Steinn Jónsson
Steinn Jónsson
En hvað mun gerast í varnar- og öryggismálum ef Trump verður endurkjörinn forseti Bandaríkjanna?

Steinn Jónsson

Þann 6. júní var þess minnst í Frakklandi að 80 ár voru liðin frá innrás Vesturveldanna í Normandí. Bandaríkjamenn, Bretar, Frakkar, Kanadamenn og fleiri þjóðir tóku þátt í innrásinni sem var upphafið að endanlegum sigri á nasistum sem höfðu ógnað frelsi, lýðræði og vestrænni siðmenningu. Áður höfðu Rússar snúið vörn í sókn á austurvígstöðvunum og fært miklar fórnir í grimmilegasta og mannskæðasta hernaði í veraldarsögunni.

Þessar minningarathafnir fóru fram í skugga innrásarstríðs einræðisherrans Pútíns gegn Úkraínu sem hefur nú staðið í meira en tvö ár og valdið miklum hörmungum. Stríð Pútíns er háð í því skyni að koma í veg fyrir að Úkraína, sem er sjálfstætt ríki, nái að tengjast Vesturlöndum í pólitísku og efnahagslegu tilliti. Úkraínumenn hafa gert það sem engum fannst líklegt í upphafi; að standast Rússum snúning á vígvellinum. Þeir eru að verja heimaland sitt. Það hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með staðfestu Úkraínumanna undir forystu Selenskís forseta með stuðningi NATO og þá aðallega Bandaríkjanna.

Blikur hafa þó verið á lofti varðandi þennan stuðning vegna afstöðu repúblikana í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Þeir hindruðu afgreiðslu stuðningsfrumvarps við Úkraínu í sex mánuði. En hvers vegna þetta hik? Ætla má að það eigi rætur að rekja til þrýstings frá væntanlegum forsetaframbjóðanda þeirra, Donald Trump, sem margoft hefur látið í ljós efasemdir í málinu og neikvæða afstöðu til NATO. Vitað er að margir þingmenn repúblikana hreyfa hvorki legg né lið án þess að hugleiða hvernig það kunni að virka á Trump.

En hvað mun gerast í varnar- og öryggismálum ef Trump verður endurkjörinn forseti Bandaríkjanna? Eitt af hans helstu kjörorðum er hið gamla kjörorð einangrunarsinna fyrir seinni heimsstyrjöldina „Ameríka fyrst“. Þetta voru fjölmenn samtök sem höfðu mikil áhrif til að koma í veg fyrir þátttöku í stríðinu. Það var aðeins fyrir lagni og sannfæringarkraft Franklins D. Roosevelts forseta sem tókst að lokum að fá þingið til að samþykkja stuðning við Breta og Rússa sem einir báru hitann og þungann af baráttu við nasista þar til í árslok 1941. Charles Lindberg flugkappi stóð framarlega í samtökum einangrunarsinna og hlaut fyrir vikið æðsta heiðursmerki þýska flughersins úr hendi Hermanns Görings flugmarskálks haustið 1938. Þetta er dökkt ský yfir annars glæstum ferli þessa merka frumherja í flugi.

En snúum aftur að 6. júní og virðingu fyrir þeim sem hafa varið lýðræði og frelsi í heiminum. Þegar fjallað hefur verið um hermenn Bandaríkjanna sem barist hafa og fórnað lífi sínu fyrir land sitt hefur Trump gerst sekur um ótrúleg ummæli. Hann hefur miskunnarlaust gert lítið úr afrekum og fórnum þessara manna og hæðst að þeim. Besta dæmið er þegar hann kallaði John McCain fyrrverandi öldungadeildarþingmann, sem tekinn var til fanga og pyntaður í fangabúðum í Víetnam og nú er látinn, „loser“. Þá gerði hann sér far um það meðan hann var forseti að vingast við Pútín og Kim Jong Un leiðtoga Norður-Kóreu en þeir voru ásamt leiðtogum Írans á sínum tíma með góðum rökum kallaðir „öxull hins illa“. Þannig hefur Trump vanvirt minningu látinna hermanna með óafsakanlegum hætti og hótað að draga Bandaríkin út úr NATO. Nú segist hann ætla að leysa Úkraínustríðið áður en hann kemst til valda, væntanlega með því að fallast á allar kröfur Pútíns. Skiptir þá engu máli fyrir hann að það er ólöglegt fyrir væntanlegan forseta að skipta sér af utanríkismálum áður en hann tekur við.

Það er mikið umhugsunarefni eftir embættisfærslur Trumps og með hliðsjón af málflutningi hans og árásinni á þinghúsið 6. janúar 2021 að það skuli vera raunveruleg hætta á því að hann verði endurkjörinn. Mér þykir líklegt að allir merkustu forsetar repúblikana, Abraham Lincoln, Theodore Roosevelt, Ronald Reagan og jafnvel Richard Nixon, hafi snúið sér við í gröfinni við árásina á þinghúsið. Ef það slys verður að Trump verði endurkjörinn geta menn ekki annað en vonað að jafn lítið verði að marka hans ummæli í öryggis- og varnarmálum og margt annað sem hann segir. Þannig er þó sem betur fer að í Bandaríkjunum ræður forsetinn ekki öllu og ef forsetinn hefur ekki meirihluta í báðum deildum þingsins getur þingið takmarkað völd forsetans. Þetta hafa menn vestra kallað vísdóm kjósenda.

Það er ekki vænlegt fyrir forysturíki vestrænna þjóða að valið um forseta Bandaríkjanna skuli snúast um annaðhvort siðlausan lygara eða gamalmenni sem er farið að missa minnið. Þessi staða gæti í versta falli bent til þess að hnignun þessa heimsveldis sé hafin. Bandaríkin hafa gert mörg mistök, sérstaklega í utanríkismálum, en réðu úrslitum í baráttunni gegn einræðisöflum í seinni heimsstyrjöldinni og við stofnun Sameinuðu þjóðanna og NATO og það verður ekki af þeim tekið. Þá endurreisti Marshall-aðstoðin Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld og hefði mátt ná lengra austur. Ef Trump fær að ráða gæti Evrópa staðið ein gegn Vladimír Pútín sem hótar kjarnorkustríði og vill aftur gera Rússland að heimsveldi. Það yrði ekki vænleg staða fyrir Vesturlönd.

Höfundur er læknir, emeritus prófessor í lyflækningum og lungnasjúkdómum.

Höf.: Steinn Jónsson