Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Ferðafólk þarf á fræðslu og aðstöðu að halda hvert sem leið þess liggur.

Í meira en þrjá áratugi hef ég starfað við ferðaþjónustuna á Íslandi sem leiðsögumaður. Eðlilega hefur margt breyst mjög mikið á þessum tíma. Segja má að skil hafi orðið vorið 2010 er gosið í Eyjafjallajökli olli gríðarmiklum áhuga víða um heim fyrir landinu okkar, náttúru þess, íbúum, menningu, sögu og atvinnuháttum.

Því miður hefur fjöldamargt mátt fara betur og ef það væri tíundað yrði það væntanlega býsna löng skýrsla. En það er alltaf mikilvægt að hafa í huga að bæta það sem unnt er. Stundum þarf gjörbreytingu hugarfars þegar þannig stendur á.

Rétt er að benda á hve vel hefur tekist til við endurgerð göngustíga ofan við Gullfoss. Þar var farið í framkvæmdir meðan covid-ástandið var og mikið dró úr aðsókn á vinsælum ferðamannastöðunum okkar. Má segja að yfirvöld sem málið varða hafi tekið hárrétta ákvörðun á réttum tímamótum. En þar bíður enn að sett séu upplýsingaskilti en verður vonandi fljótlega bætt úr.

Þá eru framkvæmdir á Geysissvæðinu sem verða til umtalsverðra bóta. En stíga hefði mátt hafa breiðari enda oft þar mikil þröng á þingi þar sem ferðafólk vill njóta þess fyrirbæris sem er mjög óvíða: gjósandi hverinn Strokkur sem þeytir upp gufu og vatni. Sjaldnast þarf að doka þar lengur en 7-12 mínútna milli gosa.

Nú hafa undanfarin þrjú og hálft ár verið þrálát eldgos á Reykjanesskaganum sem hafa vakið gríðarlega athygli. Burtséð frá allri eyðileggingunni og mannskaða, sem hvort tveggja er skelfilegt, þá er rétt að gefa þessu nánari gaum. Til stendur að rífa íþróttahúsið í Grindavík sökum þess hve illa það er farið bæði af djúpum sprungum og að ástand hússins er ekki talið nógu gott. Þetta stóra íþróttahús verður eðlilega ekki nýtt oftar til íþróttaiðkunar. En er ekki rétt að doka og skoða þetta mál betur?

Reikna má með að um ókomna framtíð verði straumur ferðamanna um þessar slóðir mikill og jafnvel meiri en verið hefur áður en til allra þessara eldsbrota kom. Ferðafólk þarf á fræðslu og aðstöðu að halda hvert sem leið þess liggur. Og spurning er hvort þetta íþróttahús sé ekki kjörinn vettvangur til slíkrar starfsemi. Gæti það nægt þörfum ferðafólks? Þarna gæti orðið mikilsverður vettvangur fræðslu og upplifunar sem Grindavíkurbær hefði gagn og sóma af, og jafnvel góðan tekjustofn, um ókomna framtíð. Við skulum vona að nýir jarðeldar tortími ekki þessu áhugaverða umhverfi meira en orðið er. Þarna mætti setja upp góða sýningu um sögu jarðeldanna sem og sögu atvinnulífs, byggðar og menningar í Grindavík. Þarna mætti koma upp einstöku tækifæri fyrir ferðamenn að fræðast og skyggnast undir yfirborð jarðar og upplifa það sem þarna hefur gerst. Og auðvitað upplýsingaþjónustu sem og hreinlætisaðstöðu, sem væntanlega er fyrir í húsinu en þarfnast líklega töluverðra lagfæringa.

Með þessari hugleiðingu minni hvet ég bæjarstjórn Grindavíkur til að skoða þennan möguleika enda mun áhugi ferðafólks hvarvetna að úr veröldinni ekki dvína um næstu framtíð. Ferðafólk vill upplifa eitthvað óvenjulegt en að sjálfsögðu ber að gæta fyllsta öryggis og að aðstæður allar séu tryggar og án minnstu áhættu.

Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður, tómstundablaðamaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.

Höf.: Guðjón Jensson