Pólitískt umboð í Bretlandi veikist enn

Helsta tákn þingbundins lýðræðis Bretlands er flutningabíll. Nánar tiltekið flutningabíllinn, sem kemur í Downingstræti 10 að morgni eftir kosninganótt til þess að flytja burt hafurtask forsætisráðherra ef hann skyldi hafa beðið ósigur, því þá gefast engir frekari frestir eða fínerí. Eins og útlit er fyrir að sé raunin þegar þessi orð eru lesin.

Miðað við útgönguspár í Bretlandi verða endanleg kosningaúrslit þar í landi mjög áþekk því sem skoðanakannanir hafa sagt fyrir um, allt frá því boðað var til kosninga fyrir aðeins sex vikum og raunar sáralítið hreyfst síðan.

Úrslitin gætu vart verið afdráttarlausari, þau fela í sér stórsigur Verkamannaflokksins og útreið Íhaldsflokksins.

Kjördæmafyrirkomulagið þar í landi er beinlínis sniðið til þess að færa sigurvegurum kosninga vænan þingmeirihluta til þess að koma málum sínum í gegn, en um leið að auðvelda kjósendum að losa sig við óvinsælar ríkisstjórnir. Að því leyti virðist kerfið hafa virkað fullkomlega.

Hugsanlega virkar það jafnvel of vel, því þrátt fyrir að Verkamannaflokknum sé aðeins spáð um 41% atkvæða þá gæti Verkamannaflokkur Keirs Starmers fengið nær 2/3 þingsæta, litlu minni meirihluta en Tony Blair hlaut 1997.

Íhaldsflokkurinn virðist raunar hafa náð að krafla til baka eitthvert fylgi á síðasta sólarhringnum. Það munaði um það, því á tímabili virtist hann geta endað sem þriðji stærsti þingflokkurinn og þannig misst hlutverk sitt sem forystuflokkur stjórnarandstöðunnar. Þá hefði borgaralega þenkjandi fólk átt sér fáa og veikburða málsvara á þingi, en alls óvíst að flokkurinn næði sér eftir slíkt áfall.

Þetta er áfall samt og þeim mun verra fyrir þá sök, að ekkert bendir til þess að Bretar hafi almennt skipt um stjórnmálaskoðun. Nema hvað að meirihluti landsmanna virðist orðinn fullkomlega afhuga Íhaldsflokknum og forystu hans eftir 14 ára stormasama stöðu við stjórnvölinn.

Hugsanlega er því réttara að tala um að kjósendur hafi veitt Íhaldsflokknum útreið, en eina leiðin til þess var að gefa Verkamannaflokknum sigur.

Margar ástæður má nefna fyrir því hvers vegna breskir kjósendur hafa í hrönnum gefist upp á Íhaldsflokknum eða leggja beinlínis fæð á hann. Umbyltingar liðinna ára vegna Brexit, heimsfaraldursins og efnahagslegra afleiðinga hans hafa þar mikið að segja.

Það kann að virðast ósanngjarnt, þar sem Íhaldsflokkurinn brást þar við óvæntum aðstæðum, og viðbrögðin iðulega þverpólitísk eða samkvæmt fyrirmælum kjósenda. Flokkurinn á samt töluverða sök, því hann reyndist margklofinn og blendinn í afstöðu. Eru þá ónefnd forystumálin, þar sem Boris Johnson var komið úr embætti af eigin flokksmönnum í trássi við skýrt umboð kjósenda.

Rishi Sunak forsætisráðherra hafði ekkert slíkt umboð og hafði ekki einu sinni umboð eigin flokksmanna, því þeir höfðu beinlínis hafnað honum í leiðtogakosningu, en samt varð hann forsætisráðherra eftir að Liz Truss hrökklaðist frá.

Þegar við bættist einhver mesta hrakfallakosningabarátta í manna minnum er kannski ekki skrýtið þó að úrslitin reynist hin verstu í nútímasögu flokksins.

Þar með er ekki sagt að pólitískt umboð Keirs Starmers, leiðtoga Verkamannaflokksins, sé ákaflega sterkt, hvað sem líður kosningaúrslitum eða þingstyrk.

Það segir sína sögu að hinn litlausi Starmer er ekki vinsæll maður, litlu vinsælli en Sunak, sem að líkindum biðst lausnar í dag. Um sjónvarpskappræður „leiðtoganna” var það sagt að það hefði verið eins og að fylgjast með yfirkennara og útibússtjóra keppa um formennsku í Kiwanisklúbbi.

Þegar líklegir kjósendur Verkamannaflokksins voru í vikunni spurðir um ástæðuna fyrir því að þeir hygðust kjósa hann í kosningunum í gær, sagði meira en helmingurinn að það væri til þess að losna við Íhaldsflokkinn. Aðeins 5% nefndu stefnu Verkamannaflokksins sem ástæðuna fyrir því!

Ljóst er að Starmer fær ekki sterkt pólitískt umboð með það í farteskinu.

Samt vænta kjósendur breytinga og kjarabóta, sem erfitt er að ímynda sér að honum veitist auðveldara en Sunak að ná fram. Og þegar Starmer veldur þeim óhjákvæmilega vonbrigðum, hvert geta þeir þá snúið sér?

Því það er auðvelt að fá flutningabíl í Downingstræti, en leiðtogar sem sótt geta skýrt umboð til erfiðra lausna á flóknum vanda eru ekki á hverju strái.