Hamfarir. Miðað við landris í Svartsengi gæti verið stutt í næsta gos við Sundhnúkagíga. Vonir eru samt bundnar við að líf færist í Grindavík á ný.
Hamfarir. Miðað við landris í Svartsengi gæti verið stutt í næsta gos við Sundhnúkagíga. Vonir eru samt bundnar við að líf færist í Grindavík á ný. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur hefur hafið störf með það hlutverk að fara yfir alla þætti og hafa yfirumsjón með því sem snýr að samfélagsþjónustu, framkvæmdum og viðgerðum á mikilvægum innviðum í Grindavík.

Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, segir verkefnið mjög umsvifamikið og reyni mjög á samskipti þeirra aðila sem komið hafa að björgunaraðgerðum í bænum. Nefndin hafi með höndum samræmingu og verkefni eins og þjónustuteymið heyri undir nefndina.

Margir koma að málum

„Við byrjuðum fyrsta daginn í rafmagnsleysi vegna eldgossins 29. maí. Fyrsta verkið var að finna lausnir á að koma rafmagni á bæinn og það tók nokkra daga. Við höfum fundað með bæjarstjórn og starfsmönnum bæjarins. Fórum yfir stöðuna með þeim ráðuneytum sem að málinu koma og mörgum undirstofnunum; ríkislögreglustjóra, lögreglunni á Suðurnesjum, Veðurstofunni, Vegagerðinni, Almannavörnum, Bláa lóninu, veitufyrirtækjunum, fyrirtækjum í Grindavík, verkalýðsfélögum, Þórkötlu, Náttúruhamfaratryggingu og öllum þeim sem koma að málefnum Grindavíkur.”

Hann segir leiðarljósið í lögunum um framkvæmdanefndina vera velferð íbúa, blómlega byggð og atvinnulíf. Stefnan sé að byggja Grindavík aftur upp.

Styrkur til atvinnurekenda er umtalsverður

„Við gerum aðgerðaáætlanir til styttri og lengri tíma, hvað þær kosta og hvernig kostnaðarskiptingin á að vera. Áhættumat fyrir þéttbýli Grindavíkur og könnun á jarðvegi. Við höfum yfirumsjón með nauðsynlegri viðgerð á götum, stígum og opnum svæðum. Höfum umsjón með aðgangsstýringu að bænum í samvinnu við lögregluna og upplýsingaöflun til íbúa Grindavíkurbæjar.”

Hvað með ónýtu húsin? Eiga þau að standa eða stendur til að rífa þau?

„Byggingaleyfi þarf til að rífa hús og það þarf að fara í gegnum það ferli. Það er á hendi eigenda húsanna í samráði við bæjaryfirvöld sem fara með byggingar- og skipulagsvaldið.”

Stendur til að endurskoða ákvörðun um að kaupa ekki upp atvinnuhúsnæði i bænum?

„Ég veit ekki til þess og finnst það ekki sennilegt. Styrkurinn til atvinnurekenda er umtalsverður en hann þarf kannski að kynna betur, þar sem hann virðist ekki vera eins vel nýttur og gert var ráð fyrir. Vandinn sem þú ert að vísa í snýr mest að smærri fyrirtækjum og einyrkjum sem eru með húsnæðið sitt í Grindavík og hafa ekki möguleika á að selja og koma sér upp starfsemi annars staðar.”

Lög um afurðasjóð mikilvæg

Árni Þór segir lögin kveða á um að stuðla eigi að öflugu atvinnulífi í Grindavíkurbæ og markmiðið sé að bærinn verði öruggt samfélag með öfluga innviði og þjónustu sem miðar að þörfum samfélagsins.

„Eitt af úrræðunum sem eru í undirbúningi og fyrirtækin geta nýtt sér eru stuðningslán til rekstraraðila í Grindavík sem kemur væntanlega fram á þingi í haust og tekur mið af því að það verði lífvænlegt fyrir atvinnureksturinn. Varðandi íbúðakaupin hafa seljendur forkaupsrétt á húsum sínum kjósi þeir að snúa aftur.”

Hann segir fyrirtækin fá húsnæðisstuðning, rekstrarstuðning og tímabundinn stuðning vegna greiðslu launa.

„Rekstrarstuðningur á sér fyrirmynd úr covid-tímanum eins og að fresta skilum á tryggingagjaldi, fella niður fyrirframgreiðslu skatta og álag vegna vangreidds virðisaukaskatts. Lög um afurðasjóð Grindavíkur sem ná yfir tjón á afurðum vegna náttúruhamfara og rýmingaraðgerða, er sennilega eitt mikilvægasta úrræðið sem framleiðslufyrirtækin geta nýtt,” segir Árni Þór að endingu.

Viðtal
Óskar Bergsson
oskar@mbl.is

Höf.: Óskar Bergsson