Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson
Á annað hundrað manns hafa misst vinnuna síðustu daga á Akranesi. Skaginn 3X óskaði eftir því við dómara í fyrradag að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta og munu því 128 starfsmenn þess missa vinnuna. N1 sagði einnig upp öllu starfsfólki Skútunnar, sem það á og rekur á Akranesi.

Á annað hundrað manns hafa misst vinnuna síðustu daga á Akranesi. Skaginn 3X óskaði eftir því við dómara í fyrradag að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta og munu því 128 starfsmenn þess missa vinnuna. N1 sagði einnig upp öllu starfsfólki Skútunnar, sem það á og rekur á Akranesi.

„Heildarmyndin sem lýtur að atvinnulífinu hér á Akranesi er vægast sagt alvarleg,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins. Hann segir Akurnesinga hafa gengið í gegnum miklar hremmingar á liðnum árum og misserum. „Mér er það algjörlega til efs að nokkurt sveitarfélag hafi gengið í gegnum jafn miklar hremmingar að undanskildum vinum okkar í Grindavík,“ segir hann.

Hann segir að ofan á þetta hafi Akurnesingar lent í því að matvælaráðherra svipti þá hvalavertíðinni og að hann sé bugaður eftir þau vinnubrögð.

„Þetta er þyngra en tárum taki,“ segir hann og bætir við: „Það sorglega í þessu er að hér eru allir innviðir upp á tíu, við erum með frábæra grunnskóla, leikskóla, íþróttahús og íþróttalíf. Það eina sem okkur vantar er öflugt atvinnulíf sem byggist upp á gjaldeyrisskapandi störfum.“

Hann segir að ekkert sveitarfélag geti lifað og blómstrað án þess að hafa öflugt atvinnulíf og biðlar til fyrirtækja að skoða möguleika þess að hefja starfsemi á Akranesi, enda sé nægt lóðarrými og allir innviðir upp á tíu. „Ég tel að efna þurfi til fundar með bæjaryfirvöldum, stjórnvöldum og bæjarbúum um hvernig við getum snúið vörn í sókn,“ segir hann.

„Mín samúð liggur hjá því starfsfólki sem er að missa lífsviðurværi sitt og er að horfa upp á þessa óvissu sem fram undan er,“ segir Vilhjálmur enn fremur.

Að hans sögn er búið að skipa skiptastjóra yfir búi Skagans 3X og skiptastjórinn sé að meta stöðuna.

„Mitt hlutverk sem formaður í stéttarfélagi er fyrst og fremst að tryggja að öll vangoldin laun og uppsagnarfrestur starfsmanna verði tryggður í gegnum Ábyrgðasjóð launa. Ég hef ekki áhyggjur af því að við munum ekki ná að tryggja það,“ segir hann.

Valgerður Laufey Guðmundsdóttirn
vally@mbl.is

Höf.: Valgerður Laufey Guðmundsdóttir