Kaplakriki Katrín Ásbjörnsdóttir í baráttu við Örnu Eiríksdóttur en Katrín skoraði tvívegis í sigri Breiðabliks á FH í gær.
Kaplakriki Katrín Ásbjörnsdóttir í baráttu við Örnu Eiríksdóttur en Katrín skoraði tvívegis í sigri Breiðabliks á FH í gær. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Breiðablik og Valur gefa ekkert eftir og unnu í gær bæði sinn ellefta sigur í fyrstu tólf umferðunum í Bestu deild kvenna. Þau eru því áfram hnífjöfn á toppnum, þar sem Blikar hafa undirtökin á markatölu, og eru áfram níu stigum á undan Þór/KA í þriðja sætinu

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Breiðablik og Valur gefa ekkert eftir og unnu í gær bæði sinn ellefta sigur í fyrstu tólf umferðunum í Bestu deild kvenna.

Þau eru því áfram hnífjöfn á toppnum, þar sem Blikar hafa undirtökin á markatölu, og eru áfram níu stigum á undan Þór/KA í þriðja sætinu.

Breiðablik sótti FH heim í Kaplakrika og vann öruggan sigur, 4:0, sem sýnir glögglega muninn á efsta og fjórða liði deildarinnar.

Birta Georgsdóttir skoraði fyrsta markið og krækti í vítaspyrnu og Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö síðari mörk Blikanna, það seinna í uppbótartíma leiksins. Katrín er hrokkin í gang með fimm mörk í fjórum síðustu leikjum og er komin með 90 mörk í efstu deild frá upphafi. Hún er 20. leikmaðurinn sem nær þeim markafjölda í sögunni.

Táningar Vals skoruðu

Valskonur þurftu að hafa talsvert fyrir því að sigra Víking í Fossvoginum í gær, 2:0. Þær skoruðu þó mörkin snemma eða á fyrstu 33 mínútunum. Táningarnir voru á skotskónum, Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði í öðrum leiknum í röð, með skalla eftir hornspyrnu Önnu Rakelar Pétursdóttur, og Ísabella Sara Tryggvadóttir skoraði á laglegan hátt eftir langa sendingu Katie Cousins fram völlinn.

Hulda fjögur og Sandra þrjú

Sandra María Jessen skoraði þrennu í annað sinn á tímabilinu þegar Þór/KA sigraði Þrótt, 4:2, í Laugardalnum í Reykjavík í gær. Hún gerði áður öll fjögur mörkin í sigurleik gegn FH í Kaplakrika í vor.

Hulda Ósk Jónsdóttir átti líka stórleik í gær, því hún lagði upp öll fjögur mörkin, tvö með fyrirgjöfum þar sem Sandra skallaði í netið, og tvö með stungusendingum á þær Söndru og Karenu Maríu Sigurgeirsdóttur. Þór/KA styrkti því stöðu sína í þriðja sæti með áttunda sigrinum í tólf leikjum en Þróttur dróst nær fallsætinu á ný.

Varði víti á Króknum

Erin McLeod, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Kanada, var hetja Stjörnunnar á Sauðárkróki. Hún varði vítaspyrnu frá Gwendolyn Mummert strax á 7. mínútu og leikurinn endaði 0:0 en Tindastóll var nær sigri.

Úrslitin halda báðum liðum á hættusvæðinu í neðri hluta deildarinnar.

Keflavík styrkti stöðuna

Keflavík vann botnslaginn gegn Fylki á heimavelli, 1:0, þar sem Eva Lind Daníelsdóttir skoraði sigurmarkið. Hennar fyrsta mark í efstu deild.

Keflavík er þar með aðeins stigi á eftir Þrótti í áttunda sætinu og hefur fengið öll sín níu stig með þremur 1:0-sigrum.

Vandræði Fylkis aukast enn en eftir ágæta byrjun í vor hafa nýliðarnir úr Árbænum fengið eitt stig í síðustu níu leikjum og skorað í þeim þrjú mörk.