Gala „Lokatónleikarnir voru glæsilegir; óperugala eins og það gerist best!” skrifar rýnir.
Gala „Lokatónleikarnir voru glæsilegir; óperugala eins og það gerist best!” skrifar rýnir. — Ljósmynd/Francisco Javier Jáuregui
Tónlist: Donizetti, Bellini, Rakhmanínov, Offenbach, Bizet, Wagner, Bernstein, Puccini og Mozart. Texti: Ýmsir. Flytjendur: Herdís Anna Jónasdóttir (sópran), Margrét Hrafnsdóttir (sópran), Hildigunnur Einarsdóttir (mezzósópran), Sveinn Dúa Hjörleifsson (tenór), Tómas Tómasson (bassi) og Einar Bjartur Egilsson (píanó). Tónleikar á Sönghátíð í Hafnarborg sunnudaginn 30. júní 2024.

Tónlist
Magnús Lyngdal Magnússon

Hafnarborg

Óperugala **** 1/2 [fjórar og hálf stjarna]

Sönghátíð í Hafnarborg, sem lauk sunnudaginn 30. júní síðastliðinn, var nú haldin í áttunda skipti. Boðið var upp á alls átta tónleika auk ýmiss konar námskeiða en hátíðin hlaut einmitt Íslensku tónlistarverðlaunin sem Tónlistarhátíð ársins 2020 og hefur nú fest sig rækilega í sessi sem vinsæl sumartónlistarhátíð. Lokatónleikarnir voru glæsilegir; óperugala eins og það gerist best!

Það voru þau Herdís Anna Jónasdóttir (sópran) og Sveinn Dúa Hjörleifsson (tenór) sem riðu á vaðið og sungu dúett Norinu og Ernesto úr gamanóperunni Don Pasquale eftir Gaetano Donizetti (1797-1848), „Tornami a dir che m’ami”. Donizetti samdi 75 óperur um ævina, stundum í metratali, en það sem stendur upp úr er virkilega gott. Þar á meðal Don Pasquale en flutningur þeirra Herdísar Önnu og Sveins Dúa var bæði ljóðrænn og smekklegur og raddirnar blönduðust einstaklega vel, enda um það bil jafn stórar.

Næst heyrðum við dúettinn „Sì, fuggire” úr I Capuleti e I Montecchi eftir Vincenzo Bellini (1801-1835) en þar voru þær Hildigunnur Einarsdóttir (mezzósópran) og Margrét Hrafnsdóttir (sópran) í hlutverkum elskendanna, Rómeó og Júlíu. Bellini var auðvitað meistari laglínunnar og flutningur var glæsilegur, þó að raddirnar hafi verið mun stærri en í fyrsta atriðinu. Báðar sýndu þær Hildigunnur og Margrét að þær hafa hins vegar mikla stjórn á röddum sínum og geta þannig skalað þær til, enda alltaf spurning hvað salur eins og Hafnarborg ber.

Íslendingar hafa beðið í ein 16 ár eftir að heyra bassasöngvarann Tómas Tómasson syngja aftur hér heima. Hann steig á svið með aríu Alekos, „Ves’ tabar spit” úr samnefndri óperu eftir Sergej Rakhmanínov (1873-1943). Sannast sagna var biðin þess virði, enda flutningurinn hjá Tómasi framúrskarandi og hann átti alls kostar við aríuna. Fókusinn í röddinni var skýr auk þess sem hún hafði mikla fyllingu. Bravó!

Sveinn Dúa söng (Hoffmann) næst fyrir tónleikagesti frásögnina af Litla-Zack úr Ævintýrum Hoffmanns eftir Jacques Offenbach (1819-1880). Hann gerði það vel og lék skemmtilega. Röddin er ekki stór en ákaflega lýrísk og Sveinn Dúa kann að beita henni sem best. Hins vegar verð ég að gera athugasemd við að syngja aríuna á þýsku! Hún er samin á frönsku og það ætti að syngja hana á því máli. Þetta er hins vegar bitamunur, ekki fjár.

Hildigunnur brá sér næst í hlutverk Carmenar úr samnefndri óperu eftir Georges Bizet (1838-1875) og dró spil í aríunni „En vain pour éviter”. Hildigunnur hefur ákaflega fallega og dökka mezzósópranrödd og söng til að mynda orðin „Carreau, pique ... la mort!” í upphafi með nánast svörtum tónum. Þær Herdís Anna og Margrét bættust svo við í lokin (Mercedes og Frasquita) og flutningurinn var prýðilegur og vel leikinn.

Síðasta atriðið fyrir hlé var svo dúettinn frægi, „Au fond du temple saint” úr Perluköfurunum eftir Bizet sem er langþekktasta atriðið úr þessari óperu (ásamt aríunni „Je crois entendre encore”). Hér kom hins vegar stærðin á röddum þeirra Sveins Dúa (Nadir) og Tómasar (Zurga) bersýnilega í ljós. Atriðið var vissulega fallega sungið en jafnvægið milli raddanna var, skiljanlega, minna en best verður á kosið.

Eftir hlé hófust leikar á Richard Wagner (1813-1883), það er að segja á tveimur atriðum úr óperunni Hollendingnum fljúgandi. Sveinn Dúa söng aríu stýrimannsins glæsilega og röddin smellpassaði í hlutverkið (hún er því miður oft sungin af of stórum röddum). Þá var dúett Hollendingsins og Sentu, „Wie as der Ferne” frábærlega fluttur hjá þeim Tómasi og Margréti (þó að enn og aftur sé alltaf spurning hvað salurinn í Hafnarborg þolir af krafti).

Flugeldasýningin hjá Herdísi Önnu í aríunni „Glitter and be Gay” úr Birtingi eftir Leonard Bernstein (1918-1990) var mikil (enda fer hlutverkið langt upp fyrir háa C-ið á köflum) og enn á ný einkenndist flutningurinn af skemmtilegu látbragði. Lýrísk rödd Herdísar Önnu er kannski ekki stór, en það skortir ekkert á hæðina.

Dramatísk rödd Margrétar naut sín vel í aríu Turandot, „In questa reggia” úr samnefndri óperu eftir Giacomo Puccini (1858-1924). Flutningurinn var vel upp byggður og háa C-ið steinlá (það vantaði bara Calàf í lokin). Þykktin á röddinni hjá Margréti er mikil en hún hefur góða stjórn á blæbrigðum hennar. Brava!

Aftur heyrðum við skemmtilegan dúett úr Birtingi Bernsteins, „We are Women” í flutningi þeirra Herdísar Önnu og Hildigunnar áður en öllu lauk á hópatriði (lokakórnum) úr Töfraflautunni eftir Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791). „Hinn sigrandi kraftur” sveif yfir vötnunum í glæsilegum flutningi.

Ég vil ekki skorast undan því að hrósa Einari Bjarti Egilssyni sérstaklega sem lék með á píanóið, alltaf af smekkvísi (þó að hann hefði kannski mátt vera ívið grófari í bæði Rakhmanínov og Wagner).

Lokatónleikar Sönghátíðar í Hafnarborg voru hin mesta skemmtun og ekki á hverjum degi sem áhorfendur fá að heyra jafn fjölbreytta efnisskrá, allt frá bel canto til Bernsteins með glæsilegum stoppum í bæði Wagner og Puccini.

Brava tutti!

Höf.: Magnús Lyngdal Magnússon