Húsavík. Keppendur og verðlaunahafar að loknu Norðurlandamótinu í riffilskotfimi, Bench Rest.
Húsavík. Keppendur og verðlaunahafar að loknu Norðurlandamótinu í riffilskotfimi, Bench Rest. — Morgunblaðið/Líney
Norðurlandamót í riffilgreininni Bench Rest var haldið á Húsavík um síðustu helgi þar sem keppendur leiddu saman byssur sínar á velli Skotfélags Húsavíkur.

Norðurlandamót í riffilgreininni Bench Rest var haldið á Húsavík um síðustu helgi þar sem keppendur leiddu saman byssur sínar á velli Skotfélags Húsavíkur.

Engir aukvisar mættu á mótið en meðal keppenda voru Svíarnir Stefan Karlsson og Daniel Madsen, einnig Finninn Jari Laulumaa sem er fyrrverandi heimsmeistari í þessari grein skotfimi og varð hann stigahæstur í lok mótsins. Þeir hafa í gegnum tíðina farið víða um heim á slík mót og segja aðstöðuna á Húsavík með þeirri bestu.

Mótsgestir fengu alls kyns veður um helgina og ekki laust við að mótshaldarar hefðu ugg í brjósti í aðdraganda móts en æfingadagar nýttust ekki vegna illviðris. Skjótt skipast þó veður í lofti og á laugardag birti upp með sólskini og fádæma blíðu sem hélst út mótið.

Allt mótshald gekk samkvæmt áætlun en að mörgu þarf að hyggja áður en slíkt mót er haldið, að sögn Gylfa Sigurðssonar hjá Skotfélagi Húsavíkur.

„Við höfum á að skipa góðum hópi manna sem getur séð um hvaða mót sem er og án slíkra væri ógerlegt að halda hnökralaust mót sem þetta. Það er ekki sjálfgefið að hafa fólk sem er tilbúið að taka að sér slíka vinnu og yfirleitt í sjálfboðastarfi. Sjálfir sáu þeir um að setja upp og smíða þau tæki sem til þurfti á riffilbraut og félagið átti ekki fyrir, einnig þurfti aðstöðu fyrir skytturnar til að þrífa byssurnar svo fluttur var gámur á skotsvæðið og hann fylltur með borðum. Ýmsir styrktaraðilar og fyrirtæki hugsuðu líka hlýlega til félagsins vegna mótsins sem er okkur afar mikilvægt,” sagði Gylfi við fréttaritara Morgunblaðsins.

Erlendu keppendurnir voru ánægðir með helgina og alla aðstöðu og sögðust tilbúnir að koma aftur yrði slíkt mót haldið.

Skotfélag Húsavíkur hefur staðið í uppbyggingu undanfarin ár og getur nú státað af einu besta skotsvæði landsins. Þar er nú ágætt riffilhús með fimm skotborðum og 90 fm aðstöðuhús sem hýst getur alla starfsemi félagsins.

Líney Sigurðardóttir
frettir@mbl.is

Höf.: Líney Sigurðardóttir