Sigurjón Kristjánsson fæddist 2. apríl 1959 á Eskifirði. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 28. júní 2024.

Foreldrar hans voru Anna Sigurrós Sigurjónsdóttir, f. 13.1. 1937, d. 2.1. 2015, og Kristján Ragnar Bjarnason, f. 21.8. 1935, d. 23.8. 2021.
Systkini hans eru: Jóna Björg, f. 14.5. 1956, Bjarni, f. 2.7. 1957, Kristján, f. 5.5. 1960, Laufey Sigríður, f. 3.9. 1962, Guðbjörg Þórdís, f. 11.5. 1964, Eiríkur, f. 1.12. 1970, Sigurður Nikulás, f. 9.3. 1977.
Eiginkona Sigurjóns er Guðrún Þóra Guðnadóttir, f. 5.7. 1959. Þau gengu í hjónaband 25.12. 1982. Börn þeirra eru: 1) Jónatan Már, f. 1980. Eiginkona hans er Ása Guðmundsdóttir. Börn þeirra: Máney Rós, Óskar Marinó, Elísabet Helga, Theodór Elmar og Guðjón Víkingur. Barnabörn þeirra eru: Mikael Nói og Tristan Erik. 2) Davíð Brynjar, f. 1984. Eiginkona hans er Sonja Einarsdóttir. Börn þeirra: Hekla Bjartey, Jökull Ísar og Brynjar Darri. 3) Anna Sigurrós, f. 1987. Unnusti hennar er Gísli Grétar Agnarsson. Börn þeirra: Aldey Mist og Viktor Orri. 4) Birkir Snær, f. 1996.
Starfsævi Sigurjóns hófst snemma og framan af tengdist hún störfum tengdum sjávarútvegi til sjós og lands. Hann kom einnig að verslunar- og afgreiðslustörfum, en frá 2004 var hann húsvörður við Grunnskóla Eskifjarðar. Sigurjón var mikill keppnismaður og studdi enska fótboltaliðið Manchester City frá ungdómsárum. Hann var tryggur fylgismaður Austra, spilaði lengi með liðinu, var dómari, þjálfari og virkur í félaginu alla tíð.

Sigurjón var mikill fjölskyldumaður og farsæll í lífi og starfi.
Útför hans fer fram frá Eskifjarðarkirkju í dag, 5. júlí 2024, klukkan 14.

Með söknuði kveð ég Sigurjón Kristjánsson eða Sjonna eins og hann var kallaður. Keppnismaður í bestu merkingu þess orðs. Heiðvirður og sanngjarn í framgöngu allri. Orðfærið á stundum bragðmikið, en ræða hans tær og umbúðalaus. Í erfiðum veikindum æðrulaus og fremur umhugað um að létta öðrum róður. Kom það m.a. fram í hispurslausum en gamansömum frásögnum. Ekki alls fyrir löngu var ég staddur hjá þeim Sjonna og Guðrúnu Þóru eiginkonu hans og var bróðir Sjonna, Nikulás eða Nikki, þar einnig gestkomandi. Brugðið var á leik og flugu brandararnir á milli þeirra bræðra, léttleikinn allsráðandi og miskunnarlaust fært í stílinn. Sagði Nikki m.a. frá því þegar hann ungur drengur, þá í þungum þönkum, hjólaði aftan á vörubíl þannig að hann lenti með höfuðið á pallbrúninni. Kvaðst hann hafa meitt sig lítillega en vörubíllinn hefði skemmst mikið og dæmdur ónýtur.
Ásækið krabbamein tendraði í keppnismanninum anda baráttu sem entist honum meðan stætt var. Um árabil starfaði hann sem húsvörður í Grunnskóla Eskifjarðar. Þar elskaður og virtur af starfsfólki og nemendum. Á veikindatíma hans var seint og snemma um hann spurt og þess beðið að hann kæmi aftur fljótt til starfa. Hlýhugur margra í hans garð var honum mikil uppörvun og hvatning en stóri og hlýi faðmurinn var sem jafnan eiginkonan, börnin og fjölskyldur þeirra. Sjonni einstakur fjölskyldufaðir og afi. Samfélag náið og innilegt. Einnig stóðu systkini hans og fjölskyldur þeirra honum nærri. Hann umvafinn ástvinum og vinum. Í þessum efnum sem öðrum var Sjonni gæfumaður og ljómi síns byggðarlags. Í störfum sínum réttsýnn, harðduglegur og skyldurækinn. Traustur vinur, greiðvikinn og ráðhollur og skjótur til ef á þurfti að halda.
Það voru forréttindi að fá að kynnast umhyggjusömu hugarþeli hans í garð fjölskyldu og samfélags. Sjúkdóminn var erfitt að höndla og lyfin tóku sinn toll. En í öllu ferlinu gengið eftir mætti hreint til verks. Í samráði við lækna raunsær á allan framgang. Þegar lengra varð ekki komist reyndist það honum ákveðinn léttir enda fram að því honum mikil þrekraun.
Við sólstöður dvöldu þau hjónin í íbúð á Eiðum sem Birkir sonur þeirra hafði þá nýlega keypt. Þar hvíldist hann vel og naut kyrrðar og fegurðar náttúru. Honum dýrmæt hugsvölun ásamt allri þeirri kærleiksríku umönnun og návist sem ástvinir og vinir veittu honum allt til hinstu stundar.
Allt lagt til sem unnt var og mikil blessun að vera veitandi slíkra gjafa.
Dýrmætustu gjafir lífsins kosta ekkert, en þær tala máli hjartans þar sem þræðir tíma og eilífðar eru ofnir í eitt.
Guð blessi minningu mæts samferðamanns og veiti aðstandendum og vinum styrk sína og huggun.

Davíð Baldursson.

Það er alltaf sárt að horfa upp á það þegar fólk með fulla starfsgetu og vilja er kallað af velli. Þannig leið mér þegar þú greindist með þann vágest sem að lokum hafði betur í leiknum sem þú elskaðir að taka þátt í. Ég hafði fylgst með baráttu þinni við krabbameinið og var þess lengst af fullviss um að baráttuþrek þitt og lífsgleði myndi hafa betur. En þú nýttir þín 65 ár sem þú fékkst svo vel.

Við hjónin vorum svo heppin að hafa kynnst þér og fengið að fylgjast með þér í starfinu sem þú greinilega naust í botn þegar þú samþykktir að koma inn í skólann sem húsvörður. Umhyggja þín fyrir nemendum og samstarfsfólki var augljós frá fyrsta degi enda veit ég að meðal þeirra er þín sárt saknað enda sýndir þú öllu starfinu sem unnið var í skólanum mikinn áhuga. Alltaf varst þú tilbúinn til að koma til aðstoðar þegar eftir því var leitað. Ef nemendur voru spurðir hvað væri skemmtilegast í skólanum var svarið nánast alltaf það sama: Frímínúturnar. Þeim stýrðir þú á vellinum þar sem allir fengu að reyna sig í hollum leik og ákveðnum reglum um framgöngu var fylgt. Gilti þá einu hvort um eldri eða yngri nemendur var að ræða.

Gleði þín og framganga birtist í öllu þínu starfi með börnunum jafnt sem samtarfsfólkinu, Þannig minnumst við þín og geymum í huga okkar.

Stundirnar sem við áttum á kaffistofunni í lok dags, þar sem við sátum með kaffibolla og fórum yfir það sem dagurinn hafði boðið upp á og línur lagðar fyrir næsta dag, eru ógleymanlegar. Þar var alltaf stutt í húmorinn því einstakan eiginleika hafðir þú til að sjá og finna spaugilegar hliðar daglegs lífs, ekki síður í framgöngu okkar og viðbrögðum en annarra.

Aðdáunarvert var að fylgjast með æðruleysi ykkar hjóna og raunar allrar fjölskyldunnar í þessari baráttu allri. Þótt lífinu væri í raun snúið á hvolf hélduð þið ykkar striki eins lengi og mögulegt var

Við biðjum Guð um að styrkja Guðrúnu Þóru og fjölskylduna alla í þeirri glímu við lífið sem framundan er án þín.

Hvíl í friði kæri vinur.

Hilmar og Halldóra.