Framkvæmdastýran. Erna í Ljósinu.
Framkvæmdastýran. Erna í Ljósinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erna Magnúsdóttir fæddist 5. júlí 1964 á Selfossi og ólst upp í Miðfelli 5 í Hrunamannahreppi, Árnessýslu, ásamt foreldrum og 6 systkinum.

Erna Magnúsdóttir fæddist 5. júlí 1964 á Selfossi og ólst upp í Miðfelli 5 í Hrunamannahreppi, Árnessýslu, ásamt foreldrum og 6 systkinum. „Hrunamannahreppur er blómleg sveit og Miðfellshverfið iðaði af lífi og mikið af börnum sem voru samrýmd og léku mikið saman. Ég fór snemma að vinna við búskapinn eins og þá tíðkaðist bæði við skepnur og heyskap og var oft mikið fjör í stórum systkinahópi.“

Erna var í grunnskólanum á Flúðum sem var bæði með grunn- og unglingadeild. Hún flutti til Reykjavíkur 16 ára til að fara í framhaldsskóla og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla 1984. Hún kynntist ung eiginmanni sínum Guðmundi Jónssyni en haustið 1985 lá leiðin til Kaupmannahafnar þar sem þau stunduðu bæði nám og lauk Erna námi í iðjuþjálfun við Ergoterapeutskolen í Kaupmannhöfn, 1988. Þau bjuggu í Kaupmannahöfn árin 1985-1990. Eftir heimkomuna tók við vinna og stækkun fjölskyldunnar. „Það var alltaf hugur í mér að læra meira og þegar það var boðið upp á endurmenntun fyrir starfandi iðjuþjálfa þá skráði ég mig og lauk B.Sc prófi í iðjuþjálfunarfræðum frá háskólanum á Akureyri 2005.“

Síðan þá lauk Erna námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá Endurmenntun Háskóla Íslands vorið 2015, með alþjóðlega D-vottun í verkefnastjórnun Certified Project Management Associate. Hún útskrifaðist í febrúar 2019 úr meistaranámi við Háskólann á Bifröst á viðskiptasviði í forystu og stjórnun.

Erna starfaði sem iðjuþjálfi hjá Hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnunar í fimm ár, fór þaðan á Landspítalann og vann þar til ársins 2005. „Á Landspítalanum kynntist ég endurhæfingu krabbameinsgreindra. Minn draumur var að búa til miðstöð fyrir utan spítalaumhverfið og gera endurhæfinguna meira heimilislega og þverfaglega og þannig varð Ljósið til. En Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra.“

Erna er hugmyndasmiður og frumkvöðull í stofnun Ljóssins. „En það er enginn sem gerir svona hluti einn og fyrir stofnunina fékk ég mikla hjálp við þá vinnu frá grasrót, en það voru yndislegir einstaklingar sem létu sér endurhæfingu krabbameinsgreindra varða og lögðu hönd á plóginn svo þessi hugmynd yrði að veruleika því engin endurhæfingarmiðstöð var þá til af þessu tagi sem Ljósið er.“

Ljósið og starfsemi þess hefur verið hugarefni Ernu frá stofnun og það starf stækkar með ári hverju og hafa nú mörg þúsund manns sótt endurhæfingu og stuðning við Ljósið. „Þangað koma krabbameinsgreindir og byggja sig upp andlega, líkamlega og félagslega eftir oft erfið veikindi. Auk þess getur fjölskyldan fengið stuðning í gegnum ferlið. Við vitum að þegar einn greinist í fjölskyldu þá hefur það áhrif á alla. Í dag koma mánaðarlega yfir 600 manns í þjónustu í Ljósið í hverjum mánuði.“

Erna var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu krabbameinsgreindra 17. júní 2018. „Það var stórkostleg viðurkenning á yndislegu starfi og ég er bæði auðmjúk og þakklát.“

„Helstu áhugamál fyrir utan Ljósið og öllu því sem fylgir er að vera með fjölskyldunni. Ég elska að vera með börnunum, tengdabörnunum og barnabörnunum. Við hjónin ferðumst töluvert, höfum líka verið að ganga aðeins og svo sit ég oft löngum stundum við saumavélina og sauma flíkur eða sit og prjóna eitthvað fallegt.“

Fjölskylda

Eiginmaður Ernu er Guðmundur Jónsson, f. 4.12. 1960, byggingafræðingur. Þau búa í norðurbænum í Hafnarfirði. Foreldrar Guðmundar voru hjónin Jón Eyjólfur Guðmundsson, f. 13.3. 1928, d. 16.3. 1997, og Alma Levý Ágústsdóttir, f. 24.8. 1929, d. 13.10. 2022. Þau voru bændur á Þorfinnsstöðum í Þverárhreppi í V-Húnavatnssýslu.

Börn Ernu og Guðmundar eru 1) Lilja Guðmundsdóttir, f. 1990, íþróttanæringarfræðingur, maki: Sveinn Óskar Þorbjörnsson, f. 1985. Börn þeirra eru Rebekka Rós, f. 2012, Mikael Myrkvi, f. 2017 og Karítas Kría, f. 2019; 2) Björk Guðmundsdóttir, f. 1993, leikkona, maki: Arnar Bragi Ingason, f. 1992, og 3) Jón Eyjólfur Guðmundsson, f. 2000, nemi í sálfræði.

Systkini Ernu eru Viðar, f. 1954, Gunnhildur, f. 1954, Gunnlaugur, f. 1958, Margrét, f. 1959, Hafdís, 1962 og Hrefna, f. 1966.

Foreldrar Ernu voru hjónin Magnús Gunnlaugsson, f. 14.6. 1930, d. 9.1. 2024, bóndi í Miðfelli í Hrunamannahreppi, og Elín Stefánsdóttir, f. 9.8. 1930, d. 22.1. 2022, ljósmóðir og bóndi í Miðfelli.