterdam og mikið verslað.
Heiðu, dætrum Magnúsar og afkomendum öllum votta ég mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning hans.

Guðrún Einarsdóttir.