Einar og Alessandra „Alessandra er óvenjulegur píanisti, mér finnst mjög gaman að vinna með henni,“ segir Einar.
Einar og Alessandra „Alessandra er óvenjulegur píanisti, mér finnst mjög gaman að vinna með henni,“ segir Einar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Verkin sem við ætlum að flytja tóna vel við árstíðina, hásumarið sem nú ríkir. Þetta verður þó nokkuð rómantískt, við erum ekkert að berjast við rokið og gaddinn á þorranum, okkur finnst skemmtilegt að hafa þetta á ljúfu nótunum,“ segir …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Verkin sem við ætlum að flytja tóna vel við árstíðina, hásumarið sem nú ríkir. Þetta verður þó nokkuð rómantískt, við erum ekkert að berjast við rokið og gaddinn á þorranum, okkur finnst skemmtilegt að hafa þetta á ljúfu nótunum,“ segir Einar Jóhannesson klarinettuleikari, en hann og Alessandra Pompili píanóleikari verða með tónleika í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar á morgun þriðjudag. Tónleikarnir eru hluti af sumartónleikaröð safnsins og yfirskriftin er Draumur, saumur og dans.

„Draumurinn vísar í fyrsta verkið á efnisskránni hjá okkur, en það heitir Ich stand in dunklen Träumen, eða Ég var í dimmum draumi. Þetta er verk eftir tónskáldið Clöru Schumann, eiginkonu Roberts Schumann, en hún samdi gullfalleg sönglög og fyrrnefnt verk sem við hefjum tónleikana á, er mjög rómantískt draumakvæði, afar fallegt og hjartnæmt. Clöru, sem var fædd 1820, var ekki mikið hampað sem tónskáldi meðan hún var uppi, hún fékk oft að heyra að það væri ekki sæmandi að konur væru að skrifa tónlist. Hún var samt einn af stóru virtu píanósnillingum nítjándu aldarinnar, ásamt Liszt, Chopin og fleirum. Hún hafði alltaf þráð að semja tónlist og hún samdi heilan píanókonsert þegar hún var aðeins 13 ára.“

Gullfallegt og lýrískt

Einar segir að orðið saumur í yfirskrift tónleikanna sé vísun í nýtt verk, Bútasaum, sem John Speight skrifaði fyrir þau Alessöndru og þau ætli á tónleikunum á morgun að frumflytja á Íslandi, en þau frumfluttu verkið í London í vor.

„John Speight er búinn að skrifa heilmikið upp í túlann á mér í gegnum árin. Hann hefur skrifað miklu meira torf fyrir mig en Bútasaum, þetta verk kemur upp í faðminn á mér og er gullfallegt, mjög lýrískt. Alessandra bað John Speight um að hafa verkið helst ekki öfgalega nútímalegt, heldur frekar eitthvað rómantískt og fagurt, og það skilaði sér heldur betur. John Speight er mjög kær vinur og mér finnst vera eitthvert samtal eða falinn texti þarna á bak við laglínurnar.“

Náði ekki aldri Jesú Krists

Einar segir að þau Alessandra ætli líka að spila verk eftir góðan vin þeirra hjóna, Clöru Schumann og Roberts Schumann.

„Hann hét Norbert Burgmüller og var jafnaldri Schumann. Hann var mikið tónlistarefni og Schumann hafði mikið álit á honum, enda hjálpaði hann mörgum ungum tónskáldum, meðal annars Jóhannesi Brahms. Norbert Burgmüller náði ekki aldri Mozarts, Schuberts eða Jesú Krists, hann lést aðeins 26 ára, og fyrir vikið liggur lítið eftir hann. Þetta dúó eftir hann sem við ætlum að flytja, er lítill gullmoli,“ segir Einar og bætir við að eftir flutning þess verks flytji þau Alessandra verk John Speight, Bútasaum, sem brúi bilið yfir í nútímann, eða nýrri verk.

„Við ætlum til dæmis að frumflytja nú á Íslandi verk eftir seinni tíma tónskáldið, Thomas Pitfield, en hann lést árið 1999. Thomas er frá einum af þessum gömlu markaðsbæjum í kringum Manchester og hann var gríðarlega fjölhæfur. Hann var ekki aðeins tónskáld heldur líka sellisti, listmálari, rithöfundur, bókbindari, garðyrkjumaður og verkfræðingur. Allt tónar þetta vel við Alessöndru, hverrar áhugasvið er einnig mjög víðfeðmt. Efnisskrá tónleikanna okkar er því þó nokkuð forvitnileg og í lokin munum við leika ungverskan dans, og þar kemur vísunin í þriðja orðið í yfirskrift tónleikanna.“

Hefur opnað augu mín

Einar segir að hann og Alessandra hafi unnið saman í þó nokkuð mörg ár, eða á annan áratug.

„Hún er sá píanisti sem ég hef unnið mest með síðustu ár. Hún er fædd í Róm en býr í einni af útborgum Manchester. Við tvö höfum oft leikið fyrir tónlistarfélög á hennar heimaslóðum, í gamaldags tónlistarklúbbum, líkt og við eigum í Kammermúsíkklúbbnum hér á Íslandi. Alessandra er óvenjulegur píanisti því hún hefur, auk doktorsgráðu í píanónámi, lokið doktorsnámi í listasögu og fornleifafræði. Mér finnst mjög gaman að vinna með henni, hún er ekki bara með nefið ofan í píanóinu, heldur hugsar hún til annarra listgreina þegar hún vinnur í tónlist, rétt eins og ég. Hún hefur engan áhuga að spila verk sem allir eru alltaf að spila í klarinettubókmenntunum, og fyrir vikið hefur hún opnað augu mín fyrir annars konar verkum,“ segir Einar og bætir við að þau Alessandra hafi kynnst í gegnum sameiginlegan vin, píanistann Martin Berkofsky.

„Hann bjó lengi á Íslandi og var, rétt eins og Alessandra, mjög óvenjulegur píanisti sem fór ekki troðnar slóðir. Hann var vinur og lærisveinn armensk-bandaríska tónskáldsins, Alan Hovhannes, sem var afar óvanalegt tónskáld, í raun tónskáld alheimsins, því hann skrifaði út frá stjörnum himinsins og mystíkinni. Við Alessandra höfum oft leikið verk eftir hann, en við ákváðum að núna á sumartónleikunum passaði það ekki inn í prógrammið.“

Tónleikarnir hefjast kl. 20.30 á morgun þriðjudag í Listasafni Sigurjóns á Laugarnestanga í Reykjavík.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir