Í Þýskalandi Drífa við Linderhof-höll í Bæjaralandi.
Í Þýskalandi Drífa við Linderhof-höll í Bæjaralandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Drífa Jóna Sigfúsdóttir fæddist 8. júlí 1954 á Kirkjuvegi í Keflavík og síðan fluttu foreldrar hennar í hús sem þau byggðu að Hringbraut 69. „Foreldrar mínir voru dugnaðarforkar sem féll aldrei verk úr hendi

Drífa Jóna Sigfúsdóttir fæddist 8. júlí 1954 á Kirkjuvegi í Keflavík og síðan fluttu foreldrar hennar í hús sem þau byggðu að Hringbraut 69.

„Foreldrar mínir voru dugnaðarforkar sem féll aldrei verk úr hendi. Það voru mörg börn í hverju húsi og það var leikið sér úti alla daga. Mest spennandi var að klifra í hálfbyggðum húsum sem voru í næsta nágrenni. Við vorum átta á heimilinu og það var mikið spilað, teflt og smíðað og farið í brennó og fallin spýta.

Ég var fjögur sumur í sveit og var fyrst hjá yndislegu fólki á Fossi í Arnarfirði. Ég var lengi í skátunum, dansi og saumaklúbbum eins og ungar stúlkur voru á þessum árum. Ég kynntist eiginmanninum þegar við vorum 16 ára og ári seinna kom í ljós að von var á fjölgun hjá okkur svo við stofnuðum heimili og fengum lóð fyrir einbýlishús í Garðahverfi í Keflavík þar sem við búum enn.

Við gerðum flest sjálf. Við fórum á kvöldin og naglhreinsuðum, hlóðum veggi eða múruðum og ég múraði t.d. vegg sem er býsna réttur. Við fluttum inn í miðjuna á húsinu tíu dögum áður en við giftum okkur árið 1978.

Ég vann í verslunum og síðan nokkur ár á skrifstofu í Skipasmíðastöð Njarðvíkur og einnig í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ég lauk við stúdentsprófið frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja en það varð bið á frekari námi.

Ég varð óvænt formaður í Foreldra- og kennarafélagi Myllubakkaskóla 24 ára og þaðan varamaður í bæjarstjórn í eitt kjörtímabil en síðan var ég bæjarfulltrúi í 12 ár og þar af 8 ár forseti bæjarstjórnar og varabæjarstjóri. Ég tók virkan þátt í störfum innan Framsóknarflokksins, stjórn, miðstjórn, stjórn Landssambands framsóknarkvenna og var oddviti Framsóknarmanna í Keflavík og síðan Reykjanesbæ í 12 ár.“

Drífa tók virkan þátt í sameiningu bæjarins og skrifaði fyrstu bæjarmálasamþykktina og lörgreglusamþykktina fyrir Reykjanesbæ árið 1994, en hún var fyrsti forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar „Mér fannst gaman að því að taka þátt í uppbyggingu bæjarins.“

Drífa var fyrst kvenna til að sitja í stjórn Sparisjóðsins í Keflavík og eftir hrun var hún í stjórn Arion banka. Þá var hún formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, í stjórn Viðlagatryggingar, í stjórn Brunamálaskólans og í fagráði Brunamálaskólans. Hún var formaður samninganefndar um byggingu D-álmu við Heilbrigðissstofnun Suðurnesja og síðan í byggingarnefndinni.

„Ég vann mikið að jafnréttismálum m.a. með því að halda námskeið fyrir konur víða um land í ræðumennsku og fundarsköpum en einnig var ég í íslensku sendinefndinni á Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 1995.“ Hún var um tíma formaður Neytendasamtakanna og vann könnun með Sigrúnu Júlíusdóttur prófessor um viðhorf sveitarfélaga til fjölskyldna.

Eftir að Drífa hætti í bæjarmálum fór hún í Háskólann í Reykjavík og lauk B.S. prófi í viðskiptafræði 2002 og síðan meistaragráðu frá Háskóla Íslands í mannauðsstjórnun og hóf störf sem rekstrarstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ í sama mánuði.

„Ég var formaður í nefnd sem mótaði stefnu fyrir Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ. Áður hafði ég verið deildarstjóri fyrirtækjasviðs hjá Creditinfo og síðar leysti ég af forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í eitt ár og loks landamæravörður. En ég vann einnig sjálfstætt við ráðgjöf í mannauðsmálum og við stefnumótun.

Við hjónin höfum gaman af því að ferðast bæði hér heima og erlendis. Ég er mjög hrifin af norðurhluta Ítalíu og suðurhluta Þýskalands og þangað förum við oft. Ég hef alltaf lesið mikið og hef yndi af því að laga mat en vil helst ekki borða oft það sama. Ég hitti barnabörnin oft og hef gaman af því að fikta við að mála myndir. Í dag er ég hætt að vinna en ég er stuðningsforeldri tveggja drengja og varaformaður Landssambands eldri borgara.“

Fjölskylda

Eiginmaður Drífu er Óskar Karlsson, smiður og varðstjóri hjá Slökkviliðinu á Keflavíkurflugvelli, f. 6.7. 1954. Foreldrar Óskars voru hjónin Karl Ögmundsson, smiður, f. 8.3. 1912, d. 19.10. 1993, og Guðbjörg Kristjana Guðmundsdóttir Waage, húsfreyja, f. 31.12. 1918, d. 16.3. 2004. Þau bjuggu lengst af í Ytri-Njarðvík.

Börn Drífu og Óskars eru 1) Daníel, f. 17.10. 1972, lífupplýsingafræðingur, býr í Reykjavík, dóttir hans er Nína Rós; 2) Rakel Dögg Óskarsdóttir, kennari, f. 8.5. 1980, gift Auðuni Baldvinssyni, f. 9.6. 1972. Börn þeirra eru Guðbjörg Elva Dís, Lúkas Garpur og Mjölnir Þór. Þau búa í Reykjavík. 3) Kári Örn Óskarsson, f. 28.7. 1982, flugumferðarstjóri, kvæntur Guðrúnu Örnu Ásgeirsdóttur f. 12.2. 1983, börn þeirra Vignir Freyr, Fannar Logi og Björk. Þau búa í Reykjavík.

Systkini Drífu eru 1) Hilmar Bragi Jónsson, matreiðslumaður, f. 25.10. 1942, býr á Spáni; 2) Magnús Brimar Jóhannsson, f. 18.6. 1947, flugstjóri, býr í Hafnarfirði.; 3) Hanna Rannveig Sigfúsdóttir, f. 9.8. 1951, skrifstofumaður, býr í Hafnarfirði; 4) Sjöfn Eydís Sigfúsdóttir, f. 2.2. 1956, skrifstofumaður, býr í Hafnarfirði, 5) Snorri Már Sigfússon, f. 27.10. 1957, býr í Reykjavík.

Foreldrar Drífu voru hjónin Sigfús Sigurður Kristjánsson, frá Nesi í Grunnavík, yfirtollvörður á Keflavíkurflugvelli, f. 17.8. 1922, d. 9.7. 2012, Jónína Kristín Kristjánsdóttir, leikstjóri frá Ísafirði, f. 3.5. 1922, d. 1.10. 2018. Þau byrjuðu sinn búskap í Reykjavík en fluttu síðan til Keflavíkur og bjuggu þar alla tíð síðan.