Setesdalur Landeigandinn Oddbjörn segir frá fornleifauppgreftri á bænum. F.v. Oddbjörn Holum Heiland, Eyþór og Norðmennirnir sem hafa verið að grúska í sögunni, þeir Viðar Toreid og Hallvard Tveid Berg.
Setesdalur Landeigandinn Oddbjörn segir frá fornleifauppgreftri á bænum. F.v. Oddbjörn Holum Heiland, Eyþór og Norðmennirnir sem hafa verið að grúska í sögunni, þeir Viðar Toreid og Hallvard Tveid Berg. — Ljósmynd: Ingrid Kuhlman
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Núna er Landnámsskáli Hallvarðs súganda að klárast og við stefnum að því að opna hann formlega á vestfirska fornminjadeginum sem er 10. ágúst,“ segir Eyþór Eðvarðsson, formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar, en hann á ættir að rekja…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Núna er Landnámsskáli Hallvarðs súganda að klárast og við stefnum að því að opna hann formlega á vestfirska fornminjadeginum sem er 10. ágúst,“ segir Eyþór Eðvarðsson, formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar, en hann á ættir að rekja til Súgandafjarðar og reyndar til Noregs eins og Hallvarður súgandi landnámsmaður.

Það eru sex ár síðan Fornminjafélag Súgandafjarðar hóf byggingu landnámsskálans í botni Súgandafjarðar. Eyþór segir að skálinn sé tilgátuhús byggt á fornleifauppgreftri á Grélutóftum á Hrafnseyri í Arnarfirði, en tóftirnar eru kenndar við landnámskonuna Grelöðu Bjartmarsdóttur, konu Áns Rauðfelds sem nam land í Arnarfirði. Það var arkitektastofan Argos sem teiknaði upp skálann eftir þeim upplýsingum og verkið hófst sumarið 2019 í samstarfi við Kristínu Auði Kelddal skrúðgarðyrkjumeistara og Valdimar Elíasson smið.

Fór á heimaslóðir Hallvarðs

„Þetta verður sérstakt í ár því við erum búin að grafa upp hvaðan Hallvarður súgandi var í Noregi,“ segir Eyþór sem er núna í víking í gamla heimalandi landnámsmannsins, sem er ættaður frá Sætrum í Setesdal á Ögðum í Noregi, sem er langur dalur upp frá suðurströnd Noregs.

„Þetta er alveg stórmerkilegt, því ekki er nóg með að heimamenn í Setesdal könnuðust við Hallvarð súganda, heldur vissu þeir frá hvaða bæ hann var.“

Þar sem Eyþór er ættaður frá Súgandafirði ákvað hann að taka DNA-próf og þá kom í ljós að hann á að sjálfsögðu ættir að rekja til Setesdals eins og landnámsmaðurinn forni. „Ég eins og margir aðrir aðrir Íslendingar er tengdur inn á þetta svæði í Setesdal sem Hallvarður er sagður koma frá, og þannig tengist maður mörgu fólki frá þessu svæði í gegnum erfðaefnið.“

Eyþór segir að heimamenn í Setesdal séu búnir að grafa upp hvar staðurinn þar sem Hallvarður bjó nákvæmlega var. Bærinn virðist hafa verið á flatlendi sem stendur hátt í dalnum og með því að rekja aftur örnefnin og fleiri upplýsingar er bara þessi eini staður í dalnum sem kemur til greina. Ekki nóg með það, heldur er nýbúið að grafa upp stórar grafir á svæðinu frá víkingatíð og staðurinn virðist hafa verið höfðingjabýli og bar nafn dalsins.“

Eyþór segir að á vestfirska fornminjadeginum muni þessi saga verða rakin þegar landnámsskálinn verður opnaður laugardaginn 10. ágúst. „Við munum sýna skálann og það verður kveikt á langeldinum og setið á setunum eins og í gamla daga. Við viljum heiðra sagnamenningu þjóðarinnar með byggingu þessa skála og það er ótrúleg upplifun að vera þarna inni þar sem veggir eru tveggja metra breiðir og ekkert bergmál. Hér verða sagðar sögur eins og forðum og það er alveg magnað að hlusta á sögur við snarkið í eldinum og sjá skuggana sem varpast á veggina.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir