Borgarnes. Fjölbýlishúsið sem mun hýsa nemendur og eldri borgara.
Borgarnes. Fjölbýlishúsið sem mun hýsa nemendur og eldri borgara. — Tölvumynd/Noland arkitektar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eldri borgarar í Borgarnesi og nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar munu bráðlega búa í sama húsi við Borgarbrautina.

Eldri borgarar í Borgarnesi og nemendur í Menntaskóla Borgarfjarðar munu bráðlega búa í sama húsi við Borgarbrautina.

Framkvæmdir eru hafnar og búið að rífa niður Sumarliðahúsið, niðurnídda byggingu við Borgarbraut 63. Þar mun fjögurra hæða fjölbýlishús rísa þar sem menntaskólanemar og fólk 60 ára og eldra munu deila húsnæði.

Nemendurnir munu búa á fyrstu hæðinni þar sem 12 stúdíóíbúðum verður komið fyrir en eldri borgararnir verða á hæðunum fyrir ofan í alls 12 íbúðum.

Aldrei áður gert á Íslandi

Að sögn Ingu Dóru Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar- og dvalarheimilisins Brákarhlíðar, hófst samstarfið í kjölfar þess að Brákarhlíð skoðaði nýbyggingu á umræddri lóð við Borgarbrautina. Var menntaskólinn þá að leita að sams konar húsnæði fyrir nemendur sína. Samtal fór í gang og ákveðið að sameina verkefnin tvö í einni byggingu.

Inda Dóra segir verkefnið spennandi, þetta sé í fyrsta sinn sem hjúkrunarheimili og menntastofnun sameinist um byggingu sem þessa.

Að sögn Ingu Dóru verður fjölbýlishúsið tengt Brákarhlíð. Það verði vel staðsett, gegnt heilsugæslu og verslunarkjarna svo auðvelt sé fyrir íbúana að sækja sér þjónustu þangað.

Fjölbýlishúsið verður með bílastæðakjallara og lyftu og stefnt er að því að húsið verði tilbúið í desember árið 2025.

María Hjörvar
mariahjorvar@mbl.is

Höf.: María Hjörvar