Atvinnulíf. Jóhann Eðvald Benediktsson framkvæmdastjóri Rubix segir fyrirtæki geta leitað til Rubix eftir nær öllum rekstrarvörum og þjónustu.
Atvinnulíf. Jóhann Eðvald Benediktsson framkvæmdastjóri Rubix segir fyrirtæki geta leitað til Rubix eftir nær öllum rekstrarvörum og þjónustu. — Ljósmynd/Eyþór Árnason
„Fyrirtæki í stóriðju eru stærstu viðskiptavinir okkar í dag en hugmyndafræði Rubix í Evrópu er að vera sá aðili sem önnur fyrirtæki leita til hvað varðar sinn daglega rekstur. Hvort sem þau vantar pappír, reykgrímur, glussaslöngur, rafmótor eða nánast hvaða rekstrarvöru sem er, eiga þau að geta komið til okkar" segir Jóhann Eðvald Benediktsson, framkvæmdastjóri Rubix Ísland, í samtali við Morgunblaðið.

„Fyrirtæki í stóriðju eru stærstu viðskiptavinir okkar í dag en hugmyndafræði Rubix í Evrópu er að vera sá aðili sem önnur fyrirtæki leita til hvað varðar sinn daglega rekstur. Hvort sem þau vantar pappír, reykgrímur, glussaslöngur, rafmótor eða nánast hvaða rekstrarvöru sem er, eiga þau að geta komið til okkar,” segir Jóhann Eðvald Benediktsson, framkvæmdastjóri Rubix Ísland, í samtali við Morgunblaðið.

Byrjuðu á núlli

Rubix Ísland, sem sérhæfir sig í sölu og dreifingu á varahlutum og iðnaðarvörum, hóf starfsemi á Íslandi árið 2007, þá undir merkjum Brammer, er í eigu Rubix Group, eins stærsta birgja iðnaðarvara í Evrópu. Jóhann segir fyrirtækið hafi vaxið frá núlli upp í það sem það er í dag.

Velta Rubix nam um sex milljörðum króna á síðasta ári og hjá því starfa um 70 manns, á þremur stöðum, það er í Kópavogi, Reykjanesbæ og á Reyðarfirði en þar hefur fyrirtækið þjónustusamning við álverið Alcoa Fjarðaál.

Aðspurður segir Jóhann að Rubix Ísland sé eitt 22 dótturfélaga í jafnmörgum löndum í Evrópu en að móðurfélagið sé staðsett í Bretlandi.

„Rubix er evrópskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í London og dótturfélögin eru með starfsemi í 22 löndum í Evrópu. Innan samstæðunnar starfa í kringum 9 þúsund starfsmenn og velti hún um 3,2 milljörðum evra á síðasta ári,” segir hann en það samsvarar ríflega 477 milljörðum íslenskra króna á meðalgengi síðasta árs.

Finna fyrir samdrætti

Spurður um þá stöðu sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi, þar sem vextir eru háir og mörg fyrirtæki halda að sér höndum, segir Jóhann að fyrirtækið finni fyrir samdrætti í innkaupum hjá smærri rekstraraðilum. Heilt yfir séu verkefnastaða og rekstrarhorfur þó góðar hjá fyrirtækinu.

„Nú á dögum eru flestir að horfa í aurinn, fjármagna sig í minna mæli með lántökum og annað slíkt. Við finnum fyrir því hjá smærri aðilum, ef það vantar til að mynda eina rykgrímu þá er ein rykgríma keypt. Í fyrra var meira um að vörur væru keyptar í magninnkaupum,” segir hann.

Jóhann segir að almennt geti hann ekki kvartað undan ástandinu, fyrirtækið taki góðu dagana með þeim verri.

„Engu að síður sjáum við fram á að þetta ár verði gott hjá okkur. Þrátt fyrir að það verði ekki eins gjöfult og undanfarin tvö til þrjú ár hvað vöxt varðar, reiknum við með því að þetta ár verði með ágætasta móti,” segir hann.

Nýtt húsnæði gæfuspor

Fyrir tæpum fimm árum flutti Rubix í nýtt 1.700 fermetra húsnæði að Dalvegi 33a í Kópavogi, sem hýsir lager, skrifstofur og verkfæraverslun.

„Gamla húsnæðið á Völlunum í Hafnarfirði var sprungið og við gátum ekki stækkað það meir. Fyrirtækinu bauðst það tækifæri að færa starfsemina hingað í Kópavoginn sem við teljum hafa verið mikið gæfuspor fyrir okkur,” segir hann.

Jóhann segir að Rubix-samstæðan ætli að halda áfram sókn sinni í að vera helsti samstarfsaðili annarra fyrirtækja í iðnaði.

„Til að festa Rubix í sessi sem helsta samstarfsaðila fyrirtækja í iðnaði, erum við sífellt að leita að tækifærum til þess að auka við þjónustu og vöruframboð okkar. Það sama á við hér á Íslandi, ef það eru tækifæri sem passa okkar rekstri þá erum við alltaf að skoða það,” segir Jóhann.

Í því samhengi bendir hann á kaup Rubix á Verkfærasölunni fyrir tveimur árum, sem hafði augljós samlegðaráhrif og jók vöruframboð Rubix, ásamt því að auka aðgengi fyrirtækisins að breiðari hóp viðskiptavina.

Arinbjörn Rögnvaldsson
arir@mbl.is

Höf.: Arinbjörn Rögnvaldsson