[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri karlaliðs Manchester United, hefur skrifað undir nýjan samning við enska félagið sem gildir til loka tímabilsins 2025-’26.

Erik ten Hag , knattspyrnustjóri karlaliðs Manchester United, hefur skrifað undir nýjan samning við enska félagið sem gildir til loka tímabilsins 2025-’26. Hollendingurinn var með samning til sumarsins 2025 en samþykkti að framlengja til eins árs. Ten Hag tók við stjórnartaumunum hjá Man. United árið 2022 og vann enska deildabikarinn á sínu fyrsta tímabili og ensku bikarkeppnina á síðasta tímabili.

ÍR fór upp fyrir Aftureldingu þegar liðið skellti Mosfellingum, 3:0, í Breiðholtinu. ÍR er með 16 stig en Afturelding með 14. Þór vann þá langþráðan heimasigur þegar Akureyrarliðið sigraði Gróttu á heimavelli, 3:0. Þór er í sjöunda sæti með 13 stig en Grótta er í tíunda með 10.

Topplið Fjölnis gerði markalaust jafntefli við Keflavík í 11. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Fjölnir er á toppnum með 24 stig en Keflavík er í 8. sæti með 12 stig. Adam Árni Róbertsson skoraði sigurmarkið þegar Grindavík vann útisigur á Njarðvík, 1:0, og komst í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig en Njarðvík er í öðru sæti með 20.

Enski táningurinn Oliver Bearman verður nýr ökumaður hjá liði Haas í Formúlu 1 kappakstrinum á næsta tímabili. Bearman skrifaði undir langtímasamning við Haas. Hann er aðeins 19 ára gamall og hefur verið varaökumaður fyrir bæði Ferrari og Haas á yfirstandandi tímabili. Bearman tók þátt í sínum fyrsta kappakstri í Formúlu 1 í Sádi-Arabíu í mars síðastliðnum þegar hann hljóp í skarðið fyrir Carlos Sainz hjá Ferrari.

Tveir leikir fóru fram í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á miðvikudagskvöld. FH vann Þór/KA á Akureyri 1:0 þar sem Ída Marín Hermannsdóttir skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 40. mínútu. Í þeim leik fengu eftirfarandi leikmenn M í M-gjöf Morgunblaðsins: Shelby Money , Agnes Birta Stefánsdóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir hjá Þór/KA og Ída Marín, Aldís Guðlaugsdóttir , Halla Helgadóttir , Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir hjá FH. Dómarinn Sigurður Hjörtur Þrastarson fékk 7 í einkunn og áhorfendur voru 137.

Valur lagði þá Þrótt úr Reykjavík, 1:0, á Hlíðarenda. Hin 16 ára gamla Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði sigurmarkið í blálokin. Í leiknum fengu eftirtaldir leikmenn M: Ragnheiður Þórunn, Fanney Inga Birkisdóttir , Anna Rakel Pétursdóttir , Ísabella Sara Tryggvadóttir og Berglind Rós Ágústsdóttir hjá Val og Caroline Murray , Leah Pais , Sæunn Björnsdóttir og Freyja Karín Þorvarðardóttir hjá Þrótti. Dómarinn Gunnar Freyr Róbertsson fékk 4 í einkunn og áhorfendur voru 200.

Þýska handknattleiksfélagið Kiel hefur samið við þýska landsliðsmarkvörðinn Andreas Wolff um að leika með liðinu til loka tímabilsins 2027-’28. Wolff kemur frá pólska félaginu Kielce, þar sem hann lék frá árinu 2019. Áður lék Wolff með Kiel frá 2016 til 2019.