Afhending Hátíðlegt á Alþingi.
Afhending Hátíðlegt á Alþingi. — Ljósmynd/Alþingi
Það var hátíðleg athöfn í Alþingishúsinu á fimmtudaginn í boði forsætisnefndar þingsins þegar Björn Bjarnason fyrrv. þingmaður og systkini hans afhentu Alþingi til eignar og varðveislu gömul Alþingistíðindi frá árunum 1845-1971

Það var hátíðleg athöfn í Alþingishúsinu á fimmtudaginn í boði forsætisnefndar þingsins þegar Björn Bjarnason fyrrv. þingmaður og systkini hans afhentu Alþingi til eignar og varðveislu gömul Alþingistíðindi frá árunum 1845-1971. Ritin hafa verið eigu þriggja þingforseta, þeirra Magnúsar Stephensen, Benedikts Sveinssonar og Bjarna Benediktssonar.

Björn greinir frá því á vefsíðu sinni að bækurnar, sem eru samtals nokkur hundruð á um 15 hillumetrum, voru á heimili Bjarna Benediktssonar í Reykjavík frá 1955 til 2024 og frá 1970 í vörslu Björns sjálfs.

Í ræðu sem Björn hélt við afhendingu bókanna sagði hann það hafa sérstakt gildi að þær tengdust nöfnum þriggja þingforseta sem spönnuðu tæplega eina öld í sögu Alþingis. Þá nefndi hann að í hópi viðstaddra væru þrjú sem setið hefðu á Alþingi og ættu Benedikt Sveinsson fyrir afa. Frændi þeirra systkina, Halldór Blöndal, hefði auk þess verið þingforseti frá 1999 til 2005.

Björn sagði við tilefnið að í forsetatíð Halldórs hefði verið tekið til við að skanna gömul þingtíðindi á Ólafsfirði og nú væru þau aðgengileg frá upphafi á netinu með leitarbúnaði.

Hann taldi að það hefði sérstakt gildi að varðveita þennan hluta þingtíðindanna innbundinn sem samstæða heild og að engum væri betur til þess treystandi en Alþingi sem ætti sitt eigið heildarsafn. Fyrir utan þingtíðindin afhentu systkinin forseta Alþingis til varðveislu gamlar útgáfur af stjórnarskránni og þingsköpum sem gjarnan voru prentuð í litlum kverum fyrir þingmenn og aðra til að hafa við höndina. Þá fylgdu einnig nokkur sérprent gjöfinni.