Víðidalur. Fjöldi áhorfenda sat í brekkunni og fylgdist með gæðingunum.
Víðidalur. Fjöldi áhorfenda sat í brekkunni og fylgdist með gæðingunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikil veisla hefur verið á Landsmóti hestamanna í vikunni en mótið var formlega sett í gærkvöldi. Óhætt er að segja að mótið hafi gengið vel til þessa og hefur hestakosturinn verið magnaður. Hestamannafélögin Fákur í Reykjavík og Sprettur í Kópavogi halda mótið að þessu sinni.

Hjörtur Bergstað formaður Fáks segir andann á mótinu til þessa hafa verið til fyrirmyndar og mikil velvild sé hjá mótsgestum og starfsmönnum að halda gott mót.

„Þetta hefur gengið allt framar björtustu vonum. Við erum með reynslumikið fólk í öllum störfum og mikið af sjálfboðaliðum. Það hefur bara gengið mjög vel að manna það og einhvern veginn er það þannig að það eru allir búnir að hjálpa okkur,” segir Hjörtur.

Barátta um toppsætin

Á Hvammsvelli hafa áhorfendur fengið að njóta fremstu gæðinga landsins langt fram á kvöld alla daga. Milliriðlar í öllum greinum fóru langt umfram væntingar mótsgesta og stefnir í spennuþrungna baráttu um toppsætin.

Ungir knapar hafa stolið sviðsljósinu með einstaklega fagmannlegri reiðmennsku og boðið mótsgestum upp á æsispennandi keppni.

Efstu þrjú í barnaflokki eru ungir félagsmenn hestamannafélagsins Geysis en þau halda áfram baráttu sinni um fyrsta sætið. Linda Björg Friðriksdóttir leiðir flokkinn á heiðurshestinum Sjóði frá Kirkjubæ með 8,85 í einkunn. Af sjö knöpum sem tryggðu sér sæti í A-úrslitum eru fimm knapar úr hestamannafélaginu Geysi, ljóst er framtíð hestamannafélagsins Geysis skín skært.

Eik Elvarsdóttir leiðir unglingaflokk gæðinga með 8,75 á hestinum Blæ frá Prestbakka. Sviptingar urðu í milliriðli B-flokks ungmenna en Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka leiða í A-úrslit með 8,75 í einkunn.

Efstur í fimmgangi í meistaraflokki er Jón Ársæll Bergmann á Hörpu frá Höskuldsstöðum, en hann keppir einnig í B-flokki ungmenna og merkur árangur hjá kappa að leiða meistaraflokkinn.

Fyrsti landsmótssigurvegarinn var krýndur á mánudaginn en Hinrik Bragason kom, sá og sigraði á merinni Trú frá Árbakka í gæðingaskeiði og fóru þau með mikla yfirburði. Trú er heimaræktuð af Hinrik og fjölskyldu hans sem gerði sigurinn enn sætari.

Skemmtilegasta fólkið í dalnum

Óhætt er að segja að mikil veisla sé fram undan fyrir áhugafólk um íslenska hestinn í Reykjavík. Næstu daga verður riðið til B- og A-úrslita í öllum keppnum ásamt verðlaunaafhendingum kynbótahrossa. Þar að auki verður slegið til veislu í Lýsishöllinni í Fáki bæði í kvöld og á morgun.

„Þá koma allra bestu skemmtikraftar landsins í kvöld og á laugardaginn. Ef þið viljið smakka rjómann af íslensku hestasamfélagi þá skuluð þið koma í partíið en hestamenn eru langskemmtilegasta fólk landsins. Svo ef þú vilt eiga ánægjulegan dag í lífi þínu þá skaltu skella þér á landsmót í Víðidal um helgina,” segir Hjörtur að lokum.

Herdís Tómasdóttir
herdis@mbl.is

Höf.: Herdís Tómasdóttir