Lokun. Heilsugæslan í Hveragerði.
Lokun. Heilsugæslan í Hveragerði.
Íbúar í Hveragerði hafa verið án heilsugæslu frá 27. maí sl. og verða í allt sumar.

Íbúar í Hveragerði hafa verið án heilsugæslu frá 27. maí sl. og verða í allt sumar. Öll starfsemi heilsugæslunnar í Hveragerði verður í Þorlákshöfn á meðan en Hvergerðingum er einnig frjálst að leita á heilsugæsluna á Selfossi.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir í samtali við Morgunblaðið að unnið verði að mikilvægum viðhaldsframkvæmdum og breytingum á húsnæði heilsugæslunnar í Hveragerði meðan á lokun stendur. Breytingum sem séu löngu tímabærar enda sé núverandi húsnæði ekki gott undir heilsugæslu. „Við höfum svo sem ekki önnur úrræði þannig að verið er að bæta húsnæðið þannig að það henti starfseminni betur. Þetta á þannig að leiða til einhvers góðs fyrir okkar skjólstæðinga og starfsfólkið.”

Framkvæmdir hafa tafist

Aðspurð segir Díana húsnæðið í Þorlákshöfn bera starfsemi beggja heilsugæslanna þótt þröngt sé. „Það gerir það tímabundið en þetta er auðvitað ekki til frambúðar. Við þurftum að loka í Þorlákshöfn fyrir tveimur árum eða svo vegna sambærilegra framkvæmda og þá sóttu allir þjónustuna í Hveragerði. Þannig að þetta eru svona verkir sem fylgja því að fara í þessar breytingar.”

Framkvæmdir hafa tafist og hafa Hvergerðingar vakið athygli á því, meðal annars á samfélagsmiðlum. Díana segir að lokunartíminn hafi verið miðaður við þær tímasetningar sem verktakinn hafi gefið Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hún segir tafirnar á framkvæmdunum hafa orðið vegna þess að undirverktaki sem vinna átti verkið fyrir verktakann hafi brugðist. Nýr undirverktaki hafi hins vegar verið fundinn og hennar upplýsingar hermi að upphaflegi tímaramminn sem verktakinn gaf upp og lokunin miðast við muni standast.

„Þeir eru leiðir yfir þessum töfum en mér skilst að það sé bara verið að fara af stað á næstunni,” segir Díana.

Ólafur Pálsson
olafur@mbl.is