Vínbúðin Nokkuð minni sala á áfengi í ár en á sama tíma í fyrra.
Vínbúðin Nokkuð minni sala á áfengi í ár en á sama tíma í fyrra. — Morgunblaðið/Unnur Karen
Alls seldust 10,7 milljónir lítra af áfengi í verslunum ÁTVR fyrstu sex mánuði ársins. Það er nokkuð minna en á sama tíma í fyrra. Þá hafði selst 11,1 milljón lítra. Nemur samdrátturinn 3,6% milli ára

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Alls seldust 10,7 milljónir lítra af áfengi í verslunum ÁTVR fyrstu sex mánuði ársins. Það er nokkuð minna en á sama tíma í fyrra. Þá hafði selst 11,1 milljón lítra. Nemur samdrátturinn 3,6% milli ára. Árið 2022 seldust 11,3 milljónir lítra fyrstu sex mánuði ársins og nemur samdrátturinn yfir tveggja ára tímabil því 5,3%.

Sem kunnugt er hefur mikil umræða verið um tilkomu netverslana með áfengi og hafa matvöruverslanir boðað að þær ætli að blanda sér í slaginn á næstunni. Forvitnilegt verður að sjá hvort sú innkoma leiði til frekari samdráttar hjá ÁTVR en forstjóri fyrirtækisins, Ívar J. Arndal, lýsti því yfir í ársskýrslu þess að blikur væru á lofti í rekstrinum af þessum sökum meðal annars.

Rauðvínssala dróst saman

Mestur samdráttur í sölu í ár hefur verið í rauðvíni, tæp 9%. Þá hefur sala á ókrydduðu brennivíni og vodka og ýmsum bjórtegundum dregist saman um ríflega 6%. Samdráttur í sölu á lagerbjór nam 3% og hvítvínssala dróst saman um tæp 3%. Kampavínssala stóð í stað en sala á síderum og ávaxtavínum jókst um tæp 3%.