Vestmannaeyjar. Frá setningu goslokahátíðarinnar í fyrrakvöld.
Vestmannaeyjar. Frá setningu goslokahátíðarinnar í fyrrakvöld. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
Goslokahátíðin í Vestmannaeyjum var sett á miðvikudaginn og munu hátíðarhöld standa fram til sunnudags.

Goslokahátíðin í Vestmannaeyjum var sett á miðvikudaginn og munu hátíðarhöld standa fram til sunnudags. Að vanda er fjölmenni í Eyjum þessa helgi og margir burtfluttir Eyjamenn láta sjá sig.

Erna Georgsdóttir, sem á sæti í hátíðarnefndinni í ár, segir hátíðina að þessu verða eitthvað minni í sniðum en í fyrra, þegar 50 ár voru liðin frá því að gosinu í Heimaey lauk. Engu að síður verði mikið lagt í hátíðina líkt og oft áður.

Dagskráin er að mestu með svipuðu sniði. Helsta breytingin er að stóra barnadagskráin færist frá föstudegi til laugardags og í staðinn verður meiri miðbæjarstemning í dag, föstudag.

Goslokalitahlaup, sem var fyrst haldið í fyrra, verður endurtekið í ár og fer fram á morgun.

Dagskrá langt fram á nótt

Spurð um hápunkt hátíðarhaldanna segir Erna það vera laugardaginn allan, dagskráin verði langt fram á nótt.

„Það er dagskrá um alla eyju, tónleikar og listsýningar á mörgum stöðum og alls konar viðburðir. Þannig að það er mjög mikið í gangi hjá okkur alla helgina,” segir Erna.

Að sögn Ernu sjá fjölmargir góðir styrktaraðilar til þess að goslokahátíðin fari vel fram. Vestamannaeyjabær leggur einnig alltaf fjármagn í hátíðina. „Án þessara styrktaraðila væri þetta ekki eins veglegt hjá okkur,” bætir Erna við.

drifa@mbl.is