Zaki Laidi
Zaki Laidi
Hvers vegna ætti Emmanuel Macron forseti að taka áhættuna á að ganga til kosninga sem öflin lengst til hægri eru líkleg til að vinna? Vegna þess að hann hefur nú verið ófær um að stjórna landinu í tvö ár og vegna þess að það gæti á endanum reynst honum í hag að hlaða þeim skyldum, sem fylgja valdinu, á herðar óreynds keppinautar.

París | Öndvert við það sem búist var við fylgdu engar meiriháttar pólitískar breytingar Evrópukosningunum fyrr í mánuðinum. Valdajafnvægið í Evrópuþinginu hélst meira eða minna stöðugt, þrátt fyrir örlitla fjölgun sæta aflanna lengst til hægri og einkum og sér í lagi hjá óháðum frambjóðendum.

Þótt óttinn við bylgju lengst til hægri reyndist orðum aukinn var Frakkland stóra undantekningin. Endurreisnarflokkur Emmanuels Macrons forseta fékk aðeins 14,6% atkvæða, en hin hægrisinnaða Þjóðhreyfing Marine Le Pen 31,4%. Macron brást þegar við með því að tilkynna öllum að óvörum að hann hygðist leysa upp þingið og boða til kosninga í skyndi.

Franska stjórnarskráin heimilar Macron reyndar að leysa upp þingið komist hann að þeirri niðurstöðu að hann hafi ekki lengur pólitískt umboð, en forsetar Frakklands hafa sjaldan tekið þetta skref. Eina sambærilega fordæmið er ákvörðun Jacques Chiracs árið 1997 að leysa upp þingið og það mistókst hrapallega. Þessi gambítur Macrons er því mjög áhugaverður.

Hvers vegna greip hann til þessa ráðs? Frá ákveðnu sjónarhorni er ákvörðun hans fullkomlega rökrétt. Hann hefur átt í vandræðum með að viðhalda stöðugum meirihluta á þingi síðan í kosningunum 2022. Í tvö ár hefur hann reynt að búa til bandalag á þjóðþinginu með því að semja við hina hefðbundnu hægri flokka, en þessar tilraunir hafa verið án árangurs.

Samsteypustjórnir eru reglan í mörgum Evrópulöndum, en ekki í Frakklandi. Helsta ástæðan er að kosningakerfið byggist á tveimur umferðum, sem ýtir undir að tvö öfl skipti með sér völdum, þótt hið pólitíska litróf sé þriggja póla eða jafnvel fjögurra (lengst til hægri, hægri, miðja og vinstri). Til þess að komast til valda í franska kerfinu þarf að ná til stærri hóps eigi að hafa betur í annarri umferðinni. Svo lengi sem litið var á Þjóðhreyfinguna sem öfgaflokk var það auðvelt. Þannig tryggði Macron sér sigur í kosningunum 2017 og 2022.

En Þjóðhreyfingin (áður Þjóðfylkingin) hefur á undanförnum 20 árum smám saman stækkað á kostnað hinna hefðbundnu hægri afla og brotist í gegnum þá hindrun, sem áður takmarkaði áhrif hennar. Í Evrópukosningunum var hún efst í nánast hverju einasta kjördæmi og naut í mörgum tilfellum stuðnings 30-40% kjósenda. Það er ekki lengur hægt að sniðganga flokkinn með því að höfða einfaldlega til vinstri eða hægri miðju.

Þess utan hefur stuðningur Macrons sjálfs dalað á undanförnum árum, að hluta til vegna stefnumála hans, en einkum út af því hvað persónuleiki hans er alræðislegur, og að hann er greinilega ófær um að hlusta á fólk, jafnvel í hans eigin herbúðum. Hann er leiftrandi snjall, en með óbærilegum hætti, sérstaklega í augum verkalýðsstéttarinnar.

Með því að boða til óvæntra kosninga vonast Macron til að hrista upp í kjósendum, sem eru værukærir gagnvart öflunum lengst til hægri, og koma aftan að andstæðingum sínum. Víst er að Þjóðhreyfingin átti ekki von á þessari skyndiákvörðun og það sama má segja um hina íhaldssömu Repúblikana. Flokkur Le Pen þarf að bæta við sig 201 sæti til þess að ná hreinum meirihluta.

Til að koma í veg fyrir það þarf að Macron að laða til sín atkvæði hinna hefbundnu hægri og vinstri afla. Þar verður á brattann að sækja. Endurreisnin hefur ekki mikið aðdráttarafl í þeim hópum.

Að auki er mikil hætta á að í seinni umferðinni lendi liðsmenn Macrons í klemmu á milli Þjóðhreyfingarinnar og vinstrisins, sem hafa ákveðið að vera með einn frambjóðanda hvor vængur í hverju kjördæmi. Til þess að komast í aðra umferðina þarf frambjóðandi að tryggja sér stuðning minnst 12,5% skráðra kjósenda, sem þýðir að minnsta kosti 20% atkvæða (þegar tekið hefur verið tillit til þeirra sem sitja hjá). Þar sem flokkur Macrons fékk aðeins 14,6% atkvæða í kosningunum 2. júní er auðvelt að sjá fyrir sér að honum verði velt úr sessi sem stærsta pólitíska aflinu í landinu.

Raunar virðist nú þegar sem flokkur Macrons, sem var aldrei spurður ráða, muni tapa minnst hundrað sætum annaðhvort til Repúblikana eða vinstrisins. Ekki er hægt að útiloka byltingu í röðum Endurreisnarflokksins. Édouard Philippe, fyrrverandi forsætisráðherra, sem hefur metnað til að taka við af Macron og var ósáttur við ákvörðunina um að boða til kosninga, mun reyna að ná undir sig forustunni. Hann á nú í opinberum ágreiningi við Macron og neitar að láta forsetann ráða ferðinni. Philippe vill ekki gjalda pólitískt fyrir mistök Macrons.

Líklegast er að Þjóðhreyfingin​ sigri í kosningunum og ​þar með verði niðurstöður Evrópukosninganna staðfestar. Jafn vel þótt Le Pen takist ekki að tryggja sér ​hreinan meirihluta gæti hún myndað bandalag með ​einhverjum hluta hinna hefðbundnu hægri afla eða hinum ýmsu óháðu stjórnmálamönnum.​ Hin hefðbundnu hægri öfl eru við það að springa nú þegar. Hægri vængur Repúblikananna ​hvetur til bandalags við Þjóðhreyfinguna​, en restin af flokknum er í uppnámi yfir því ákalli. Glundroði blasir við á hinu pólitíska sviði og að frátalinni Þjóðhreyfingunni​ eru ​öll hin pólitísku öfl í verulegum vanda.

Macron hefur nú verið ófær um að stjórna landinu í tvö ár og hefur fjarað verulega undan réttmæti hans í augum kjósenda. Honum finnst eins og hann hafi engu að tapa og ætlar sér að leggja allt undir á grundvelli þeirra spila sem hann er með á hendi eins og sagt er í póker. Líkt og hingað til er hann viss um að persónuleg þátttaka sín muni gera honum kleift að endurheimta tapað fylgi. Hann hefur alltaf haft mjög persónulega sýn á frönsk stjórnmál og finnst þau að öllu leyti hverfast um hann sjálfan.

Þar að auki er Macron að veðja á að nái Þjóðhreyfingin völdum muni kjósendur fá að finna smjörþefinn af því fyrir hvað hún stendur í raun áður en kemur að næstu forsetakosningum árið 2027​. Ef flokkurinn þurfi að axla þær raunverulegu byrðar sem fylgja því að vera við völd muni hann ekki lengur njóta þeirra kosta sem fylgja pólitískum meydómi.​ Macron langar til að taka sama snúning á Þjóðhreyfingunni og Francois Mitterand tók á hægri mönnum árið 1986. Ef Le Pen mistekst að ​komast í forsetastólinn 2027 getur Macron farið frá völdum án eftirsjár og haldið því fram að hann hafi þjónað Frakklandi vel. Ef honum mistekst verður það mikill hnekkir fyrir arfleifð, sem þegar er sködduð.

Höfundur er með rannsóknarstöðu og er prófessor í alþjóðastjórnmálum við Science Po í París og Evrópuháskólann í Brugge í Belgíu. Eftir hann liggja fjölþætt skrif um alþjóðastjórnmál, hnattvæðingu og Evrópu.