Foss. Listamaðurinn Rúrí stendur við verk sitt „Útrýming II“ sem er til sýnis í Norræna húsinu til 8. september.
Foss. Listamaðurinn Rúrí stendur við verk sitt „Útrýming II“ sem er til sýnis í Norræna húsinu til 8. september. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Myndlistarsýningin Post var opnuð í byrjun júní í Norræna húsinu og er hluti af Listahátíð í Reykjavík.

Myndlistarsýningin Post var opnuð í byrjun júní í Norræna húsinu og er hluti af Listahátíð í Reykjavík. Þar sýna sex listamenn, Nana-Francisca Schottländer, Katie Paterson, Marte Aas, Rita Marhaug, Anna Líndal og Rúrí, verk frá árunum 2005 til 2021 undir stjórn Ruth Hege Halstensen. Segir í tilkynningu að undirliggjandi þema sé mannöldin, þ.e. yfirstandandi tímabil jarðsögunnar sem einkennist af áhrifum mannfólks á loftslag og vistkerfi plánetunnar. Sýningin stendur til 8. september og er opin þriðjudaga til sunnudaga, milli kl. 10 og 17.

Rannsókn á glæp

Blaðamaður ræddi við listamanninn Rúrí um verk hennar „Útrýming II” sem er til sýnis á Post sem samkvæmt henni fjallar um vatnsskortinn og áhrif hans á gróðurfar, akuryrkju og lífríki í sjónum. Verkið er ljósmyndasería af fossum sem nú hafa horfið vegna virkjana, sem var tilfelli margra fossanna þegar Kárahnjúkavirkjun var reist. „Það eru myndir af 28 fossum í verkinu og meiri en helmingur þeirra er horfinn, þess vegna er titillinn „Útrýming”. Verkið er sett upp að því er virðist handahófskennt en ég styðst við hugmyndina um rannsókn á glæp. Þá eru settar upp svona skyndimyndir sem eru tengdar rannsókninni og þeim er raðað upp meðan á rannsókn stendur en það er stundum svolítið handahófskennt hvernig þær lenda á veggnum. Verkið er þannig eins og rannsókn á sakamáli,” segir Rúrí.

Rúrí hóf ferill sinn sem myndlistarmaður fyrir 50 árum og segir hún verk sín vera marglaga og einn af þráðunum, sem séu gegnumgangandi í hennar listsköpun, vera náttúruna, náttúruverndina og náttúruvána. Rúrí segist iðulega taka dæmi úr nærumhverfi sínu, þ.e. á Íslandi, til að varpa ljósi á heimsvandamál og taka sérstaklega til skoðunar fossa á Íslandi. „Kárahnjúkavirkjun er auðvitað sérstaklega nærtækt dæmi, þar voru gríðarleg spjöll unnin á vistkerfi og jafnvægi náttúrunnar á Austurlandi.” Bætir hún því við að það hafi oft kostað blóð, svita og tár að taka ljósmyndirnar og að verkið hafi haft langan aðdraganda. „Það tekur á að mynda fossana, þetta er í óbyggðum og vegurinn var slæmur upp að Eyjabökkum og Jökulsá á Dal. Ljósmyndarar eða listamenn þurfa oft að leggja mikið á sig og maður er oft með blóðugar tær eftir göngu. Ég gekk til dæmis 12 klukkutíma um óbyggðir með myndavél, þrífót og hljóðupptökutæki til að ná sumum myndanna. Þetta eru ekki bara einhverjar túristamyndir. „Þegar ég tek myndir í návígi við stórfossa, þá hætti ég mér út á ystu nöf.”

Að sögn Rúrí hefur verkið, „Útrýming II”, verið sýnt á nokkrum stöðum erlendis, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Verkið var gert 2006 en myndirnar voru teknar 2002. „Á sýningunni Mega vott, sem var haldin í Hafnarborg árið 2006, sýndi ég þetta verk og fleiri sem öll báru titilinn „Útrýming” og númerin I, II eða III, en þar fjallaði ég annars vegar um fjallavötn sem eru að hverfa og hins vegar um stríðsátökin í fyrrum Júgóslavíu. Því miður minna þau verk allt of mikið á það sem er að gerast í heiminum í dag, bæði í Úkraínu og Palestínu. Verkin fjalla um tvær tegundir af útrýmingu, annars vegar á mannfólki og hins vegar á náttúru en ég hef oft fjallað um það sem tvær hliðar á sama fyrirbærinu, það er að segja ofbeldi gegn mannfólk og ofbeldi gegn náttúrunni,” segir hún. Spurð að því hvað hún eigi við með þessu segir Rúrí: „Vatnið er okkur svo mikilvægt því það þrífst ekki líf nema fyrir vatn en skorturinn á jörðinni er gríðarlegur. Það eru milljónir manna sem þjást fyrir skort á neysluvatni og vatni til akuryrkju og þar af leiðandi lífsviðurvæði. Við getum talað um fyrirtækin Coca Cola eða Nestlé sem hafa keypt upp jarðsvæði víða um heim þar sem eru vatnslindir og meinað íbúunum aðgang að vatninu í kjölfarið, sem hefur orðið til að þess að akuryrkja hefur orðið ógerleg fyrir heimamenn og þeir flosnað upp og lent á flótta. Ég tel þetta vera ofbeldi. Það er mjög erfitt að lesa lýsingar á því þegar Coca Cola kaupir upp jarðir og jarðsvæði í Asíu og dælir síðan skaðlega úrganginum frá framleiðslu yfir í nálæg svæði. Það er ekki nóg með að vatninu sé rænt frá heimamönnum heldur er líka eitrað út frá þessari vinnslu þannig að þetta hefur margföld skaðleg áhrif. Því miður er þetta ofbeldismynstur allt of sterkt hjá mannkyninu.”

Listin getur haft áhrif

Verkið „Útrýming II” er að hluta til unnið úr sama myndefni og verkið sem hún vann fyrir Feneyjartvíæringinn árið 2003, „Archive – endangered waters”. Rúrí segir að oft hafi verið óskað eftir viðtölum við hana á hátíðinni, nokkrir höfðu orð á því að það væri hægt að segja að dýrategundir væri í útrýmingarhættu en ekki vötn. „Ég sagði að víst væri hægt að tala um það því vötn væru raunverulega í hættu,” segir Rúrí og heldur áfram: „Fram til ársins 2005 þá var það þannig að ef maður leitaði á vefnum að „endangered waters” þá kom eingöngu upp listaverkið „Archive – endangered waters” en ef þú flettir því upp í dag þá þori ég að veðja að það koma upp þúsund síður um vatn og vötn sem eru í hættu, ástand vatnsforða jarðarinnar og aðgengi fólks að vatni á mismunandi stöðum heimskringlunnar. Segjum svo að listin hafi ekki áhrif.”

Innt eftir því hvort henni þyki mikilvægt að list sé pólitísk stendur ekki á svari. „Fyrir mér er mikilvægt að list hafi meiningu. Pólitík er allt of þröngt skilgreint orð á Íslandi, yfirleitt er fólk að tala um flokkapólitík. Pólitík er miklu stærra orð. Pólitík nær utan um allt sem snertir samfélag manna þannig að ég tel mjög æskilegt að list sé pólitísk, en það er ekki skilyrði, því það eru margir aðrir fletir tilverunnar sem heilla aðra listamenn.”

Að sögn Rúrí er nóg á döfinni. „Nú er ég að vinna að verki í samsýningu á Hornafirði sem heitir Nr. 5 Umhverfing og er hún fimmta listasýningin í seríu sem Akademía skynjunarinnar stendur að. Einnig er ég að undirbúa útgáfu bókar og gerð útiverks í Portúgal í tengslum við safn þar,” segir hún að lokum.

Jóna Gréta Hilmarsdóttir
jonagreta@mbl.is

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir