Það er alltaf skemmtilegt að rifja upp Kristján Fjallaskáld: Við skulum ekki víla hót; það varla léttir trega; og það er þó ávallt búnings-bót að bera sig karlmannlega. Allt þó sýnist blítt og bjart blysum fyrir hvarma, innra getur manni margt megna vakið harma

Það er alltaf skemmtilegt að rifja upp Kristján Fjallaskáld:

Við skulum ekki víla hót;

það varla léttir trega;

og það er þó ávallt búnings-bót

að bera sig karlmannlega.

Allt þó sýnist blítt og bjart

blysum fyrir hvarma,

innra getur manni margt

megna vakið harma.

Aldrei græt ég gengna stund

en gleðst af því sem líður!

ljóst ég veit að læknuð und

lengur ekki svíður.

Kveðið á sandi:

Yfir kaldan eyðisand

einn um nótt ég sveima;

nú er horfið Norðurland,

nú á ég hvergi heima.

Misskilningur:

Misskilur heimur mig,

misskil ég einnig hann,

sig skilið síst hann fær,

sjálfan skil ég mig ei;

furða er því ei, þótt okkar

hvorugur skilji skaparann.

Að síðustu eftir Sveinbjörn Beinteinsson Eirðarleysi:

Minn hugur úr byggðum til fjalla fer

er friður og stilling bregst,

og annan daginn í eyðisker

í óþoli sínu legst.

Limran Hjá grafreit eftir Hrólf Sveinsson:

„Hverjum er holað hér niður?“

„Hér hvílir Jón söðlasmiður.“

„Jón, hæ! Ert það þú?“

„Já, það held ég nú,

en harðdauður alveg, því miður.“

Limra eftir Kristján Karlsson:

„Í stríðum örlagastraumi,“

mælti Steingrímur, „þó að kraumi,

þá stend ég sem fastast

hvert sem strengurinn kastast.

Aftur stendur mér fastast í draumi.“

Sigurður Breiðfjörð kvað:

Gefðu ekki um, þó ögnin smá

í auga tolli mínu;

ber þig heldur burt að ná

bjálkanum úr þínu.

Nathan Ketilsson kvað:

Það er feil á þinni mey,

þundur ála bála,

að hún heila hefur ei

hurð fyrir mála skála.

Sigluvíkur-Sveinn orti um sjálfan sig:

Ég er mæddur, báli bræddur,

blárri klæddur skyrtu líns,

kaffibelgur, ólánselgur,

einnig svelgur brennivíns.