Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Víða um heim eru sérstök innanríkisráðuneyti. Sá ráðherra sem stýrir því er talinn vera fjórði í valdaröð meðal ráðherra.

Guðjón Jensson

Þegar bankahrunið varð haustið 2008 sýndu stjórnmálamenn mjög mismunandi viðbrögð við þeim vanda sem við blasti. Ríkisstjórn Geirs Haarde aðhafðist ekkert, nákvæmlega ekkert, til að forða landsmönnum frá þeim vanda sem allt í einu varð með skellinum mikla í upphafi októbermánaðar árið 2008. Eftir á að hyggja hefði sitthvað mátt gera til að draga úr þessum mikla vanda sem allt í einu varð og þorri landsmanna varð fyrir mjög miklu efnahagslegu tjóni.

Eitt af verkum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013 var að sameina nokkur ráðuneyti og átti það sinn þátt í að draga úr óþarfa eyðslu á vegum hins opinbera. Þannig var myndað sérstakt innanríkisráðuneyti eins og í öðrum löndum en með mun meira umfangi þar sem dómsmál, samgöngumál, byggðamál og ýmislegt fleira var sameinað undir eitt og sama ráðuneytið. Þetta reyndist vel og horfði til hagkvæmni.

Þegar þessi mikilvirka ríkisstjórn fór frá 2013 var eitt fyrsta verk þeirrar stjórnar sem við tók undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að fjölga ráðuneytum, m.a. til þess að koma á móts við valdaskiptingu stjórnmálaflokkanna sem oft hefur reynst snúin þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eiga hlut að ríkisstjórn. Var þá endurreist dómsmálaráðuneyti sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi viljað stjórna enda líta þeir svo á að þeir séu bestir og hæfastir til að sjá um það ráðuneyti. En þegar Sigurður Ingi tók við því sem eftir var af innanríkisráðuneytinu tók hann upp nýtt heiti þess og nefndi innviðaráðuneyti.

Á heimasíðu þess má lesa:

„Verkefni innviðaráðuneytisins ná til fjölmargra sviða þjóðfélagsins og varða meðal annars samgöngur, sveitarstjórnar- og byggðamál, grunnskrár, húsnæðis- og mannvirkjamál og skipulagsmál. Nýtt og öflugt innviðaráðuneyti tekst á við nýja tíma. Hlutverk þess er að líta eftir, upplýsa og leiða samfélagið til aukinna lífsgæða.“ Heimild: https://www.stjornarradid.is/raduneyti/innvidaraduneytid/um-raduneytid/

Hvað merkir orðið innviður eða öllu fremur fleirtala þess orðs? Innviðir eru máttarviðir bygginga, skipa o.s.frv. eða burðarásar félagssamtaka, heimild: Íslensk orðabók sem Mál og menning hefur gefið út í fjölda útgáfna. Þetta ráðuneyti hefði þess vegna mátt vera kennt við burðarviði: Burðarviðaráðuneyti.

Andstæða innviða eru eðlilega útviðir og þá hefði utanríkisráðuneytið átt að nefnast útviðaráðuneyti eftir hugmyndum formanns Framsóknaflokksins. Sem betur fer hefur Framsóknaflokkurinn ekki öðlast það tækifæri að stjórna því þannig að gamla heitinu hefur ekki verið breytt og verður vonandi svo.

Víða um heim eru sérstök innanríkisráðuneyti. Sá ráðherra sem stýrir því er talinn vera fjórði í valdaröð meðal ráðherra þar sem forsætisráðherra er n.k. verkstjóri ríkisstjórnarinnar og því æðsti ráðherrann. Í mörgum löndum nefnist hann premium minister enda eðlilega æðsta ráðuneyti sem hann veitir forstöðu. Þá kemur utanríkisráðherra sem er mjög mikilvægur vegna viðurkenningar annarra ríkja á viðkomandi ríkisstjórn og síðan fjármálaráðherra sem er æðsti yfirmaður ekki aðeins fjármála ríkisins heldur einnig æðsti yfirmaður skattamála, rannsókna á skattundanskotum o.s.frv. sem því miður fara fáar sögur af eftir bankahrunið.

Hvernig skyldi heitið innviðaráðuneyti koma heim og saman við skilning og viðhorf útlendinga? Þetta orð er ekki til þess fallið að auðvelda þeim skilning á íslenskunni sem talin er vera býsna flókið og erfitt tungumál sem mörgum þykir nógu erfitt. Að þýða innviðaráðuneyti yfir á erlend tungumál er sjálfsagt ekki heldur auðvelt.

Nú þegar Sigurður Ingi er ekki lengur ráðherra þessa ráðuneytis heldur kominn ofar í goggunarröðina sem fjármálaráðherra þá væri óskandi að nýorðinn ráðherra þessa málaflokks, skörungurinn Svandís Svavarsdóttir, breytti nafni ráðuneytisins og tæki aftur upp fyrra nafn þess, innanríkisráðuneyti. Það nafn er mun þjálla og á ekki að valda neinum óþarfa misskilningi.

Hver reynslan verður af Sigurði Inga í fjármálaráðuneytinu skal ósagt látið en við Íslendingar höfum haft fremur slæma reynslu af dýralæknum sem tekið hafa við völdum í þessu ráðuneyti. Árni Mathiesen, sem var fjármálaráðherra í bankahrunsstjórn Geirs Haarde, er einnig menntaður sem dýralæknir eins og Sigurður Ingi. Sporin hræða.

Höfundur er rithöfundur, leiðsögumaður og eldri borgari í Mosfellsbæ.

Höf.: Guðjón Jensson