Hallgrímur Mar Steingrímsson, sóknarmaður KA, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í júnímánuði, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Hallgrímur Mar Steingrímsson, sóknarmaður KA, var besti leikmaður Bestu deildar karla í fótbolta í júnímánuði, samkvæmt einkunnagjöf Morgunblaðsins.

Hallgrímur fékk fjögur M í fjórum leikjum KA-manna í júní, í umferðum níu til tólf, og er kominn með samtals sex M á tímabilinu en hann missti af fyrstu fjórum leikjum KA í deildinni í vor og hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu sjö leikjum.

Fjórir aðrir leikmenn í deildinni fengu fjögur M í júnímánuði, Valsmennirnir Jónatan Ingi Jónsson, Patrick Pedersen og Tryggvi Hrafn Haraldsson og Framarinn Fred Saraiva.

Rétt er að taka fram að leikur Víkings og Fram sem var leikinn 30. júní er talinn með júlímánuði þar sem hann tilheyrir 13. umferðinni.

Þó Hallgrímur hafi misst af fyrstu umferðunum er hann næstefstur KA-manna í M-gjöfinni, á eftir Sveini Margeiri Haukssyni sem er með sjö M.

Jónatan Ingi úr Val er efstur allra í M-gjöfinni í heild sinni en hann hefur samtals fengið 12 M á tímabilinu. Viktor Karl Einarsson úr Breiðabliki og Viktor Jónsson úr ÍA eru í öðru og þriðja sæti með 10 M samtals hvor.

Valsmennirnir Jónatan Ingi og Patrick eru í liði mánaðarins annan mánuðinn í röð en auk þeirra hefur Danijel Dejan Djuric úr Víkingi verið tvisvar í liðinu á þremur fyrstu mánuðunum. Hann var í byrjunarliðinu bæði í apríl og maí.

Viktor Jónsson, framherji Skagamanna, er hins vegar eini leikmaðurinn sem er í hópnum alla þrjá mánuðina en hann var úrvalsliðinu í apríl og síðan varamaður í liðinu í maí og aftur núna í júní.

Viktor Karl Einarsson úr Breiðabliki, Gunnar Vatnhamar úr Víkingi og Árni Marinó Einarsson, markvörður ÍA, sem allir eru varamenn í júníliðinu, hafa áður verið í byrjunarliði mánaðar á tímabilinu.

Þá er Kjartan Kári Halldórsson úr FH varamaður í liði mánaðar í annað skipti í ár.

Víkingar með 25 M

Víkingar voru sterkasta lið deildarinnar í júní samkvæmt M-gjöfinni en þeir fengu samtals 25 M í fjórum leikjum. Valsmenn voru á hælum þeirra með 24 M, FH fékk 21, ÍA 20, KR 19, Fram 19, KA 18, Breiðablik 17, HK 16, Fylkir 15, Vestri 12 og Stjarnan rak lestina með 11 M samtals.

Einkunnagjöf Morgunblaðsins er á þá leið að leikmenn fá eitt M þegar þeir eiga góðan leik að mati Morgunblaðsins og mbl.is, en sá sem lýsir leik á mbl.is á hverjum leikstað fyrir sig gefur einkunnir fyrir viðkomandi leik. Leikmenn fá eitt M þegar þeir eiga góðan leik, tvö M þegar þeir eiga mjög góðan leik og þrjú M þegar þeir eiga frábæran leik.

Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is

Höf.: Víðir Sigurðsson