Guðríður Eldey Arnardóttir
Guðríður Eldey Arnardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verð á áli í Kauphöllinni með málma í London (LME) hefur lækkað lítillega undanfarið og er nú tæplega 2.500 dalir tonnið. Það er hins vegar enn mun hærra en í fyrra eins og hér er sýnt á grafi.

Árið 2018 kostaði tonnið af áli að meðaltali 2.110 dali í Kauphöllinni með málma í London og 1.792 dali árið 2019. Meðalverðið lækkaði svo niður í 1.702 dali árið 2020 en rauk svo upp í kjölfar farsóttarinnar sem skall á heimsbyggðina með fullum þunga í mars 2020. Meðalverðið í London var þannig 2.475 dalir árið 2021 og 2.707 dalir árið 2022. Það lækkaði svo niður í 2.252 dali í fyrra en er nú sem fyrr segir tæplega 2.500 dalir tonnið.

Horfurnar ágætar

Guðríður Eldey Arnardóttir framkvæmdastjóri Samáls segir stefna í þokkalegt ár hjá áliðnaðinum.

„Árið í fyrra var lakara en árið áður. Nú eru horfurnar hins vegar ágætar,” segir Guðríður Eldey.

Spurð um horfur í álverði segir hún erfitt að gera spár við þessar aðstæður. Stríðsátök setji mark sitt á heimsmálin og mikil pólitísk óvissa sé uppi á stórum mörkuðum, þar með talið í Evrópu. Meðal annars er mikil pólitísk ólga og óvissa í Frakklandi og Bretar eru líklega að leiða Verkamannaflokkinn til valda.

Margir óvissuþættir

„Margir óvissuþættir geta skipt máli. Við sáum til dæmis breytingar á álverðinu þegar viðskiptabann var sett á Rússa,” segir Guðríður Eldey og rifjar upp að slæm staða miðlunarlóna hjá Landsvirkjun í vetur hafi leitt til þess að ákvæði í samningum hafi verið virkjuð og orkusala skert til stórnotenda á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Slíkt dragi úr afkastagetu álveranna sem aftur skerðir útlutningstekjur þjóðarinnar, líkt og Samtök iðnaðarins hafi sýnt fram á með greiningu sinni.

Verði meðalverð á áli áfram umtalsvert hærra í ár en það var í fyrra mun það hafa jákvæð áhrif á tekjur Landsvirkjunar og Orkuveitunnar enda eru raforkusamningar að hluta tengdir álverði.

Baldur Arnarson
baldura@mbl.is

Höf.: Baldur Arnarson