Drjúgur. Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur lagt sitt af mörkum til að rétta við gengi KA eftir erfiða byrjun.
Drjúgur. Hallgrímur Mar Steingrímsson hefur lagt sitt af mörkum til að rétta við gengi KA eftir erfiða byrjun. — Mogunblaðið/Eyþór
„Bikarsigurinn á Fram gæti verið augnablikið þar sem við réttum skipið af,” segir KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson sem er leikmaður mánaðarins í Bestu deild karla í fótbolta hjá Morgunblaðinu en valið er byggt á einkunnagjöf blaðsins, M-gjöfinni.

„Bikarsigurinn á Fram gæti verið augnablikið þar sem við réttum skipið af,” segir KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson sem er leikmaður mánaðarins í Bestu deild karla í fótbolta hjá Morgunblaðinu en valið er byggt á einkunnagjöf blaðsins, M-gjöfinni.

KA tapaði tveimur leikjum í Bestu deildinni í júní og vann tvo en að auki vann liðið Fram sannfærandi í átta liða úrslitum bikarkeppninnar. Hallgrímur var ánægður með spilamennsku KA-liðsins í júnímánuði og finnst liðið hafa rétt úr kútnum eftir erfiða byrjun á tímabilinu.

„Við vorum fannst mér betri í öllum þessum leikjum fyrir utan Blikaleikinn sem mér fannst vera jafn, en á köflum fannst mér við vera með yfirburði þrátt fyrir tapið. En í hinum leikjunum vorum við betri en töpuðum fyrir ÍA á svekkjandi hátt.”

Bull á móti Skaganum

KA tapaði 3:2 fyrir ÍA á heimavelli í spennandi leik 1. júní og sat þá í ellefta sæti deildarinnar með fimm stig. KA menn voru ósáttir við vítaspyrnudóm í stöðunni 2:2 en úr spyrnunni skoraði Arnór Smárason sigurmark ÍA.

Skömmu áður gerði KA tilkall til vítaspyrnu fyrir, að mati Hallgríms Jónassonar þjálfara liðsins í samtali við mbl.is eftir leik, sambærilegt atvik. KA-menn höfðu fengið á sig 23 mörk í níu leikjum á þeim tímapunkti í deildinni og litu alls ekki vel út.

„Það var fínt að fá frí eftir þetta bull á móti Skaganum, það kom tveggja vikna landsleikjafrí frá leikjum og við fengum fimm daga frí frá æfingum þar sem menn fóru í frí og hreinsuðu hausinn. Það var ekki komið inn í hausinn á mér persónulega og ég held að það hafi ekki truflað liðið heldur en eftir fríið finnst mér við líkari því sem við höfum sýnt undanfarin ár. Liðsheildin er orðin sterkari og við erum farnir að vilja og þora að vinna leiki núna.”

Vatnaskil gegn Fram

Hallgrímur skoraði þriðja mark KA í 3:0-sigri á Frömurum í bikarkeppninni sem fleytti KA í undanúrslit bikarkeppninnar. Sá leikur markaði vatnaskil á tímabilinu að mati Hallgríms en liðið hélt marki sínu hreinu í fyrsta skipti í sumar og spilaði vel. Í framhaldi af því slógu KA-menn Val út í undanúrslitunum á þriðjudagskvöldið, 3:2, og eru komnir í bikarúrslit.

„Bikarsigurinn á Fram gæti verið augnablikið þar sem við réttum skipið af. Við unnum þá sannfærandi í bikarnum og þegar við mættumst í deildinni mættu þeir þéttir til baka og beittu skyndisóknum. Það var erfitt að brjóta þá niður. Sem betur fer erum við með gæðaleikmenn eins og Danna (Daníel Hafsteinsson) sem kemur inn eftir meiðsli og tryggir okkur sigurinn með tveimur frábærum mörkum.”

Besti framherji deildarinnar

Viðar Örn Kjartansson gekk til liðs við KA í lok mars og miklar vonir voru bundnar við framherjann enda hefur hann raðað inn mörkum víða um heim undanfarinn áratug. Viðar hefur spilað ellefu leiki fyrir KA en aðeins einn í byrjunarliði og á enn eftir að skora sitt fyrsta mark fyrir félagið. Mikið hefur verið rætt og ritað um stöðu Viðars Arnar í KA en Hallgrímur Mar segir umræðuna um Viðar ekki hafa truflað KA-menn.

„Nei við hugsum sem minnst um það. Viðar er besti framherjinn í þessari deild þegar hann er í formi og vonandi nær hann að komast í toppform sem fyrst og það mun nýtast okkur seinni hlutann á tímabilinu.”

Trúin alltaf til staðar

Sigur KA á HK í síðustu umferð lyfti norðanmönnum upp fyrir Vestra og úr fallsæti í fyrsta skipti síðan í fimmtu umferð. KA endaði í sjöunda sæti á síðustu leiktíð en góður árangur í bikar- og Evrópukeppni hafði sitt að segja um árangur liðsins. Hallgrímur segist ekki hafa einbeitt sér of mikið að mögulegri fallbaráttu eða stöðunni í deildinni þrátt fyrir erfitt gengi framan af sumri.

„Þó að ég hafi ekki verið að farinn að stressa mig á að falla og þótt við séum enn í fallbaráttu þá var trúin alltaf til staðar í liðinu og andinn ekki á þá leið að við værum á botninum. En það er vissulega léttir að vera kominn úr fallsæti, það er leiðinlegt að horfa á töfluna þegar maður er í fallsæti en það er skárra að kíkja á hana núna.”

Mikil trú á hópnum

Hallgrímur stefnir hátt og segir liðið nægilega sterkt til að gera atlögu að baráttunni um sæti í efri hluta deildarinnar fyrir tvískiptingu eftir 22 leiki.

„Ég hef það mikla trú á þessum hópi að ég trúi að við getum farið hærra í töflunni. Það er nóg eftir af stigum í pottinum og miðað við hvernig við erum að spila þessa dagana þá stefni ég persónulega á að liðið verði í efri hlutanum þegar úrslitakeppnin hefst. Það má þó ekki gleyma því hvað það er sterkt fyrir KA að hafa fest sig í sessi í efstu deild sem er mjög erfitt fyrir lið utan af landi.”

Haraldur Hróðmarsson
haraldurarni@mbl.is

Höf.: Haraldur Hróðmarsson